-Auglýsing-

Löngu ákveðið að sameina Landspítala við Hringbraut

NÚ ÞEGAR hillir undir að loksins verði hafist handa um uppbyggingu sameinaðs sjúkrahúss í Reykjavík, Landspítala við Hringbraut, hafa eina ferðina enn vaknað umræður í fjölmiðlum og á bloggsíðum um staðarval hins nýja Landspítala þrátt fyrir að ákvörðun þar um hafi verið tekin fyrir löngu af þar til bærum aðilum. Þar sem nokkuð virðist skorta upp á að ýmsir þeir sem hafa tjáð sig um staðarvalið hafi kynnt sér rökin fyrir þessari ákvörðun teljum við nauðsynlegt að draga þau saman í stuttu máli. Allar skýrslur og greinargerðir er lúta að efninu má nálgast á verkefnavef nýs háskólasjúkrahúss, www.haskolasjukrahus.is.

Landspítali og háskólasjúkrahús

Nábýlið við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og þekkingarþorp í Vatnsmýri er ein mikilvægasta ástæðan fyrir staðarvali nýs Landspítala, einkum þó áform HÍ um uppbyggingu heilbrigðisvísindadeilda sinna á sömu lóð. Það er jafnframt mikilvægt að hafa í huga að spítalinn er háskólasjúkrahús sem hefur lögum samkvæmt þríþætt hlutverk; þjónustu við sjúka, rannsóknir í heilbrigðisfræðum og kennslu.

Hátt á annað hundrað starfsmanna spítalans eru jafnframt starfsmenn Háskóla Íslands og hafa starfsskyldu á báðum stöðum. Þá eru á ári hverju um 1.100 stúdentar á ýmsum námsstigum við spítalann. Á Hringbrautarlóðinni eru aðstæður fyrir hendi sem gera það kleift að tengja Háskólann og Landspítalann sterkum böndum. Slík samþjöppun þekkingar er mikilvæg, bæði fyrir Háskólann og háskólaspítalann, og forsenda þess að halda staðli á heimsvísu fyrir báða aðila. Umhverfi Háskólans verður því ekki slitið frá spítalanum án stórskaða á faglegu starfi og rekstri beggja stofnananna.

-Auglýsing-

Bestu tengslin við almenningssamgöngur

Önnur mikilvæg forsenda fyrir staðarvalinu við Hringbraut var að þar væri hægt að tryggja gott aðgengi ökutækja og sjúkraflugs, sem og góðar almenningssamgöngur.

Fjöldi starfsmanna í fullu starfi hjá Landspítala er um 4.500, fjöldi heimsókna á göngudeildir spítalans er um 2.400 að meðaltali hvern virkan dag og þá er ótalinn fjöldi heimsóknargesta. Fyrir allt þetta fólk er staðsetning spítalans mikilvæg, ekki síst með tilliti til almenningssamgangna.

Endurteknar úttektir umferðarsérfræðinga benda eindregið til þess að uppbygging við Hringbraut sé besti kosturinn. Þéttbýl hverfi borgarinnar liggja að lóð spítalans við Hringbraut, fjórðungur starfsfólks er búsettur innan 14 mínútna göngufæris við spítalann og helmingur þess innan 14 mínútna hjólafæris. Sjö strætisvagnaleiðir liggja framhjá spítalalóðinni og hún er sá staður innan höfuðborgarsvæðisins sem er langbest tengdur almenningssamgöngum. Þá verður fyrirhuguð samgöngumiðstöð, sem þjóna á innanlandsflugi og fólksflutningabílum, byggð á næsta leiti við spítalann sem þjónar vel hagsmunum fólks utan af landi sem þarfnast þjónustu hans. Tenging spítalans við þéttbýlið við Faxaflóa verður jafnframt enn betri ef hlutverk samgöngumiðstöðvar verður eins og ætlað var í upphafi – að þar verði miðstöð strætisvagna auk annars.

- Auglýsing-

Fossvogur úr myndinni – uppbygging á Vífilsstöðum of dýr

Aðrir staðir sem til greina komu fyrir staðsetningu nýs sjúkrahúss voru lóðir spítalans í Fossvogi og á Vífilsstöðum.

Talið var útilokað að ná góðum tengingum stofnbrauta að Fossvogslóðinni og nú hefur verið byggt á því svæði sem horft var til sem byggingarlands þar. Er sá staður því úr sögunni.

Vífilsstaðir eru um margt ákjósanlegt byggingarland. Meginmarkmið með nýbyggingu er hins vegar að sameina starfsemi spítalans á einn stað. Af því leiddi að byggja þyrfti allan spítalann frá grunni á Vífilsstöðum áður en hann gæti sinnt sínu hlutverki og ekkert væri hægt að nýta af eldra húsnæði. Það yrði miklu dýrara en sú lausn sem nú er unnið eftir. Vegtengingar við Vífilsstaði eru heldur ekki góðar að mati umferðarsérfræðinga og ekki áformaðar miklar breytingar þar á samkvæmt skipulagi. Þá má ætla, samkvæmt búsetukönnun meðal starfsfólks spítalans að ferðalög starfsfólks til og frá vinnustað myndu lengjast verulega, borið saman við Hringbrautarstaðsetninguna.

Bygging spítalans kallar ekki á Holtsgöng og Hringbraut í stokk

Í skýrslu starfsnefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Framtíðarskipulag og uppbygging Landspítala-háskólasjúkrahúss, frá janúar 2002 kemur fram að Borgarskipulag, nú Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkur, telur mikilvægt að framtíðaruppbygging Landspítala verði við Hringbraut. Rökin eru fyrst og fremst nálægðin við Háskólann og þekkingarþorpið í Vatnsmýrinni en einnig er vísað til samgöngukosta sem fyrirhugaðir eru í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024. Bent er á að fyrirhuguð ný stofnbraut frá Hringbraut, um Hlíðarfót og Öskjuhlíðargöng sem tengist Kringlumýrarbraut og Reykjanesbraut með Kópavogsgöngum, hafi mikla þýðingu fyrir spítalann við Hringbraut. Sömuleiðis verður uppbygging spítalans við Hringbraut lyftistöng fyrir miðborgina og í samræmi við Þróunaráætlun miðborgarinnar. Í ljósi þessa var gengið frá samningum um lóð spítalans og Háskóla Íslands árið 2004 milli Reykjavíkurborgar og ríkisins.

Hins vegar á sú umræða sem átt hefur sér stað um nauðsyn Holtsganga undir Skólavörðuholt og lagningu Hringbrautar í stokk vegna fyrirhugaðrar spítalabyggingar sér enga stoð. Bygging spítalans kallar ekki á slíkar framkvæmdir og fyrir liggur samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur um að láta vinna tillögu að því að fella Holtsgöng út af gildandi aðalskipulagi, ekki síst vegna óska Landspítala og Háskóla Íslands. Suðurmunni ganganna og aðliggjandi stofnbrautir myndu þrengja mjög að spítalalóðinni við Hringbraut og því auðveldar það alla uppbyggingu á svæðinu ef hætt verður við göngin.

Viljum við að lokum árétta að ákvörðun um uppbyggingu Landspítala við Hringbraut var vel ígrunduð á sínum tíma og forsendur hennar hafa ekki breyst.

- Auglýsing -

 

Ingólfur er framkvæmdastjóri eignasviðs Landspítala. Jóhannes er læknisfræðilegur verkefnisstjóri nýs Landspítala.

Morgunblaðið 19.09.2009

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-