-Auglýsing-

Margföld kreppa í heilbrigðisþjónustu

anna_sigrun_baldursdottir.jpgÁ eyjan.is bloggar Anna Sigrún Baldursdóttir og kemur hún oft með áhugaverða vinkla um málefni líðandi stundar. Á mánudaginn birtist eftir hana áhugaverð lesning um heilbrigðismál sem mér finnst eiga gott erindi inn í þá umræðu sem nú er í gangi um þróun heilbrigðismála. 

Þar til fyrir nokkrum árum var forsjárhyggjan (e. Paternalism) allsráðandi innan heilbrigðisþjónustunnar.  Hún birtist m.a. í því að engum datt í hug að efast um álit eða aðgerðir lækna. Upplýsingaskylda til sjúklinga um  ástand var takmarkað, ef nokkuð og fólk gerði bara eins og læknirinn sagði. Sérfræðingaveldið var algert. Síðustu ár hefur þó verulega fjarað undan þessu veldi, því með aukinni almennri menntun og aðgengi að upplýsingum hefur almenningur tekið sífellt virkari þátt í eigin meðferð. En sum staðar eimir enn af þessu viðhorfi og ákveðinni hræðslu við sérfræðingaveldið og kerfið sem það hefur skapað. Þetta er sérstaklega áberandi þegar kemur að pólitík. Pólitísk umræða um heilbrigðismál hefur lengi verið í skötulíki hér á landi. Í kosningabaráttum síðustu ára var varla minnst á málaflokkinn og virðst sem stjórnmálamenn margir hverjir skirrist við að tala um þau mál af stefnumótandi pólitískri ábyrgð.

 Á sama tíma og pólitíkin horfði fram hjá heilbrigðismálum (ég kalla afgreiðslu fjárlaga ekki umræðu um heilbrigðismál) hefur grunnvandi kerfisins bara vaxið. Hann felst fyrst og fremst í sjálfvirkum útgjöldum kerfisins vegna stöðugra krafna um fullkomna þjónustu á öllum tímum, á sama tíma og aldurssamsetnig þjóðarinnar veldur enn frekari útgjaldaþörf. Enginn vill draga úr gæðakröfum til heilbrigðisþjónustunnar og allir vilja jafnt aðgengi þegnanna. Meðan hagvöxtur og þjóðartekjur aukast eru auðvitað fæstir sem eru tilbúnir til að fara í einhverja alvöru umræðu um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu með það að leiðarljósi að stemma stigu við útgjaldaaukningunni. Vissulega voru nokkrir til að kalla eftir þeirri umræðu – undirrituð meðtalin – en einhvern veginn varð aldrei nein alvöru umræða með niðurstöðu um þetta. Því skal þó til haga haldið að enda þótt með einhverjum rökum megi segja að stjórnmálamenn hafi náð að forðast grundvallarspurningar heilbrigðisþjónustunnar á góðaærisárunum var það þó svo sannarlega ekki þannig að einhver góðærisbóla hafi nú sprungið í andlitið á heilbrigðisþjónustunni. Sem dæmi má nefna að framlög til Landspítala-Háskólasjúkrahúss sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkisins eða sem hlutfall af vergri landframleiðslu hafa stöðugt minnkað síðustu (góðæris-)ár. Þannig má segja að löggjafar- og framkvæmdavaldið hafi staðið gegn sjálfvirkri útgjaldaaukningu með naumt skammtaðar krónurnar einar að vopni (!) í stað þess að taka á þeim grundvallarspurningum sem stýra útflæði peninganna. Heilbrigðisráðherra eftir heilbrigðisráðherra gátu staðið og galað sig hása um árangur í heilbrigðisþjónustu í einu orðinu en vandað um vegna rekstrarkostnað í hinu. En alvöru umræða um hvað skal gera og hvað ekki, hvaða meðferð bjóðum við og hvaða ekki – og hvenær hættum við … nei.

 Hér verða samt fleiri en stjórnmálamenn að axla ábyrgð. Hagsmunahópar, hvort það eru einstakar starfsstéttir eða sjúklingahópar, hafa heldur ekki verið nægilega duglegir að kalla eftir þessari umræðu eða kannski frekar ekki þrýst á um niðurstöður. Hver í sínu horni hefur frekar viljað vernda sitt, hvort sem það er meðferðarúrræði, stéttarvitund eða eitthvað annað. Margir hafa að vísu talið sig hafa talsverða yfirsýn yfir kerfið allt, en yfirleitt er það útsýni einungis út frá þeirra eigin afmarkaða hól.

 Í kjölfar þessarar umræðukreppu er það því þyngra en tárum taki að nú stöndum við frammi fyrir gríðarlegri efnhagskreppu, þar sem klárlega verður ekki horft fram hjá stærsta útgjaldalið fjárlaganna. Við erum illa undirbúin til að taka á stóru spurningunum,  – nánast stefnulaus, eins og svo sem í öðru sem er að verða kreppunni að bráð.

En hér mun það svo sannarlega rífa í.
Það er svo til að bæta gráu ofan á svart að einhver alvöru stefna í heilbrigðsmálum verður tæpast mótuð í hvirfli kreppunnar, heldur verðum við að mæta þessu með því viðhorfi að lágmarka skaðann. Ágæt byrjun væri ef menn væru ekki með neinn moðreyk og horfðust í augu við það að við erum að fara að skerða þjónustuna. Köllum hlutina bara réttum nöfnum og lágmörkum væntingarnar. Það er ekki nokkur einasti vinnandi vegur að ná fram hagræðingu í heilbrigðiskerfinu á krepputímum öðru vísi en að skerða þjónustu, enda mun skjólstæðingunum einungis fjölga. Við getum bara lágmarkað skaðann.
Feisum það.

- Auglýsing-

 Var ekki einhver að biðja Guð að blessa Íslenska þjóð?

www.eyjan.is 12.01.2009

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-