-Auglýsing-

Megrunarofbeldi; stríð og friður

Sálfræðingurinn skrifar“Ætlum við að vinna fitubollukeppnina – verða feitasta þjóð í heimi?”

“Hundskastu í hörkuátak og það strax!” Ég þori ekki annað, annars er ég hrædd um… ”Engan aumingjaskap, kjaftæði og væl, þegar kemur að því að stunda heilbrigt líferni.” Er heilbrigt, eða vænlegt til árangurs að tala svona við sjálfan sig eða aðra?

Okkur er svo eðlilegt að bregðast við á jákvæðan, hvetjandi og uppbyggilegan hátt við litla barninu sem er að stíga fyrstu skrefin. Erum við ekki mildin ein og segjum með sólskinsbrosi; “Vá, duglegur ertu! Úps, ekkert mál, bara standa upp aftur! Svona já, gef’mér fimm!”. Eða eru viðbrögðin; “Svona nú, áfram með þig, þú verður að… Hvurs lags er þetta krakki, dastu? Ætlarðu aldrei að ná þessu aulinn þinn?” Gætum við verið það höst að barnið spennist upp og hættir að reyna af ótta við að mistakast?

Nýverið kom á markað padentlausninn Zombie run; prógramm sem þú hefur í spilaranum og hlustar á þegar þú ert úti að hlaupa, þar sem uppvakningar elta þig og hræða og þú verður að bjarga lífi þínu með því að flýja.

Til megrunar hefur verið beitt þeirri aðferð að víra saman tennur, þannig að þú getir einungis neytt fljótandi fæðu í litlu magni í einu. Sumir ráða sér massaðan karlmann, sem rífur af þér hamborgarann, skellir ísskápshurðinni á nef þér og meinar aðgang að kexhillunni. Hvað gerist þegar “Trölli” fer í frí!?

Með stífu aðhaldi og hörku er ýmislegt hægt, en er oft skammvinnt og herðir þann hnút sem ætlað var að leysa. Átakið setur líkamann í vörn og „of lítið“ verður „of mikið“, þyngdaraukning í kjölfar þyngdartaps. Tilfinningar okkar,hegðun og hugarfar fara einnig í vörn; Þvermóðska, krosslagðar hendur og “Ég geri það sko ekki neitt!!” Hversu oft þarf hörkuaðferðin að mistakast til þess að við drögum þá ályktun að hún virki ekki? Stundum þurfum við að spyrja hvort varan passi nokkuð einstaklingnum, fremur en hvort einstaklingurinn passi vörunni.

- Auglýsing-

Hann hefur verið lífseigur, en virðist þó á undanhaldi, frasinn “ef það er ekki vont þá er það ekki að virka” (no pain, no gain).

Fólk er alls konar og með ólíkar þarfir. Mátaðu við þig og finndu hvað þér hentar – sumum hentar harkan, en flestum oftast hitt!

Fræðin styðja yfirburði umbunar og jákvæðni, fremur en refsingar og hörku, til að ná fram breytingum á hugarfari og hegðun. Vænlegra til árangurs er að leggja áherslu á hvað við getum gert meira af eða aukið, frekar en það sem er bannað og við viljum ekki. Aukið vægi á að öðlast ríkulegra líf, fremur en að missa, tapa og rífa af sér. Á svo fjölmörgum sviðum mannlífsins erum við á þessari heillavænlegu leið!

Af hverju hafa viðhorf til samkynhneigðra orðið svona miklu jákvæðari undanfarin ár? Hvað heitir árlega gangan þeirra? Er þetta ekki “meðmælaganga” fremur en “mótmælaganga”? Fyrir mér segir gangan; “Hér erum við, fjölbreytileg, hinsegin, hýr og allskonar. Við tökum okkur eins og við erum og bjóðum þér að gleðjast með okkur!” Hvernig virkar á þig reitt fólk með kröfuspjöldin “niður með fordóma!”, “við eigum víst rétt!”, jafnvel þó við værum sammála?

John Lennon söng um frið á jörð með orðunum: “give peace a chance!” og hafði, tel ég, ólíkt meiri áhrif en ef hann hefði sagt “Stop the f……g war!”

Getum við friðmælst við sjálf okkur, verið með okkur frekar en á móti? Eigum við í stríði við offituvanda eða baráttu við offitupúka? Reynum við að skamma okkur af hörku út úr vanda, fremur en að elska og virða inn í vellíðan?

Friðarverðlaunahafinn Móðir Teresa sagði svo fallega; “Nei takk, ég vel að fara ekki í kröfugöngu gegn stríði, en ef þú bíður mér í göngu með friði, þá er mér ljúft að taka þátt”.

Matur er grunnþörf og mikilvægt er að njóta hans og að hann verði manni að góðu. Að borða með sektarkennd og skömm með hugarfarinu „Skamm, skamm, ég veit ég ætti nú ekki…” mætti gjarnan víkja fyrir “Þetta er gott og fer vel í mig og ég nýt þess…. !”

- Auglýsing -

Það sem við gerum með athygli og styrkingu á hinu jákvæða er mun vænlegra til árangurs og vellíðunar og kemur svolítið af sjálfu sér; án átaks.

Verum þakklát fyrir styrk okkar, eiginleika og hæfni. Meðtökum þá staðreynd að heilbrigðir líkamar eru á breiðu þyngdarbili og af margs konar lögun og stærð.

Heiðdís Sigurðardóttir, sálfræðingur, heilsustodin.is

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-