-Auglýsing-

Telur landlækni geta borgað rannsóknina

Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra hafnar því með öllu að landlæknisembættið hafi ekki getað gert rannsókn á mannlegum mistökum innan íslenskra sjúkrahúsa vegna kostnaðar. Embættið hafi verið mjög vel haldið fjárhagslega á undanförnum árum.

Fréttablaðið sagði frá því í gær að rannsókn væri hafin á vegum Landlæknisembættisins á tíðni “óvæntra skaða” á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Staðið hefur til að gera rannsókn sem þessa í nokkur ár en af því hefur ekki orðið vegna fjárskorts, að sögn Sigurðar Guðmundssonar, forseta Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og fyrrverandi landlæknis, sem er ábyrgðarmaður rannsóknarinnar. Rannsóknin kostar um átta milljónir króna en þegar liggur fyrir styrkur frá heilbrigðisráðuneytinu og Félagi hjúkrunarfræðinga að upphæð 700 þúsund krónur.

“Mér finnst eðlilegt að farið sé í rannsókn sem er sambærileg við þær sem aðrar þjóðir hafa gert, telji menn þess þörf. En ég kaupi ekki þau rök að það hafi ekki verið hægt að gera þessa rannsókn vegna fjárskorts,” segir Álfheiður. “Þegar ég auglýsti eftir nýjum landlækni hér fyrir áramót þá kom fram að það stæði til að efla eftirlitshlutverk landlæknis. Það má skilja það bæði með tilliti til kreppunnar, en kannski líka að manni finnist ekki að þessu eftirliti hafi verið sinnt nægilega vel á undanförnum árum.”

Hún segir að landlæknisembættið hafi fengið ríflegar fjárveitingar á undanförnum árum og embættið hafi haft jákvæðan höfuðstól upp á um þrjátíu milljónir króna árið 2008 og ef rannsóknir séu taldar nauðsynlegar hljóti þær að vera forgangsatriði þar innan dyra.

Geir Gunnlaugsson landlæknir segir að ákveðinn afgangur hafi verið af rekstrarfé sem færst hafi á milli ára. Það hafi tekist með harðri fjármálastjórn. Geir segir að það hafi ekki verið nýtt í rannsóknina enda styrki embættið ekki rannsóknir að öllu jöfnu. Hann er ekki þeirrar skoðunar að ráðuneytið eigi að reiða fram átta milljónir til að klára rannsóknina.

Hann segir það fullan ásetning sinn að rannsóknin verði framkvæmd og embættið leggi henni lið með mannafla og faglegu innleggi. Fáist ekki styrkirnir þýði það ekki að rannsóknin verði ekki unnin og til greina komi að embættið láti fé renna til verksins síðar, komi upp sú staða.

- Auglýsing-

Fréttablaðið 03.06.2010

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-