-Auglýsing-

Hugrenningar eftir Sigur!

Mögnuð stund!

Lamandi ótti í aðdraganda og óútskýranleg tilfinning léttis, gleði og uppreisn æru eftir úrskurðinn!

-Auglýsing-

Við erum búin að berjast við kerfið í næstum 5 ár, og baráttan er ekki búin enn. Sigurinn var þó sætur og sú fullyrðing er meira að segja understatement eins og maður segir. Ég hef aldrei upplifað annað eins, enda aldrei áður unnið mál fyrir rétti.

Það er varla hægt að gera þessari baráttu skil í stuttu máli. Við erum búin að upplifa ítrekaðar niðurlægingar og mótlæti í þessu máli. Fyrir utan að það að fyrsti lögfræðingurinn dó frá málinu, sá næsti hætti til að gerast hæstaréttardómari og að sá næsti hætti í starfi, þá hefur “spítalinn” ítrekað sýnt okkur lítisvirðingu og reynt að láta okkur hætta. Þetta verð ég þó að segja að er okkar túlkun á því sem gengið hefur á en auðvitað veit ég ekkert hvað var beint á bak við þær uppákomur sem við lentum í. Það er samt ljóst að það var barist á móti okkur af fullum krafti og ekkert gefið eftir. Stundum datt manni í hug að tilgangurinn væri bara sá að draga þetta á langin til þess að sjá hvort kallinn gæfi ekki bara upp öndina og þeir þyrftu þá ekki að borga. Hvernig er hægt að taka þá ákvörðun að berjast á móti sjúklingi sem augljóslega var næstum drepinn af starfsfólki spítalans? Er ekkert sem heitir að bera ábyrgð á gjörðum sínum og ekkert sem heitir heiður og virðing? Augljóslega ekki.

Frá byrjun hefur verið komið fram við Bjössa eins og hann sé fyrir og að hann sé bara frekja og nöldurseggur. Það er ótrúlegt hvað maður þarf að berjast fyrir því að fá þá þjónustu sem maður á að fá samkvæmt lögum á þessum spítala. Þá er ég reyndar ekki að tala um það fólk sem sinnir honum fast. Hans fasti læknir Axel er… ég myndi segja engill ef það væri ekki svona kvenlegt… hann hefur einfaldlega reynst okkur klettur í ólgandi sjó og einlægni hans og auðmýkt vingjarnleg tilbreyting frá hrokafullu viðmóti margra annara. Magnús á Reykjalundi hefur einnig verið einstakur í þessari baráttu. Hann á alltaf klapp á öxlina og falleg orð handa stríðshrjáðu fólki og þó ekkert hafi verið hægt að segja gott um heilsuna þá hefur hann alltaf haft eitthvað gott að segja þó ekki væri nema örfá kærleiksrík orð um það að við verðum bara að halda áfram. Það er fleira fólk eins og Mundína sjúkraþjálfari og Anna á göngudeildinni sem ég hef minni reynslu af en veit að hafa haldið Bjössa á floti. Það að fá reglulega að hitta svona faglegt en um leið skemmtilegt og gefandi fólk er einstakt og gefur tilgang og reglu í þetta líf sem hann Bjössi minn lifir. Ég hef svo lítið innsæi í þetta líf hans þó ég standi honum næst. Hvernig er hægt að setja sig í þau spor sem hann er í. Ég get það ekki þó ég reyni oft. Ég verð pirruð og reið og þreytt og leið bara yfir þessu venjulega lífi. Ég er reyndar oftast glöð en lífið nær mér stundum. Hann lifir samt lífi sem býður upp á svo miklu fleiri tilefni til þess að verða reiður og svekktur og þreyttur og þreyttur á að vera þreyttur og finna til. Hann verður samt ekkert meira pirraður en ég og er ekkert meira leiður en ég. Hann stendur beinn í baki í þessari baráttu sinni þó þrekið sé ekki mikið. Og það er að miklu leyti þeim að þakka sem ég nefndi hér að ofan. Já og auðvitað einnig vegna þess gífurlega stuðnings sem hann hefur fengið frá Guðfinnu Eydal. Sálfræðingurinn sem skilur hann og hjálpar en ríkið neitar að borga fyrir, af því hún vinnur ekki á spítalanum.

Mig langar að nefna nokkur dæmi, setja þau út í loftið, því það er kominn tími til að kveðja þetta og takast á við ný verkefni.

- Auglýsing-

Læknirinn sem bar ábyrgð á mistökunum sem nú er búið að dæma um og eru skaðabótaskyld og sannarlega mistök, hann baðst afsökunar nokkrum dögum eftir hjartaáfallið. Hann sagðist skilja það vel ef Bjössi væri reiður og vildi skipta um lækni. Bjössi sagði að fyrst hann væri maður til þess að eiga þetta samtal við sig þá sæi hann ekki ástæðu til þess að skipta og að allir gætu gert mistök þó þeir væru annars góðir í sínu starfi. Bjössi hélt honum því áfram sem lækni sínum. Eftir að málið fer í gang og lögfræðingur okkar sendi bréf, að við héldum sem formsatriði, til að hefja ferli samninga um upphæð bóta, þá fengum við skýrslu í hendur frá lækninum þar sem hann kallar Bjössa nánast lygara og segist aldrei hafa viðurkennt nein mistök og ekki telja það að neitt hafi verið gert rangt.

Bjössi fær mikla verki, mikla mæði, svima og fleiri einkenni sem eru meiri og verri en á venjulegum degi. Við förum því upp á bráðamóttöku og hann leggst þar í rúm og er rannsakaður. Þar kemur að hjartasérfræðingur. Segir Bjössa bara vera latann, það sé ekkert að honum og líklegast sé hann bara haldinn síþreytu. Stuttu seinna kom í ljós að Bjössi þurfti að fara í opna hjartaaðgerð til þess meðal annars að fjarlægja æðagúlp á hjartanu. Eftirá að hyggja þá sjáum við hvað Bjössi var nálægt því að deyja áður en hann fór í þessa aðgerð. Hann var alltaf veikur. Hann gat sig ekki hreyft án þess að fá mikla verki og mikla mæði. Hann leið oft nánast út af bara við það að fara í búð eða eitthvað slíkt og þurfti oft að krjúpa niður á gólf þar sem hann var til að detta ekki í gólfið vegna súrefnisskorts.

Jóhannes forstjóri spítalans sendi bréf vegna málsins. Svar við upphaflegu kröfu okkar um að fá greiddar bætur. Þar var niðurstaðan sú að Bjössi hefði fengið fyrirmyndar þjónustu og ekki bara það heldur átti hann að vera þakklátur fyrir þá þjónustu sem hann fékk. Hvað fær fólk til að skrifa svona?

Augngoturnar, talið, það hvernig dregið var úr veikindum hans og gert lítið úr einkennum sem hann fann fyrir en alltaf sagt að hann ætti bara að vera betri. Undirtónninn sem sagði alltaf að hann væri að ýkja, þetta væri í hausnum á honum og að hann væri bara að væla. En auðvitað kom þetta frá fólki sem vissi ekki betur. Það hefði hins vegar getað vitað betur ef málið hefði ekki verið kæft í pappírum, greinargerðum, skýrslum og endalausum töfum og rugli. Það hefði vitað betur ef spítalinn hefði tekið ábyrga afstöðu og viðkennt mistökin. Það hefði vitað betur ef spítalinn hefði tekið ámælum landlæknis og notað þenna atburð sem tækifæri til að læra og leiðrétta verklag og gera það sem þarf til að þetta komi ekki fyrir aftur.

Það verður vonandi gert núna.

Vá það er svo margt fleira. Ég fer nú ekki einu sinn út í skýrsluna frá Læknaráði. Fjölmiðlar og dómurinn sjálfur hefur sagt það sem segja þurfti. Ég hef bara nokkur orð um þetta mál að segja. Hroki, lygi, vanmat á styrk okkar og úthaldi, vanvirðing, ótti, kjarkleysi og síðast en ekki síst, valdníðsla.

 

Mjöll

- Auglýsing -

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
mjoll
mjoll
Mjöll er klínískur sálfræðingur og hjartamaki. Hún þekki hlutverk aðstandenda hjartasjúklings með hjartabilun vel.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-