-Auglýsing-

Mitt hjartans mál

Mynd/Shutterstock

Það má telja líklegt að margir hafi farið svolítið frammúr sér við snjómokstur á síðustu vikum. Það er vel þekkt víða um heim að slíkir atburðir auka tíðni hjartaáfalla og aukning verður á heimsóknum á bráðamóttökur. Einn af þeim sem tók til hendinni var Stefán Gunnar Sveinsson blaðamaður á Morgunblaðinu. Í kjölfarið birtist eftirfarandi pistill í Mogganum.

Ég var sem sagt að moka snjó í gær,“ sagði ég við hjúkrunarfræðinginn í afgreiðslunni. „Einn af þeim, já,“ sagði hún eins og Landspítalinn hefði ekki haft undan því að sinna öllum þessum hvunndagshetjum sem réðust á skaflana af meira kappi en forsjá á sunnudaginn í síðustu viku, þegar allur snjór vetrarins ákvað að koma á einu ísköldu bretti.
Ég var svo sannarlega „einn af þeim“ og um kvöldið hafði ég fengið verki í brjóstholið. Ég harkaði það af mér en þegar ég vaknaði svo morguninn eftir og leið enn eins og ég þyrfti að fara í hundraðfalda hjartaþræðingu neyddist ég til þess að hugsa um þann möguleika að nú væri ég að fara að „kvitta fyrir lífsstílinn,“ eins og Rúni Júl. heitinn orðaði það einu sinni. Kókdrykkja og kyrrseta, pottþétt par á leiðinni í kransæðastífluna. Það sorglega var að þrátt fyrir allar hetjudáðir mínar með skófluna daginn áður var bíllinn minn ennþá fastur á bílastæðinu. Ég rölti því upp á spítalann og kíkti þar á Hjartagátt, bráðamóttöku hjartadeildarinnar á gamla Landspítalanum.
„Það sem þú sérð og heyrir hér, skaltu geyma innra með þér“ stendur á stóru skilti á deildinni. Ég greini því einungis frá því að fyrst var ég sendur í blóðprufu. Þar tók hún Sólveig á móti mér. Ég útskýrði snjómoksturinn daginn áður. „Já, þú ert einn af þeim,“ sagði hún. Svo sannarlega var ég einn af þeim. Við ræddum nokkuð um snjómokstur og hætturnar sem fylgja honum. Sólveigu tókst meira að segja að láta mig gleyma því algjörlega að ég er hræddur við nálar. Þaðan lá leiðin í hjartalínurit, hjá henni G., sem ég gleymdi að spyrja hvort ég mætti nota nafnið á í þessum pistli. Hún tók sömuleiðis vel á móti mér. Og hvers vegna var ég kominn til hennar? Ég útskýrði það. „Já, einn af þeim.“ Svo sannarlega.
Síðan tók við bið, viðtal við læknanema og aftur bið. Biðin var svo sem ekkert slæm, fyrir utan að ég gat velt ýmsu fyrir mér, eins og hvað ef ég væri orðinn að hjartasjúklingi? Þrjátíu og fimm ára gamall. Var saga hjartasjúkdóma í ættinni? Nei, alls ekki, eða hvað? Eina dæmið sem ég gat munað reyndist vera millirifjagigt. Ekki alveg það sama.
Síðan kom úrskurðurinn hjá lækni. Ég var ekki að farast í hjartanu. Vöðvarnir í kringum rifin í brjóstholinu voru hins vegar stokkbólgnir, og það framkallaði verkinn sem hafði gert mér lífið svo leitt. Gæti ég farið í vinnuna? „Ég myndi gera það í þínum sporum,“ sagði læknirinn sposkur á svip.
Ég skammaðist mín pínu að hafa eytt tíma þessara fræknu manna og kvenna sem bjarga mannslífum upp á hvern einasta dag með einhverju svona smáræði. „Hjartaáfallið“ mitt læknað með hitakremi. En það er nefnilega málið, þetta hefði alveg getað verið eitthvað meira. Lexían er að það er betra að fara einu sinni of oft til læknis heldur en einu sinni of sjaldan. Og kannski líka að næst verð ég búinn að fara í ræktina áður en ég moka snjó.

sgs@mbl.is

Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. Mars 2017.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-