-Auglýsing-

Læknanemi vinnur til verðlauna

728877Tómas Andri Axelsson, læknanemi á sjötta ári við læknadeild Háskóla Íslands, hlaut önnur af tvennum verðlaunum sem veitt voru fyrir besta vísindaerindið á alþjóðlegu vísindaþingi norrænna hjarta- og lungnaskurðlækna, Scandinavian Society for Research in Cardiothoracic Surgery (SSRCT), sem fram fór í Noregi fyrir skemmstu.

Rannsókn hans, sem fjallar um árangur kransæðahjáveituaðgerða hjá bráðveikum sjúklingum á Landspítala og Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg, leiðir m.a. í ljós að nærri fjórir af hverjum fimm, sem gangast undir slíka aðgerð, lifa hana af.

Þetta kemur fram í frétt frá Háskóla Íslands.

Tómas Andri hefur unnið rannsóknina undir leiðsögn Tómasar Guðbjartssonar, prófessors við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknis á Landspítala, en rannsóknin er samstarfsverkefni Landspítala, Háskóla Íslands og Sahlgrenska-háskólasjúkrahússins í Gautaborg.

150 hjáveituaðgerðir árlega

Hjáveituaðgerð er algengasta opna hjartaaðgerðin og eru framkvæmdar um 150 slíkar aðgerðir á Íslandi árlega. Í slíkar aðgerðir fara sjúklingar með alvarlegan kransæðasjúkdóm þar sem kalkanir í kransæðum hindra eðlilegt blóðflæði til hjartans. Við aðgerðina eru tengdir æðagræðlingar, oftast slagæð á innanverðu brjóstholi og bláæð frá ganglimum, fram hjá þrengslunum. Með því að opna bringubeinið er komist að hjartanu og sjúklingurinn er síðan tengdur við hjarta- og lungnavél. Hjartað er síðan stöðvað á meðan græðlingarnir eru tengdir á kransæðarnar.

- Auglýsing-

Hjáveituaðgerð er oftast gerð hjá sjúklingum sem hafa verið undirbúnir sérstaklega fyrir aðgerðina. Í rannsókn Tómasar Andra er hins vegar einblínt á sjúklinga sem teknir eru til aðgerðar innan fárra klukkustunda frá því þeir koma á sjúkrahús. Ástæðan er í flestum tilvikum kransæðastífla og/eða hjartastopp þar sem ekki tekst að opna stífluna með kransæðavíkkun. Í rannsókninni er farið yfir ástæður þessara bráðaaðgerða og litið sérstaklega á afdrif sjúklinganna, þ.á m. svokallaða lifun.

Ánægjulegar niðurstöður

Til skoðunar í rannsókninni voru allir sjúklingar sem gengust undir slíkar aðgerðir á sjö ára tímabili, annars vegar á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala og hins vegar á Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg. Alls lifðu 79% sjúklinganna af aðgerðina sem telst ágætur árangur hjá svo veikum einstaklingum, en margir þeirra eru í bráðri lífshættu þegar þeir koma á sjúkrahús. Til samanburðar lifa 98% sjúklinga kransæðahjáveituaðgerð þegar hún er gerð eftir undirbúning sem valaðgerð. Í rannsókn Tómasar Andra kom enn fremur í ljós að svokölluð fimm ára lifun sjúklinga eftir bráðaaðgerð var 72%. Það eru ánægjulegar niðurstöður sem benda til þess að þeim, sem lifa aðgerðina af, vegni í flestum tilvikum vel eftir útskrift.

Rannsókninni er ekki lokið og enn á eftir að safna frekari gögnum, vinna úr niðurstöðum og birta í erlendu vísindariti.

Þetta var í 24. skipti sem hið alþjóðlega vísindaþing norrænna hjarta- og lungnaskurðlækna var haldið en það sækja hjarta- og lungnaskurðlæknar frá Norðurlöndum, öðrum Evrópulöndum og Bandaríkjunum. Þetta er í annað sinn sem Íslendingur vinnur til verðlauna á þessu þingi.

Af vef mbl.is

Mynd af vef mbl.is

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-