-Auglýsing-

Neikvætt fyrir heilsuna að finna á sér

Áfengi er engin venjuleg neysluvara en er þó hluti af daglegu lífi margra um allan heim.

Það er notað við ýmis tækifæri, m.a. í félagslegum aðstæðum, sem hluti af fæðu, sem tákn um frí frá amstri hversdagsins eða við önnur tækifæri. Í umræðunni gleymast því oft þau neikvæðu áhrif sem fylgt geta neyslu áfengis.

Samkvæmt heilbrigðisskýrslu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni frá 2002 er áætlað að rekja megi 4% af sjúkdómsbyrði nútímans til neyslu áfengis. Og þegar skoðaðir eru 26 valdir áhættuþættir dauðsfalla og sjúkdóma þá er áfengi þar í fimmta sæti.

Aðeins örlítið jákvætt fyrir elsta aldurshópinn

Í ljósi þess að í fjölmiðlum er ítrekað fjallað um möguleg jákvæð áhrif neyslu áfengis þykir rétt að beina sjónum að heildarmyndinni og draga fram bæði jákvæð og neikvæð áhrif neyslu áfengis. Bæði eru til rannsóknir sem benda á ákveðna verndandi þætti ,,hóflegrar” áfengisneyslu og rannsóknir sem draga fram þau skaðlegu áhrif sem áfengisneysla getur haft í för með sér. Þær rannsóknir sem gefa til kynna jákvæð áhrif áfengisneyslu eru oftar en ekki gerðar hjá ákveðnum hópi fólks og við ákveðnar aðstæður. Almennar neyslukannanir og slysaskráningar gefa svo aðra og oft neikvæðari mynd af áfengisneyslunni.

Eykur líkur á krabbameini

Þegar talað er um ,,hóflega” drykkju eru viðmiðin oft sett við tvær einingar af áfengi á dag fyrir karla og eina áfengiseiningu á dag fyrir konur. Ein áfengiseining miðast oftast við 10–12 g af áfengi eða sem svarar 15 cl af víni, 33 cl af áfengum bjór og 4 cl af sterku áfengi. Hér er aðeins verið að tala um hófdrykkju en ekki heilsusamlega drykkju. Þegar talað er um verndandi þætti áfengisdrykkju er átt við að neysla áfengis hefur jákvæð áhrif á ákveðna líffræðilega þætti, sérstaklega í sambandi við hjarta- og æðasjúkdóma. Rannsóknir sem sýna þessar niðurstöður sýna jafnframt að um er að ræða lítið magn áfengis, í mesta lagi tæpa eina einingu af áfengi á dag fyrir karlmenn yfir sjötugt og minna en hálfa einingu fyrir konur á sama aldri. Þó má geta þess að sama magn af áfengi eykur líkurnar krabbameini, t.d. brjóstakrabbameini hjá konum.
Öll neysla áfengis fram yfir ofangreind viðmið hefur neikvæð áhrif á heilsuna.

- Auglýsing-

Séu verndandi og skaðlegir þættir áfengisneyslu bornir saman kemur berlega í ljós að skaðlegir þættir áfengisneyslu eru mun fleiri en þeir verndandi og að skaðsemin eykst í hlutfalli við magn áfengisins sem neytt er.
Vegna þess að ákveðin óvissa ríkir um verndandi þætti áfengis hafa helstu vísindamenn í áfengisfræðum við Lýðheilsustöð Svíþjóðar lagt áherslu á að áfengi er alls ekki “lyf” sem hægt er að mæla með

Að tala um áfengi sem lyf til að bæta heilsuna, eða koma í veg fyrir sjúkdóma, byggist ekki á vísindum. Þar skortir gögn frá samanburðarrannsóknum sem læknavísindin gera kröfu um. Dagleg hreyfing og hollur matur hefur að sjálfsögðu mun meiri jákvæð áhrif á heilsufar.

Fyrir fólk yngra en 40 ára hefur áfengisneysla engin jákvæð áhrif á heilsu.

Að drekka sig þannig að maður finni á sér hefur alltaf neikvæð áhrif á heilsuna, óháð aldri og kyni.

Neikvæð áhrif og afleiðingar áfengisneyslu eru ekki síður andleg og samfélagsleg en líkamleg.

 Yfirlit yfir helstu skaðlega þætti áfengis á líkamann.

Taugakerfið
Ofskynjanir, krampar, eitrun í heila vegna lifrarskemmda, skemmdir á litla heila,vítamínskortur, geðtruflanir, svefntruflanir, taugaskemmdir.

Meltingarfæri
Brjóstsviði, magasýking, aukin hætta á krabbameini í meltingarvegi, fitulifur, skorpulifur, briskirtilsbólga, niðurgangur.

Hjartað
Aukinn hjartsláttur, hjartsláttartruflanir, skemmdir hjartavöðvar, hár blóðþrýstingur.

- Auglýsing -

Áhrif á efnaskipti
Minni blóðsykur, skert próteinframleiðsla, uppsöfnun fitu í lifrinni.

Vöðvar og bein
Vöðvarýrnun og beinþynning.

Blóð
Hækkun á blóðþrýstingi, eykur líkur á heilablóðfalli, breytingar á rauðum blóðkornum, lágt hlutfall af blóðflögum.

Fóstur
Hamlar vexti, andlegur og líkamlegur misþroski.

Rafn M. Jónsson og Sveinbjörn Kristjánsson, verkefnisstjórar hjá Lýðheilsustöð

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28 febrúar 2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-