-Auglýsing-

Líffæraflutningar endurskoðaðir

Samningur við Dani endurskoðaður. Ákveðið hefur verið að kanna samvinnu um líffæraflutning við háskólasjúkrahúsin í Ósló, Gautaborg og Stokkhólmi. 

Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn verður tilkynnt að samningur Íslendinga við spítalann um líffæraflutninga verði endurskoðaður. Sveinn Magnússon, formaður nefndar um líffæraígræðslur og skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu, sagði sjónir manna hér m.a. beinast að háskólasjúkrahúsum í Osló, Gautaborg og Stokkhólmi varðandi samvinnu um líffæraflutninga. Sveinn sagði að búið sé að rita bréfið um endurskoðun samningsins við Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn og að það verði sent fljótlega. Segja ber samningnum upp með sex mánaða fyrirvara.

„Við látum Danina fyrst vita að við ætlum að líta í kringum okkur. Svo munum við skrifa að minnsta kosti þremur sjúkrahúsum á Norðurlöndum um stöðu okkar og hvort þau hafa eitthvað að bjóða okkur,“ sagði Sveinn. Margt þarf að taka til greina þegar valið er sjúkrahús til samstarfs um líffæraflutninga. Sveinn nefndi t.d. greiðar samgöngur og eins að ýmis þjónusta við sjúklinga og aðstandendur sé nærtæk. Hann nefndi t.d. íslenska presta búsetta erlendis sem oft hafa sinnt mikilvægri sálgæslu og stuðningi í tengslum við líffæraflutninga.

Biðtími mjög breytilegur

Norðurlöndin hafa samstarf um líffæraflutninga í gegnum Scandiatransplant. Þegar t.d. líffæri eru gefin héðan kemur sérhæft teymi með þotu frá Danmörku, gerir aðgerðina og fer með líffærin. Algengast er að Íslendingar hafi gefið nýru og lifrar.

Biðtími væntanlegra líffæraþega er mjög breytilegur, að sögn Sveins. Bæði skiptir máli eftir hvaða líffæri er beðið og eins hvort það líffæri sem býðst hverju sinni passar þeim sem bíður hvað varðar vefjasamræmi.

- Auglýsing-

Hér á landi er alltaf leitað samþykkis ættingja ef líffæri er numið úr látnum manni. Ekki er stuðst við „ætlað samþykki“, þ.e. að hafi hinn látni ekki beinlínis bannað það sé heimilt að nema úr honum líffæri, eins og mun gilda í sumum Evrópulöndum. „Þó að ætlað samþykki sé leyft á Spáni láta þeir það aldrei gilda,“ sagði Sveinn. „Þeir fara ekki gegn vilja ættingja. Við höfum farið að ráðum Spánverja og fleiri þjóða um að styrkja innviðina á Landspítalanum hvað þetta varðar. Að þar sé starfsfólk sem kann að taka á þessum aðstæðum þegar þær skapast. Spánverjar hafa ekki séð aukningu verða með lagasetningu heldur við það að koma á fót líffæragjafarteymum á sjúkrahúsum. Þetta var gert á Landspítalanum á miðju þessu ári,“ sagði Sveinn.

Í hnotskurn

» Biðin eftir líffærum hefur aukist að undanförnu og dæmi um, að bið eftir lifur taki nú tvö ár í stað sex mánaða áður.
» Frá 1993 hafa Íslendingar gefið líffæri í sérstakan banka og á þessum tíma hafa þeir gefið fleiri líffæri en þeir hafa þegið.

Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is 

Morgunblaðið 02.09.2008
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-