-Auglýsing-

Samnorrænar sumarbúðir hjartveikra barna

Sólin skín í heiði, pylsurnar taka á sig brúnan lit á grillinu og unglingahópurinn sem situr í grasinu nýtur greinilega lífsins til hins ýtrasta. Sumir spjalla saman á dönsku, aðrir á sænsku, norsku, finnsku eða íslensku. Svo er jafnvel gripið til enskunnar þegar landamæri hópanna þurrkast út. Þetta eru sumarbúðir hjartveikra barna sem þessa dagana eru haldnar á Laugarvatni.

46 unglingar á aldrinum 14-18 ára eru í sumarbúðunum að þessu sinni, og er þetta í fyrsta skipti í um tuttugu ára sögu búðanna sem þær eru haldnar á Íslandi, enda ekki nema 4-5 ár frá því að Íslendingar fóru að taka þátt í þessu norræna samstarfi. Allir eiga krakkarnir það sameiginlegt að vera með einhvers konar hjartagalla og hafa margir þeirra gengist undir nokkrar aðgerðir. Þeir kunna því vel að meta tengslin við aðra sem eru í svipaðri stöðu og þeir sjálfir.

Tilbreyting frá daglegu lífi
Guðný Sif Jóhannsdóttir er ein þeirra fimm íslensku krakka sem eru í sumarbúðunum, en þetta er í þriðja skipti sem hún tekur þátt. Áður hefur hún verið í sumarbúðunum í Svíþjóð og Noregi. Hún segir búðirnar á Laugarvatni alveg standast samanburðinn.

„Það er margt við að vera,“ segir hún. Orð hennar eru staðfest með siglingu á Laugarvatni um morguninn og ratleik eftir hádegi. „Við gerum marga skemmtilega hluti sem maður gerir ekki á hverjum degi. Síðan kynnist maður líka öðrum krökkum með hjartagalla.“ Guðný Sif, sem er 18 ára, var með opna fósturæð sem búið er að loka og kveðst hún nú geta gert flest sem hana langar til. Bróðir hennar, sem er að verða fimm ára, á hins vegar við alvarlegri hjartagalla að stríða. „Hann var að fara í sína þriðju aðgerð í Boston fyrir tveimur vikum og á að minnsta kosti eftir að fara í eina til viðbótar á næsta ári.“

Að sögn Guðnýjar Sifjar er mikil nýliðun í búðunum að þessu sinni. Í síðustu tvö skiptin voru þar hins vegar mikið til sömu krakkarnir og er hún í reglulegu sambandi við marga þeirra. „Við íslensku krakkarnir hittumst oft og síðan er ég í sambandi við hina á Facebook og MSN.“

Daninn Kevin Meinhardt kann ekki síður vel við sig á Laugarvatni en Guðný Sif, en þetta er í annað skipti sem hann mætir í sumarbúðirnar. „Það eru margir nýir núna, en líka nokkrir sem voru í búðunum í fyrra,“ segir hann og nefnir sem dæmi fjóra Dani sem allir tóku líka þátt í fyrra.

- Auglýsing-

Kevin vantar eitt hjartahólfið og kveðst því ekki geta fylgt 15 ára jafnöldrum sínum eftir í öllu. „Ef eitthvað er of erfitt þá þarf ég stundum að draga mig í hlé.“

Hann kann því vel að meta möguleikana sem sumarbúðirnar veita. „Mér finnst gaman að hitta aðra krakka og spjalla og sérstaklega finnst mér gaman að hitta krakka frá öðrum löndum.“

Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur

annaei@mbl.is
 

Morgunblaðið 27.07.2009

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-