-Auglýsing-

Spítalalíf

Eyjan.is státar af því að hafa erindreka orðsins á götunni í sínum röðum. Orðið á götunni sem birtist á eyjunni í dag er eftirtektarvert og hljóðar svo.

 Orðið á götunnier að innvígðir og innmúraðir í heilbrigðisgeiranum töldu sig vita með allnokkrum fyrirvara hver yrði nýr forstjóri Landspítalans. Þetta hafði legið í loftinu um talsverðan tíma, þó að ráðherrann hafi – útávið – verið þögull sem gröfin. Nokkur spenna hljóp í málið þegar kom í ljós að fráfarandi stjórnendur höfðu skilað betri rekstrarafkomu spítalans á fyrra helmingi ársins, heldur en sést hefur í manna minnum. Annar þeirra, Björn Zoega, sóttist nefnilega líka eftir starfinu.

Hinum innvígðu þykir mörgum skrítið að fara yfir pollinn til Noregs eftir nýjum forstjóra þegar vel hæfur maður var þegar sestur við stjórnvölinn. Hvers vegna var ráðherra Sjálfstæðisflokksins væri að sækja krata til Noregs í djobbið – og um leið að útvega maka hennar – hátt settum í norska jafnaðarmannaflokknum – vinnu á Íslandi í leiðinni?

Orðið á götunni er pólitík. Þannig gæti val heilbrigðisráðherra tengst því að formaður íslenskra krata, Ingibjörg Sólrún, lánaði einn helsta ráðgjafa sinn í utanríkisráðuneytinu, Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, til heilbrigðisráðuneytisins til að koma skikki á rekstur spítalans. Kannski þetta tengist því líka, að til að koma á umbótum í rekstri spítalans vildi heilbrigðisráðherrann losna við fyrrverandi forstjóra, Magnús Pétursson, og til þess þurfti hann stuðning formanns samstarfsflokksins – og fékk hann.

Nú bíður nýs forstjóra að glíma við erfið verkefni. Hulda Gunnlaugsdóttir er hjúkrunarfræðingur að mennt með ýmislegt viðbótarnám í stjórnunar- og spítalafræðum. Hún hefur rekið sjúkrahús í Noregi, en spítalamenn á Íslandi efast um að sú reynsla ein og sér dugi, Landspítalinn sé að eðli og allri gerð afar frábrugðinn hinum norsku spítulum sem hún hefur unnið við. Í fyrsta lagi er Landsinn á fjárlögum og þar af leiðandi í eilífum fjárhagskröggum sem stafa af því að fjárveitingar eru ekki endilega í neinu samræmi við verkefnin. Í Noregi sé kostnaðurinn aftur á móti greiddur eftir verkefnum. Þá sé sérhæfing mikil á norsku spítulunum og reksturinn þar af leiðandi í mun fastari skorðum en hér, þar sem öllu ægir saman á einni stofnun.

Loks ber að nefna stærstu þolraunina sem Hulda stendur frammi fyrir: Að ráða við alla smákóngana sem áratuga hefð er fyrir á Landsanum. Hver heilbrigðisráðherrann eftir annan hefur farið halloka í þeim viðureignum og hver forstjórinn eftir annan látið undan í því stríði. Töffaranum, sem gegndi bráðabirgðaforstjórastöðunni, var vikið aftur í sitt gamla starf, væntanlega í þeirri von að hann verði um kyrrt og taki ekki boðum sem hann hefur fengið frá ýmsum erlendum spítulum um frama þar.

- Auglýsing-

Orðið á götunni er að Hulda megi hrósa happi að hafa Björn sér við hlið. Hann geti aðstoðað hana í slagnum við smákóngaveldið sem keyrt hafi upp rekstrarkostnað spítalans, reyndar tekið rekstrarkostnaðinn nánast úr sambandi við nokkuð sem kalla megi stjórnun. Þá kemur það í ljós – er hún nagli eða …

 
www.eyjan.is 30.08.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-