-Auglýsing-

Lungnateppa ekki eina hættan

Lungnaþemba er ekki eini sjúkdómurinn sem reykingakonur eiga frekar á hættu að fá en karlar. Spurð um nýlegar fréttir þess efnis að fleiri íslenskar konur á fimmtugsaldri greinist með lungnateppu en karlar á sama aldri bendir Bára Sigurjónsdóttir, verkefnisstjóri tóbaksvarna Lýðheilsustöðvar, á að það séu fleiri sjúkdómar tengdir reykingum sem konum er hættara við að fá en körlum. Sem dæmi megi nefna kransæðastíflu og einnig að nýgengi lungnakrabbameins á Íslandi hafi staðið í stað hjá konum á síðustu árum meðan það hafi lækkað lítillega meðal karla en 80-90% allra lungnakrabbameina orsakist af reykingum.

Bára nefnir líka að dauðsföllum karla í Evrópu af völdum reykinga fari fækkandi en það sama sé ekki hægt að segja um konurnar. Muninn megi hugsanlega skýra með því að sé horft yfir þróun reykinga yfir lengri tíma hafi konur byrjað seinna að reykja en karlar og því hafi þeir náð hámarkinu fyrr, eða “toppað”, en konur sem hafi reykt í áratugi séu að veikjast núna. Þá staðreynd að íslenskar konur fái frekar lungnateppu en hinar erlendu telur Bára mega skýra með því að reykingar urðu fyrr almennari meðal kvenna hér en annars staðar í V-Evrópu. Góðu fréttirnar séu þó þær að reykingakonum fari sífellt fækkandi hér á landi og síðastliðin sex ár hafi konur reykt minna en karlar.

Spurð hvort tískubylgja sé að ganga yfir hvað reykingar varði segist Bára ekki halda að svo sé. Hún bendir þó á að sú umræða sé alltaf í gangi hjá konum hvort þær fitni hætti þær að reykja, en skv. nýlegri, íslenskri rannsókn á barnshafandi konum hafi það komið í ljós að þær fitnuðu ekki meira en vanalega við að hætta. Það sé þó mikið áhyggjuefni hve fáar konur hætti að reykja á meðgöngu. 13% barnshafandi kvenna reyki en í heildina reyki um 17% íslenskra kvenna.

Aðstoð ábótavant
Þó að Íslendingar standi sig einna best Evrópulandanna í tóbaksvörnum þá eru þeir ekki nógu góðir í að veita aðstoð við að hætta að reykja, segir Bára. “Ef við horfum á nokkra þætti í tóbaksvörnum þá erum við með auglýsingabann, hátt verð, merkingar á tóbaksvörum og nú reykingabann en þegar kemur að því að veita aðstoð við að hætta að reykja þá mættum við standa okkur betur. Slík þjónusta og hjálp er ekki nógu aðgengileg og margir þurfa á henni að halda.” Það sé þó ánægjuefni að síðan 1991 hafi reykingafólki fækkað um rúm 35%.

Morgunblaðið 08.06.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-