-Auglýsing-

Skilyrði hamingjunnar um betri tíð

Við erum okkar eigin gæfu smiðirAð sjálfsögðu hreyfir það við okkur þegar neikvæðir hlutir gerast sem hafa áhrif á líf okkar og velferð. Setur okkur jafnvel út á hlið um stund. Það er erfitt að ganga í gegnum veikindi, kreppu og atvinnumissi. Við verðum reið þegar okkur finnst við beitt misrétti eða svikin og það skiptir okkur máli hvaða ákvarðanir stjórnvöld taka um málefni sem varða okkur beint. Það er eðlilegt og við eigum að hafa skoðun, ræða við okkar nánustu og þá sem hafa áhrif. Vera virk í að bæta samfélagið okkar eins og við mögulega getum.En hvar eru mörkin ef við hugum að eigin hamingju og lífsgæðum? Hvenær er barátta okkar og réttsýni orðin að neikvæðu afli? Eins nauðsynlegt og það er að standa á sínu og axla ábyrgð í samfélaginu, þá er mikilvægt að axla ábyrgð á eigin líðan og tilfinningum. Hvenær hefur eigin krafa um hagstæðari ytri aðstæður áhrif á innri líðan og hamingju?Auðvitað er ekki hægt að lifa í þessum heimi án áhrifa óréttlætis og erfiðleika. En hver eru viðbrögð okkar, hvað gerum við í aðstæðunum og hvert beinum við orku okkar? Hefur þú spáð í það hversu mikil áhrif þínar eigin hugsanir hafa á líðan þína? Hefur þú uppgötvað hversu miklu máli það skiptir fyrir tilfinningaviðbrögð þín hvernig þú túlkar og setur málin upp þegar þú hugsar um þau og tjáir við aðra? Ef ég myndi biðja þig um að draga saman hvernig þú hefur lýst lífi þínu og aðstæðum fyrir sjálfum þér og öðrum síðustu mánuði, hvernig hljómar þú þá? Hvaða tilfinning verður til í líkamanum þegar þú segir „Ég er að drepast úr álagi og þreytu.“ „Það gengur endalaust eitthvað á.“ „Það er ekki hægt að lifa á þessum launum / í þessu landi.“ „Fólk er fífl“?

Það er svo sannarlega margt rétt og satt af því sem við segjum sjálfum okkur og öðrum. Auðvitað er margt af því erfitt og óréttlátt sem við göngum í gegnum. Þannig er lífið. En hvað þarf til svo þú getir samt notið lífsins eins og það er? Hvað þarf til svo þú getir samt verið hamingjusöm/samur í dag? Við þekkjum öll lögmál Murphys um að það sem geti klikkað muni gera það. Kannski örlítið ýkt, en hvað þurfum við að gera til að geta samt byggt upp hamingju og lífsgæði þó svo að hlutirnir þróist oft á annan veg en við vonuðumst til?

Það er langur vegur frá því að horfast í augu við hluti og velta sér upp úr þeim. Það er mikill munur á því að vera ósáttur og óhamingjusamur. Við eigum öll tíma þar sem vandræðin ná okkur um stund. Við missum öll móðinn og sjáum ekki gleðina í því sem er, á meðan við fókusum á það sem ekki er. Auðvitað. En kannski felst lífsleiknin einmitt í því að vera samt eins hamingjusöm og við getum. Að færa athyglina með skilningi frá kerfinu sem brást okkur, fólkinu sem skilur ekki/kann ekki/vill ekki og skortinum sem heftir okkur, yfir á þá hluti sem við getum haft stjórn á og breytt. Kannski felast lífsgæðin í því að koma skilmerkilega sjónarmiðum okkar á framfæri, gera allt sem við getum til að hafa áhrif á samfélagið og velferð okkar, en axla samt þá ábyrgð að vera ekki tilfinningalega háður ytri aðstæðum. Erfiðir hlutir munu halda áfram að gerast, hvað getur þú samt gert í dag til að njóta lífsins?

Mjöll Jónsdóttir sálfræðingur
www.heilsustodin.is

-Auglýsing-
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-