-Auglýsing-

Kakó hollast í heimi

Kakó er hollt. Mjög hollt. Eftir að hafa rannsakað kakódrekkandi indíána telur bandarískur vísindamaður að kakó sé svo heilsusamlegt að efnið geti orðið jafn mikilvægt mannkyninu og pensilín og verkjalyf.
 

Í sjálfu sér er það ekki kakóið í heild sinni sem er svo áhrifaríkt heldur andoxunarefnið epicatechin sem í því er að því er forskning.no greinir frá. Efnið er að finna í kakóbaunum, tei, víni og sumum ávöxtum og grænmeti og ku hafa stórkostleg áhrif á skrokkinn. Það er a.m.k. mat Normanns Hollenbergs frá Harvard Medical School.

Hollenberg hefur varið mörgum árum í að rannsaka Kuna-indíána í Panama en þeir drekka allt að 40 bolla af kakói á viku. Það sem gerir þennan þjóðbálk forvitnilegan er að hjá honum er hættan á að fá slag, hjartasjúkdóma, krabbamein eða sykursýki einungis tíu prósent af því sem hún er hjá öðrum þjóðum. Hollenberg telur að þetta sé vegna umræddra andoxunarefna og segir það eina mikilvægustu uppgötvunina í sögu læknavísindanna.

Erfðir ekki skýringin

Eiginlega var það tilviljun sem réð því að Hollenberg kom auga á samhengið milli kakódrykkjunnar og góðrar heilsu Kuna-bálksins. Á sjöunda áratugnum uppgötvaði annar vísindamaður að Kuna-indíánarnir, sem búa á afskekktum eyjum, fengu nánast aldrei of háan blóðþrýsting, jafnvel þótt matur þeirra væri mjög saltur.

Hollenberg hafði áhuga á að rannsaka hvort eitthvað væri í erfðum indíánanna sem verði þá gegn sjúkdómnum. Í ljós kom að þeir Kuna- indíánar, sem fluttu frá eyjunum og í þéttbýli, fengu fljótlega of háan blóðþrýsting, öfugt við ættingja þeirra sem urðu eftir. Erfðir gátu því ekki verið skýringin. Þetta leiddi til þess að hann fór að leita að öðrum skýringum á góðu heilsufari eyjaskeggja og í þeirri rannsókn vakti mataræðið sérstaka athygli.

- Auglýsing-

Þar sem vatnið, sem Kuna-fólkið neytir, er ekki sérlega gott, hafa þeir tamið sér að sjóða það áður en það er drukkið. Og þar sem kakóræktun á sér langa sögu meðal indíánanna hefur það orðið að vana hjá þeim að sjóða kakóbaunir með vatninu. Einhverskonar kakó er því sá drykkur sem þeir grípa til þegar þorsti steðjar að þeim og þeir drekka a.m.k. fimm bolla af honum á dag.

Hollenberg telur að þessi hefð orsaki góða heilsu Kuna-indíánanna og vonast til að aðrir jarðarbúar geti notið góðs af þeirra reynslu. Þeir sem hafa hugsað sér að nota þetta sem afsökun fyrir stórbrotnu súkkulaðifylleríi verða þó sennilega fyrir vonbrigðum því venjulegt súkkulaði inniheldur epicatechin í hverfandi mæli. Andoxunarefnið epicatechin er nefnilega biturt á bragðið og er því venjulega fjarlægt áður en kakóið er selt.

Morgunblaðið 19.03.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-