-Auglýsing-

Sigur!

gleiÞessi dagur fer mér seint úr minni.

Ég hélt að ég myndi fá taugaáfall þegar ég sat í sal 402 kl. 10 og aðeins sekúndur í að dómur yrði kveðinn upp. Dómurinn var lesinn upp og ég skildi hann og við unnum… eða misskildi ég eitthvað, unnum við ekki? Af hverju sé ég ekki svipbrigði á neinum? Hver vann? Nei! Unnum við ekki!!! Við stóðum upp og augu mín brunnu á skinni Heimis, hvernig bregst hann við? Við gegnum út úr salnum og hann tók stórt fagn! Við unnum!!!

Þetta er einstaklega undarleg aðstaða. Ég kann ekki svona tilfinningaleysi í tilfinningaríkum atburðum. Ég brotnaði og grét en hló um leið. Var glöð en um leið smá vandræðaleg yfir því að fella tár í þessu tilfinningalausa húsi.

Við gengum niður stigann og þrátt fyrir gleðina varð ég gagntekin reiði í smá stund. Lögfræðingur íslenska ríkisins sem hefur barist á móti okkur allan þennan tíma heldur að við séum bara fólk sem hún getur tjattað við og rætt um trén og veðrið í mestu vinsemd. Eins og ekkert af þessu hafi verið persónulegt. Að hún skuli dirfast! Það getur vel verið að á milli lögfræðinga ríki friður þó þeir berjist á móti hver öðrum, þetta er líka vinnan þeirra. EN, það er alveg á hreinu að þetta er ekki vinnan okkar, þetta er ekki hversdagslegur hlutur hjá okkur og lögfræðingurinn sem er andlitið á þeim sem við erum að keppa við, er ekki vinur okkar. Láttu okkur í friði. Leyfðu okkur að hata þig. Leyfðu okkur að sitja í kyrrð fyrir dómsúrskurðinn og ná saman kjarki til að takast á við verkefnin en ekki spjalla við okkur eins og við værum í fermingarveislu. Drusla! Í aðstæðunum þá tekst maður hins vegar ekki á við þetta, ég sagði henni ekki að þegja og að láta okkur í friði. Ég svaraði henni kurteislega og tók undir helvítis spjallið hennar. En eftirá þegar við gengum út, þegar tilfinningarnar æddu í gegnum líkamann þá kom þetta upp líka. Gleðin var samt sterkari. Ég klappaði laust á öxlina á Bjössa sem var aðeins að missa sig á leið niður tröppurnar eftir dóminn. Svaraði henni pínu, varð greinilega pínu reiður líka. Hún gekk þá bara aðeins hraðar og fór út á undan okkur. Hún má þó eiga það að hún fór.

Það verður ekki of hátt og oft sagt að Heimir, lögfræðingurinn okkar, stóð sig ekki bara eins og hetja, heldur eins og einhver sem virkilega vildi skilja þetta mál og standa með okkur í gegnum þetta. Ég hef nú ekki oft séð til lögfræðinga í starfi sem betur fer en ég gerði mér samt grein fyrir því að starfið sem hann vann var framúrskarandi. Það var hreinlega aðdáunarvert að sitja úti í sal þegar málið var flutt, og horfa á Heimi, með hjartalínurit í höndunum og tala um ST hækkanir og q takka eins og hann hefði aldrei gert annað! Það sem vann þetta mál var undirbúningur. Það gerði það að verkum að læknisfræðilegt hjal sem átti að slá okkur út af laginu varð eitthvað sem við skildum og gátum svarað. Það er eitt að við sitjum yfir hjartabókum af Amazon en annað að Heimir skuli gera það líka. Það er einstakt að hafa þennan mann við hlið okkar og við erum honum þakklát umfram allt sem orð okkar geta tjáð.

Ég þori nú ekki að tala um dómarana. Finnst eins og það megi ekki. En okkur var það strax ljóst þegar við litum þá augum að dómurinn myndi verða réttlátur. Ef við myndum vinna þá myndum við vinna vegna þess að við hefðum rétt fyrir okkur. Ef við myndum tapa þá væri það vegna þess að lagaramminn væri okkur eitthvað erfiður en að dómararnir hefðu þá ekki haft annan kost en að dæma á þann veg. Það gerði það einnig erfitt að bíða. Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra það á annan hátt en að segja að þó ég hafi alltaf vitað það í hjarta mínu að málstaður okkar væri réttur þá var ég hrædd við að tapa því ef við myndum tapa þá væri það á einhvern hátt óumflýjanlegt fyrst þetta fólk sat í dómnum. Hmm veit ekki hvort þetta skilst rétt, en ég allavega fann að dómararnir voru fólk sem ég treysti til að meta málið og ég treysti mati þeirra. Ég vildi að ég gæti þakkað þeim en væntanlega er það óviðeigandi. Ég er hins vegar þakklát fyrir réttarkerfi sem virkaði í þetta skiptið og fyrir fólk sem þorir og tekur þá ábyrgð að dæma og gera það vel. Ég er þakklát.

- Auglýsing-

Við kvöddum Heimi. Við föðmuðumst og við grétum. Við röltum á kaffi parís og pöntuðum okkur eitthvað sem skipti engu máli. Við þurftum bara að sitja og átta okkur og hringja í alla. Ég grét í hvert skipti sem ég sagði í símann, við unnum. Ég jafnaði mig svo, kláraði símtalið og hringdi í næsta. Grét þá aftur og svona gekk þetta í líklega klukkutíma á kaffi parís! Hahaha hvað ætli fólk hafi haldið um okkur þarna. Grenjandi og talandi í sitthvorn símann í klukkutíma og gengum svo út:-)

Ég veit það ekki. Þessi dagur breytti lífi mínu. Ég geng með spennta magavöðva sem ég hef ekki gert lengi. Fattaði það allt í einu þegar ég fann að þeir voru ekki til í átök. Ég fékk löngun til að takast á við lífið með bros á vör. Hell! Mig langaði meira að segja til þess að fara í leikfimi og ná af mér þessum mörgu streitukílóum sem hafa hlaðist á mig undanfarið!

Ég finn það að þessi dómur skiptir sköpum í lífi okkar. Auðvitað þurfum við bæturnar vegna þess að öryrkjar hafa ekki leyfi til að lifa mannssæmandi lífi á þessu landi, en aðallega vegna þess að við fengum dóm sem sagði að það sem við erum búin að vera að segja í 5 ár var rétt.

 

Hér er dómurinn fyrir þá sem hafa áhuga og úthald til að lesa 🙂

 

http://domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=E200603992&Domur=2&type=1&Serial=1&Words=

 

- Auglýsing -

Mjöll

-Auglýsing-
-Auglýsing-
mjoll
mjoll
Mjöll er klínískur sálfræðingur og hjartamaki. Hún þekki hlutverk aðstandenda hjartasjúklings með hjartabilun vel.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-