-Auglýsing-

Krefjandi verkefni

Nýs forstjóra Landspítalans, Huldu Gunnlaugsdóttur, bíður krefjandi verkefni. Þótt rekstur spítalans hafi batnað að undanförnu þarf í raun að umsnúa starfsemi hans.

Starfsfólk Landspítalans er orðið þreytt á eilífum niðurskurði og aðhaldi og margir kvarta undan óhóflegu vinnuálagi. Aukinheldur hafa samskipti yfirstjórnar spítalans og starfsmanna verið í ólagi mörg undanfarin ár.

Eins og mál standa í efnahagslífinu blasir við að ekki verður hægt að setja meira fé í heilbrigðisþjónustu í bráð, fremur en annan ríkisrekstur. Leita verður leiða til að fá meira fyrir peningana.

Landspítalinn og önnur sjúkrahús í landinu þurfa í vaxandi mæli að fá tekjur eftir árangri og afköstum. Slíkt hvetur starfsfólk til að leggja sig fram og leita lausna, fremur en sífelldar kröfur um flatan niðurskurð á kostnaði. Hulda Gunnlaugsdóttir segist í viðtali hér í blaðinu í gær vera mjög upptekin af gæðum og þjónustu; „vera með hagkvæman rekstur og meðhöndla fleiri sjúklinga og á betri hátt“.

Þetta er hugsun, sem þarf að innleiða í ríkisreksturinn í meiri mæli. Eins og staðan er nú er stofnunum sem halda sig innan fjárheimilda iðulega refsað, en þeim sem missa kostnaðinn úr böndunum er bjargað með fjáraukalögum.

Landspítalanum er mikill akkur í að fá Huldu Gunnlaugsdóttur í forstjórastólinn. Hún kemur úr heilbrigðisgeiranum; er hjúkrunarfræðimenntuð og þekkir innviði stórra sjúkrahúsa vel af eigin raun. Hún hefur stýrt stóru sjúkrahúsi í Noregi með góðum árangri. Sér við hlið mun hún hafa Björn Zoëga, sem verður staðgengill forstjóra og hefur undanfarið verið annar tveggja settra forstjóra spítalans. Þetta er öflug forystusveit.

Ummæli nýja forstjórans í Morgunblaðinu í gær benda til að hún muni vinna þétt með fagfólki sjúkrahússins að því að bæta þjónustuna og nýta fjármuni betur, m.a. með því að skoða hvaða áhrif ný tæki og lyf hafi á þörf fyrir mannafla og þjónustu. „Við stjórnendur megum ekki koma á eftir, við verðum að vinna með starfsfólkinu sem hefur alla þessa kunnáttu og þekkingu,“ segir Hulda. Hún tekur fram að hún muni vinna meðal starfsfólksins, en geri líka miklar kröfur.

- Auglýsing-

Verkefni nýs forstjóra er ekki bara erfitt; það er líka spennandi. Bygging nýs háskólasjúkrahúss stendur fyrir dyrum. Spítalinn hefur yfir frábæru starfsfólki að ráða. Með nýrri hugsun og betri rekstri er hægt að tryggja Íslendingum áfram einhverja beztu heilbrigðisþjónustu, sem í boði er.

Ritstjórnarpistill Morgunblaðinu 01.09.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-