-Auglýsing-

Sjúklingur með hjálparhjarta látinn


Sjúklingurinn sem grætt var í hjálparhjarta er látinn. Við hjá hjarta.net vottum fjölskyldu og ættingjum sjúklingsins samúð okkar.
Eftirfarandi fréttatilkynning birtist á vef LSH og birtist hún orðrétt.

Fréttatilkynning:

Hjálparhjarta var í fyrsta sinn á Íslandi grætt í 64 ára gamlan mann 9. maí 2007. Ítarlegar rannsóknir sýndu að ígræðsla á hjálparhjarta væri hans eina von um bata og áframhaldandi líf. Sjúklingurinn, ástvinir og starfsfólkið gerðu sér grein fyrir því hve krítískt ástand hans var.

-Auglýsing-

Fyrir aðgerð fór hjartabilun sjúklingsins hratt versnandi og svo fór að hann þurfti svokallaða ósæðardælu síðustu tvo dagana áður en ígræðsla á hjálparhjartanu gat átt sér stað, annars hefði hann ekki lifað fram að aðgerðinni. Það stóð svo á endum að hjarta sjúklingsins hætti allri starfsemi um það leyti sem aðgerðin var gerð. Varanlegt hjálparhjarta, HeartMate II, var ígrætt og gekk aðgerðin vel. Hjálparhjartað tók yfir starf vinstri hluta hjartans, það er dældi blóði úr vinstri slegli yfir í ósæð sjúklingsins. Hægri hluti hjartans var því miður einnig alvarlega bilaður en vonir stóðu til að sá hluti hjartans myndi ná sér nægilega á nokkrum dögum eftir aðgerðina. Sökum svæsinnar hægri hjartabilunar var því nauðsynlegt að græða inn skammtíma hjálparhjarta, Impella dælu, hægra megin. Impella dælan tók yfir starfsemi hægri hluta hjartans, það er dældi blóði frá hægra framhólfi yfir í lungnaslagæðina. Að aðgerð lokinni var sjúklingurinn svo fluttur á gjörgæsludeild til áframhaldandi meðferðar. Impella skammtíma hjálparhjarta hefur áður verið notað á Íslandi með góðum árangri en sú dæla getur aðeins starfað tímabundið eða í allt að tíu daga.

Sjúklingnum var haldið sofandi en dælurnar sáu alfarið um hjartastarfsemina. Ljóst var að áframhaldandi líf sjúklingsins var háð því að hægri hluti hjartans myndi ná sér og það í tæka tíð. Því miður tók hægri hluti hjartans ekki við sér eins og vonast hafði verið til þrátt fyrir hvíldina sem Impella dælan skapaði. Á níunda degi var útséð um að hægri hluti hjartans myndi ekki ná að starfa og var þá óumflýjanlegt að draga í land öllum til sárra vonbrigða. Sjúklingurinn lést því þann dag með ástvini sína nærstadda. Við sem reyndum að bjarga lífi sjúklingsins vottum fjölskyldu og ástvinum dýpstu samúð.

Kærar þakkir til allra sem lögðu sig fram við þetta erfiða tilfelli.

Bjarni Torfason yfirlæknir

- Auglýsing-

(Fréttatilkynningin er birt með samþykki aðstandenda sjúklingsins.)

www.lsh.is 21.05.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-