-Auglýsing-

Öryggi og gæði heilbrigðisþjónustu

5751 2 previewÖryggi og gæði í heilbrigðisþjónustunni hafa verið mjög í brennidepli fjölmiðla undanfarnar vikur. Landlæknir fagnar slíkri umræðu. Í samræmi við hlutverk embættisins er starf þess fjölbreytt og umfangsmikið á þessu sviði eins og sjá á má í nýlegri samantekt sem er að finna á heimasíðu embættisins landlaeknir.is.

Það hefur kynt undir þessa umræðu að Íslendingar hafa nokkur undanfarin ár gengið í gegnum mikinn niðurskurð í opinberum rekstri, m.a. í heilbrigðiskerfinu. Þá þarf að huga sérstaklega að því að öryggi sjúklinga sé ekki ógnað og að gæði þjónustunnar haldist þrátt fyrir breytt skipulag. Rannsóknir hafa sýnt að þættir eins og álag á starfsfólk, óánægja í starfi og óánægja með starfsumhverfið geta haft neikvæð áhrif á gæði og öryggi þjónustunnar.

Heilbrigðisstarfsfólk hefur á liðnum misserum lýst áhyggjum sínum af því að heilbrigðiskerfið sé nú komið að þolmörkum sökum niðurskurðar. Starfsfólki hefur fækkað og álag þar með aukist. Úrræði til að veita þjónustu hafa einnig breyst en þróun þekkingar og tækniframfarir hafa haft í för með sér að sjúklingar liggja skemur á sjúkrahúsum og glíma við erfiðari og flóknari vanda en áður. Einstaklingum sem bíða vistunar á hjúkrunarheimilum hefur einnig fjölgað. Nokkrir tugir þeirra bíða nú á Landspítalanum og ein birtingarmynd þess eru gangainnlagnir.

Slíkt hefur í för með sér álag á starfsfólk og þá sem njóta þjónustunnar. Einnig hafa kjör versnað, ekki síst í samanburði við nágrannalöndin. Því hafa margir leitað út fyrir landsteinana til skemmri eða lengri tíma sem hefur áhrif á þjónustuna hér á landi. Framtíðarskipulag Landspítala er einnig í óvissu en niðurstaða í því máli snertir óneitanlega gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga þegar til lengri tíma er litið.

Góður árangur

Í umræðu um núverandi vanda heilbrigðisþjónustunnar er auðvelt að gleyma því að hún er þrátt fyrir allt góð. Nýjustu tölur frá Hagstofu Íslands staðfesta að enn einu sinni er ungbarnadauði lægstur á Íslandi í samanburði við önnur lönd í Evrópu. Íslenskir karlmenn lifa karla lengst í álfunni og meðalaldur kvenna er í fremstu röð. Einnig má minna á að þjónustan hér á landi var metin sú þriðja besta í Evrópu árið 2012. Slíkur árangur kemur ekki af sjálfu sér enda niðurstaða þrotlausrar vinnu margra á liðnum árum, líka á tímum efnahagslegrar niðursveiflu.

- Auglýsing-

Öryggisbragur

Öryggisbragur í heilbrigðisþjónustu er flókið hugtak, en felur í sér sameiginleg gildi og viðhorf sem ásamt skipulagi og stjórnun stofnunar leiða til ákveðins vinnulags og hegðunarmynsturs um öryggi þjónustunnar. Góður öryggisbragur er fyrir hendi þar sem öryggi sjúklinga er sett í öndvegi og áhættustjórnun er samofin öllu því sem gert er. Slíkur öryggisbragur einkennist af opnum samskiptum og gagnkvæmu trausti milli starfsmanna og sjúklinga.

Þar sem öryggisbragur er þróaður eru atvik í þjónustunni skoðuð ofan í kjölinn, reynt að læra af þeim og beita markvissum aðgerðum til að koma í veg fyrir að þau gerist aftur. Aftur á móti ef öryggisbragur er vanþróaður er atvikum sópað undir teppið eða áhersla lögð á að finna sökudólg í stað þess að leita lausna. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að orsakir atvika eru í flestum tilfellum margþættar og tengjast í mörgum tilvikum ágöllum í skipulagi. Því er mikilvægara að spyrja: Hvað gerðist, í stað þess að leita sökudólgs með spurningunni: Hverjum er það að kenna?

Að lokum

Heilbrigðisstarfsfólki ber lagaleg, fagleg og siðfræðileg skylda til að veita góða heilbrigðisþjónustu og bera hag notenda þjónustunnar fyrir brjósti. Stjórnendum heilbrigðisstofnana ber síðan skylda til að fylgjast með mælikvörðum varðandi gæði þjónustu, öryggi sjúklinga og öryggi starfsfólks, m.a. varðandi álag og bregðast við með viðeigandi hætti til að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar.

Gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu koma ekki af sjálfu sér og því þurfa Embætti landlæknis, heilbrigðisstarfsfólk, heilbrigðisstofnanir, notendur þjónustunnar og allur almenningur að taka höndum saman við að stuðla að góðri heilbrigðisþjónustu. Landlæknir hvetur starfsfólk og notendur þjónustunnar til að koma ábendingum um það sem betur má fara hvað varðar gæði og öryggi til stjórnenda heilbrigðisstofnana og ef þeir eru ekki sáttir við viðbrögð þeirra geta þeir leitað til Embættis landlæknis með áhyggjur sínar.

Geir Gunnlaugsson landlæknir, 

Anna Björg Aradóttirsviðsstjóri Eftirlits og gæða,
Laura Sch. Thorsteinsson hjúkrunarfræðingur.


www.visir.is  26.03.2013

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-