-Auglýsing-

Kvöld á Landspítalanum

Útsýni af stofu 11
Útsýni af stofu 11

Þá er fjórði dagurinn á Landspítalanum að kveldi kominn og viðburðarríkur dagur að baki sem byrjaði með því að einn læknirinn vildi senda mig heim en því var afstýrt sem betur fer.

Mæðin er aðeins betri og mér er ekki jafn þungt fyrir og þegar ég kom hingað en ég er slappur, skrambi slappur og mæðist af litlu um leið og ég fer á röltið og jafnvel við það eitt að standa í fæturna.

Það er útlit fyrir að ég verði hér jafnvel fram yfir helgi og á morgun er það hjartaþræðing, sennilega sú 18 en í dag var það ómskoðun sem kom ekki vel út.

Það var dálítið merkilegt í fyrradag þegar kom hér læknir á stofugangi sem hafði ætlað að senda mig heim af Hjartagátt í fyrrasumar, en hugumprúðar hjúkrunarkonur komu í veg fyrir það í það skiptið.

Ég setti mig í stellingar þegar hann gekk inn og fyrsta mínútan eða svo fór svona aðeins í það að setja kúrsin fyrir spjallið. Mér til undrunar þá var í honum annar tónn en ég bjóst við. Hann virtist hafa kynnt sér málið vel, var skilningríkur og kinkaði oft kolli.

Hann var aftur á stofugangi í morgun og eins indæll og hann var fyrir tveim dögum var ekki sá gállin á honum í dag og hann vildi senda mig heim. Vandamálið sem var til staðar þegar ég var innlagður var samt ennþá til staðar.

- Auglýsing-

Hér varð uppistand og allir undrandi og ég bæði sár og reiður og eftir því sem niðurstöður rannsókna dagsins litu dagsins ljós kom berlega í ljós að þetta var ekki hans dagur.

Ég á hér gott fólk sem tekur upp hanskan fyrir mig þegar á þarf að halda og án þeirra væri til lítils barist og allt fór vel og hér er ég enn.

En það fer vel um mig þó ég fari ekki langt frá rúmstokknum þar sem hjartabilunin mín er nú í nýjum hæðum.  þó minnir ástandið óneitanlega dálítið á tímann frá því áður en ég fór í aðgerðina fyrir 11 árum þar sem dauður vefur var fjarlægður og hjartað endurmótað. Þá eins og nú voru lífsgæði takmörkuð og á stundum þannig að eina sem ég gat gert var að liggja fyrir og draga andann, orkan var enginn.

Ég er ekki mikið fyrir það að birta hér djúpa speki en á vafri mínu um netið í gær rakst ég á orð sem vöktu athygli mína en höfundur þessara orða er sá mikli meistari Gabríel García Marques.

Hann skrifaði:

Engin á sér tryggan morgundag, hvorki ungur né gamall.

Í dag kannt þú að sjá í síðasta skipti þá sem þú elskar.

Því skaltu ekki bíða lengur. Breyttu í dag eins og morgundagurinn renni aldrei upp. Þú munt örugglega harma daginn þann, þegar þú gafst þér ekki tíma fyrir bros, faðmlag, koss og varst of önnum kafinn til að verða við óskum annarra.

- Auglýsing -

Hafðu þá sem þú elskar nærri þér, segðu þeim í heyranda hljóði hversu mjög þú þarfnist þeirra. Elskaðu þá og komdu vel fram við þá: gefðu þér tíma til að segja „mér þykir það leitt“, „fyrirgefðu“, þakka þér fyrir“ og öll þau kærleikans orð sem þú þekkir.

Sýndu vinum þínum hvers virði þeir eru þér.

Svo mörg voru þau orð.

Verum góð við hvort annað.

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-