-Auglýsing-

Samhugur í verki

Á bænum Hvammi í Þistilfirði var opið upp á gátt og dásamlegur ilmur af kleinum og steiktu brauði barst langt út á hlað þegar fréttaritara bar að garði.

Í þvottahúsinu stóðu kvenfélagskonur og steiktu í tveimur pottum, svo hlaðar af þunnu og stökku, steiktu brauði voru komnir í kirnur og föt. Í eldhúsinu var annar fríður kvennahópur, sem breiddi út deig og gerði kleinur, svo ekki var ómyndin á.

Tilefni þessa stórbaksturs í sveitinni var ein lítil stúlka, Kristín Svala Eggertsdóttir frá Laxárdal í Þistilfirði, en hún kom í þennan heim í janúar síðastliðnum.

Daginn eftir fæðingu hennar kom í ljós að hún er með hjartagalla og þarf því að gangast undir hjartaaðgerð í Bandaríkjunum innan skamms. Foreldrar hennar fara að sjálfsögðu með henni og hefur móðirin, Hjördís M. Henriksen, það eftir læknum hennar, að ekki sé ástæða til að búast við öðru en þessi aðgerð færi litlu stúlkunni fullan bata. Fyrir á Kristín Svala þrjú heilbrigð systkini, sem bíða heima hjá ættingjum meðan hún er í burtu.

Í litlu samfélagi er nálægðin mikil og samkenndin sterk og konurnar í Kvenfélagi Þistilfjarðar ákváðu að halda basar sl. föstudag og skyldi ágóðinn renna í ferðasjóð litlu stúlkunnar. Í kvenfélaginu eru rúmlega tuttugu konur á öllum aldri, allt miklar myndarlúkur eins og kvenfélagskonur jafnan eru.

Stórbakstur fór af stað í sveitinni; rúgbrauð og flatbrauð, kleinur, ástarpungar og steikt brauð og þegar basarinn var opnaður, þá seldist allt á örskömmum tíma.

- Auglýsing-

Galdurinn við steikinguna
Þar sem íslenskar sveitakonur eru alls ekki þekktar fyrir það að láta gesti koma að tómu borði hjá sér, þá hófust þær umsvifalaust handa við meiri bakstur daginn eftir og bökuðu upp í pantanir, sem þær keyra svo heim í hús til kaupendanna. Eins og fleirum þá þótti fréttaritara steikta brauðið og kleinurnar sérlega gómsætt og vildi vita hver galdurinn væri. Svarið var nautafita, en hún er notuð til steikingar. Það er siður húsfrúar í Hvammi að reyna að útvega sér nautamör á hverju hausti og bræða síðan en nautafita segir hún að sé einna best til steikingar á brauði og alveg bragðlaus.

Kvenfélagskonur fengu liðsinni við framtak sitt, því verslunin Samkaup á Þórshöfn gaf allt hveiti og mjólkurvörur til bakstursins en alls bökuðu konurnar úr um það bil 50 kílóum af hveiti, sem nú er orðið að ljúffengu brauði.

Þegar á bjátar í daglegu lífi er alltaf mikils virði að finna stuðning og hlýhug og þetta framtak kvenfélagskvenna mun eflaust verða vel metið.

Eftir Líneyju Sigurðardóttur

Morgunblaðið 02.03.2009

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-