-Auglýsing-

Sálfræðimeðferð fyrir hjartasjúklinga – Af hverju?

Viðtal við sálfræðing getur verið gagnlegt í kjölfar veikinda

Hvort sem er hjá konum eða körlum, þá eru hjartasjúkdómar algengasta orsök dauðsfalla og örorku í dag. Árlega deyja rúmlega 17 milljónir manna af þeirra völdum í heiminum, þar af 3 milljónir áður en 60 ára aldri er náð. Með batnandi heilbrigðisþjónustu og þróun í læknavísindum lifa það þó fleiri og fleiri af að greinast með hjartasjúkdóm og því sífellt fleiri sem þurfa að læra að lifa með sjúkdómi sínum, og í sífellt lengri tíma.

Það að kljást við hjartasjúkdóm tekur á. Það er auðvitað misjafnt hversu grátt sjúkdómurinn leikur fólk en flestir upplifa verulega skerðingu á lífsgæðum og breytingar á lífi sínu og aðstæðum. Lífið tekur óvænta stefnu sem fæstir eru undirbúnir fyrir.

-Auglýsing-

Það að greinast með hjartasjúkdóm er ekki greining á stöðugu ástandi. Lifandi einstaklingar í lifandi líkama þróast og breytist á meðan lífið og lífsstíllinn hefur áhrif á gengi sjúkdómsins og framtíðarhorfur. Það er því gott, gilt og nauðsynlegt að fara eftir leiðbeiningum lækna, taka lyf á réttum tíma og fara í þær rannsóknir og eftirfylgni sem læknar mæla með, en það er að sama skapi mikilvægt að taka afstöðu og að hver og einn meti það fyrir sig persónulega hvað hann/hún geti gert til að hafa áhrif á framgöngu sjúkdómsins.

Persónulegar forvarnir eru lykillinn að bættri framtíð. Bæði forvarnir gagnvart þeim sem ekki hafa veikst ennþá og forvarnir þeirra sem hafa veikst og þurfa að berjast gegn afleiðingum sjúkdómsins.

Hjartasjúkdómar eru flokkaðir sem lífsstílssjúkdómar. Það eru að sjálfsögðu þættir sem hafa áhrif framþróun þeirra sem við getum lítið gerð við, eins og erfðir okkar, samfélagslegar og umhverfislegar aðstæður og aukinn aldur. Stærstu áhættuþættir hjartasjúkdóma eru hins vegar óhollt mataræði, skortur á hreyfingu, notkun tóbaks og skaðleg notkun áfengis. Þættir sem hjartalyf hafa engin áhrif á.

Þeir sjúklingar sem taka lífsstíl sinn föstum tökum eftir veikindi búa við betri lífslíkur, minni hættu á áframhaldandi og/eða ítrekuðum veikindum, betri lífsgæði og meiri möguleika á að ná betri heilsu. Þess utan spara þeir peninga í heilbrigðiskerfinu með minnkaðri þörf fyrir læknisþjónustu og lyf ásamt því að skila meiru til samfélagsins með aukinni getu til starfa og virkari þátttöku á ýmsan hátt.

- Auglýsing-

En hvað hefur áhrif á getu fólks til að takast á við það að breyta lífsstíl sínum í kjölfar veikinda? Hvað hefur áhrif á getu fólks til að takast á við það að endurheimta heilsu sína? Fyrir venjulegt fólk í venjulegu lífi er það að fara í ræktina og að hætta að reykja ærið verkefni. Það hins vegar að veikjast af hjartasjúkdómi er áfall, ekki síður fyrir aðstandendur. Í fjölskyldu þar sem önnur stoð heimilisins missir heilsu, jafnvel getu til að sinna starfi sínu, orku til að sinna heimili, börnum, sjálfum sér, er líklegt og eðlilegt að eitthvað gefi eftir.

Kvíði, þunglyndi og stress bæði auka hættuna á hjartasjúkdómum og eru algengir fylgikvillar hjartasjúkdóma. Eðlilega. Það er kvíðvænlegt að vera með bilað hjarta, það er stressandi að lenda í að heimi manns er snúið á hvolf og það er erfitt að geta ekki lengur sinnt tómstundum sínum, unnið fyrir fjölskyldunni, stundað kynlíf eða borið innkaupapokana úr búðinni. Það er ærið verkefni að takast á við hjartasjúkdóm.

Þar tekur sálfræðin við. Það að fara til sálfræðings þýðir nefnilega ekki endilega að maður sé veikur á geði. Það þýðir ekki að maður sé ekki nógu sterkur til að takast á við líf sitt. Það þýðir að rétt eins og að maður tekur ábyrgð á líkamlegri heilsu sinni og tekur lyf sín á réttum tíma, þá tekur maður ábyrgð á andlegu ástandi sínu til þess að líða betur og til þess að ná betri líkamlegum bata. Kvíði, stress og þunglyndi hafa nefnilega áhrif á getu fólks til þess að virka í daglegu lífi, getu fólks til þess að lifa með sjúkdómi sínum og getu fólks til að stunda heilbrigða lífshætti sem hafa bein áhrif á framþróun sjúkdómsins.

Það er ansi margt sem hjartasjúklingar þurfa að takast á við í kjölfar veikinda sinna. Þó ekki sé um að ræða greinanlegan kvíða eða þunglyndi þá getur það reynst gott að ræða málin við utanaðkomandi aðila. Fá lánaða innsýn fagmanneskju, verkfæri í hendurnar til afnota í nýjum og breyttum aðstæðum, stuðning og ráðgjöf í erfiðu verkefni allrar fjölskyldunnar.

Af hverju sálfræðimeðferð fyrir hjartasjúklinga? Af því við eigum það skilið að gera þá kröfu að ekki bara lifa heldur líða vel og dafna.

Mjöll Jónsdóttir
Sálfræðingur
mjoll@salfraedistofan.is

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Mjöll Jónsdóttir
Mjöll Jónsdóttirhttps://www.salfraedistofan.is/um-okkur/starfsfolk/mjoll-jonsdottir/
Mjöll lauk B.A. námi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2006 og Cand. Psych. prófi frá Háskólanum í Árósum árið 2012. Mjöll hefur sótt námskeið og fyrirlestra á sviði áfallameðferðar og heilsusálfræði ásamt því að sækja ráðstefnur um sitt sérsvið. Mjöll starfar hjá Sálfræðistofunni Höfðabakka 9

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-