-Auglýsing-

Einkalíf fótum troðið

Skortur  á leguplássum og mannekla á Landspítala – háskólasjúkrahúsi á hvorutveggja þátt í því að gripið er til gangainnlagna á sjúkrahúsinu. Meira en tugur manna, að meðaltali, liggur dag hvern á göngum LSH að sögn Jóhannesar Gunnarssonar, lækningaforstjóra LSH. Læknaráð ályktaði nýverið um málið og sagði formaður þess í Morgunblaðinu að málið snerist um einkalíf sjúklinga og öryggismál LSH.
Meira er um gangainnlagnir á hjartadeild en á öðrum deildum LSH.

Jóhannes segir að verst sé þegar fólk tefjist dægrum saman á bráðamóttöku án þess að vera lagt inn á sjúkrahúsið. Stefnan er að sjúklingar liggi ekki lengur á bráðadeild en fjórar klukkustundir en sú er ekki raunin í reynd. “Það eru alveg dæmi um að fólk hafi verið þarna hálfu og heilu sólarhringana á göngunum hjá okkur þegar verst er,” segir Ófeigur Tryggvi Þorgeirsson, yfirlæknir deildarinnar. Starfsfólk þurfi að forgangsraða eftir veikindum þess fólks sem á deildina kemur og í þetta fari mikil orka og vinna. Mest sé álagið þó á sjúklingana sjálfa og aðstandendur þeirra.

Skapa smithættu
Aukin smithætta er einn fylgifiska þess að hafa veikt fólk liggjandi á göngum, en það getur einnig verið bagalegt ef rýma þarf húsnæðið í skyndi. Það er líka ljóst að friðhelgi einkalífs sjúklinga sem liggja á göngum LSH er takmörkuð.

Lög um réttindi sjúklinga tóku gildi árið 1997. Í 17. grein laganna segir m.a. að koma skuli fram við sjúklinga af virðingu og að heilbrigðisstarfsmaður skuli gæta þess að framkvæma nauðsynlega meðferð með þeim hætti að utanaðkomandi aðilar sjái ekki til. Jóhannes kveðst taka undir það að gangainnlagnir séu ekki sæmandi. “Einkalíf fólks er fótum troðið,” segir Jóhannes. Aðspurður segist hann telja gangainnlagnir brot á lögum um réttindi sjúklinga.

Um lausnir á málinu segir Jóhannes að slíkt verði að vinna til lengri tíma. Skort hafi ýmsar mótvægisaðgerðir sem þyrftu að vera mun öflugri. Nefnir hann göngudeildir sérfræðinga við spítalann, sjúkrahótel í nágrenni hans, aukna heimaþjónustu og bættan félagslegan stuðning.

Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur

- Auglýsing-

elva@mbl.is

Morgunblaðið 05.06.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-