-Auglýsing-

Styttri bið eftir hjartaþræðingum

AUKNAR fjárveitingar og væntanleg ný rannsóknarstofa eru að breyta landslaginu í hjartaþræðingum á Landspítalanum. Um 200 manns voru á biðlista fyrir rúmu ári og lengdist biðlistinn þegar líða tók á árið. Þegar mest var biðu um 250 manns eftir hjartaþræðingu. Sá listi hefur styst mikið á undanförnum mánuðum og kemur til með að styttast enn frekar á þeim komandi.

„Okkur hefur tekist að setja í þetta kraft. Það voru settir svolitlir fjármunir í að vinna lengur á daginn og meira um helgar en einnig til að taka bráðatilvikin hraðar í gegn. Það hefur gert okkur kleift að kalla fleiri inn og nú erum við komin niður í um 170 sjúklinga á biðlista,“ segir Guðmundur Þorgeirsson, sviðsstjóri lækninga á lyflækningasviði. Afköstin hafa aukist verulega á undanförnum mánuðum og enn er útlit fyrir að hægt sé að gera betur.

-Auglýsing-

„Við erum með tvær rannsóknarstofur og það hefur verið einn flöskuháls. Nú er verið að setja upp þriðju rannsóknarstofuna. Búið er að kaupa tækin og verið að breyta húsnæðinu.“

Þokast allt í rétta átt
Með breytingum á húsnæði verður meðal annars aukið legurými fyrir þá sjúklinga sem hraðast fara í gegn, þ.e. þurfa ekki að dvelja yfir nótt á spítalanum. „Þetta þokast því allt í rétta átt.“

Á síðasta ári voru gerðar tæplega 1.800 hjartaþræðingar á Landspítalanum en 1.600 árið áður. Enn er reiknað með að þeim fjölgi á þessu ári, líklega í uppundir 1.900 þræðingar. Og ekki er útlit fyrir annað en að eftirspurnin haldi áfram að vaxa. Tvær ástæður eru fyrir því helstar. „Í fyrsta lagi lifa Íslendingar sífellt lengur og lengur,“ segir Guðmundur. „Og í öðru lagi lifa fleiri með hjartasjúkdóm.“

Afar vel gengur að meðhöndla bráðakransæðastíflur, s.s. með skyndilegri eða tafarlausri kransæðavíkkun eða -þræðingu. Sérstakri vakt er haldið úti allan sólarhringinn, árið um kring, og bráðakransæðastífla því nær ávallt meðhöndluð þannig.

- Auglýsing-

„Fyrir vikið eru miklu fleiri sem lifa með kransæðasjúkdóm og það kallar auðvitað á aukna þjónustu. Þetta fólk fær kannski sömu einkenni síðar, þannig að umfang þessrar starfsemi mun í eðli sínu, að öllum líkindum, halda áfram að vaxa.“

Vonast er til að rannsóknarstofan nýja komist í gagnið í nóvember eða desember.

Í hnotskurn

» Árið 2006 voru gerðar um 1.600 hjartaþræðingar á Landspítalanum. Ári síðar voru þær komnar upp í tæplega 1.800.
» Í ár er gert ráð fyrir að hjartaþræðingar á LSH fari upp undir 1.900 og þeim haldi áfram að fjölga á næstu árum.
» Um mitt ár í fyrra voru um 200 sjúklingar á biðlista eftir hjartaþræðingu. Með átaki hefur tekist að grynnka á listanum sem telur nú um 180 sjúklinga. Útlit er fyrir að hann styttist á næstunni.

Eftir Andra Karl andri@mbl.is

Morgunblaðið 31.08.2008

 
P.S. Ég vil benda áhugasömum á pistil sem ég skrifaði hér inni á hjartalíf.is fyrir stuttu um “hugleiðingar um hjartaþræðingatæki” en pistilinn má sjá hér
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Fyrri grein
Næsta grein
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-