-Auglýsing-

Lyfjaútgjöld verða mörgum erfið

iStock 000008847188 ExtraSmallHinn 4. maí næstkomandi tekur gildi nýtt þrepaskipt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfjakaupa. Kerfinu er m.a. ætlað að skapa aukið jafnræði meðal lyfjanotenda en hingað til hefur greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands verið afar misjöfn milli sjúkdóma. Kerfinu er einnig ætlað að setja þak á hámarksupphæð sem einstaklingur greiðir fyrir lyf á ári en Magnús Steinþórsson, rekstrar- og gæðastjóri Lyfjavers, segir menn uggandi vegna fyrsta þreps kerfisins, þar sem allur kostnaður undir 24 þúsund krónum, eða 16 þúsund krónum ef um er að ræða ungmenni eða lífeyrisþega, falli á einstaklinginn.

„Það sem er jákvætt við þetta kerfi er að það skiptir í raun ekki máli hvaða sjúkdóm þú færð, þú borgar sama lyfjakostnað. Í dag borga þeir sem eru með sykursýki ekkert fyrir sykursýkislyfin á meðan astmasjúklingar t.d. greiða fyrir sín lyf,“ segir Magnús. „En það sem er erfitt í þessu kerfi er þetta byrjunarþrep og það er það sem veldur okkur og öllum apótekunum áhyggjum. Það er bara þannig að það er fjöldi fólks sem mun ekki ráða við það,“ segir hann.

-Auglýsing-

Magnús segir að samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi þurfi fólk að leggja sjálft út fyrir lyfjakostnaðinum og sækja um endurgreiðslu eftir á en margir ráði einfaldlega ekki við þau tugþúsundaútgjöld sem fyrsta þrepið gerir ráð fyrir.

„Það er lagt upp í hendurnar á apótekunum að bjóða hugsanlega raðgreiðslusamninga en það kostar það sem það kostar og töluverður fjöldi fólks er ekki með kort. Svo hefur það komið til umræðu að þótt læknirinn ávísi kannski þriggja mánaða skammti geti menn tekið mánaðarskammt í staðinn en þeir eru alltaf hlutfallslega dýrari í innkaupum og það eru náttúrlega alls ekki til minni pakkningar fyrir öll lyf.“

Magnús segir skorta á úrræði fyrir þá sem ekki munu ráða við útgjöld samkvæmt fyrsta þrepinu en velferðarráðuneytið hafi ekki séð ástæðu til að bregðast við vandanum. Hann segir að t.d. hefði mátt haga málum þannig að menn fengju lyfjastyrk greiddan fyrirfram inn í kerfið, þannig að útlagður kostnaður yrði lægri.

Nýja kerfið sé þó gott að öðru leyti. „Kerfið verður einfaldara og meiri jöfnuður í því en er í dag. Við erum alls ekki á móti breytingunum sem slíkum og styðjum þær en það hefði þurft að gera ákveðnar lagfæringar fyrir þennan hóp sem á erfitt með að ráða við fyrstu greiðsluna.“

- Auglýsing-

Breytingar
» Magnús segir hætt við því að einhverjum verði illt við þegar þeir kaupa lyf í fyrsta sinn eftir 4. maí. Betur hefði þurft að standa að kynningu breytinganna.
» Á heimasíðu Lyfjavers hafa verið sett upp nokkur dæmi um lyfjakaup áður og eftir að nýja kerfið tekur gildi og sýna þau glöggt hvernig lyfjakostnaður vegna ýmissa sjúkdóma eykst 4. maí.
» Magnús segir nýja kerfið þó ótvírætt sanngjarnara en það gamla, þar sem fólki verði ekki lengur mismunað á grundvelli þess sjúkdóms sem hrjáir það.

Fréttaskýring : Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Birtist í Morgunblaðinu 22.03.2013

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-