-Auglýsing-

Jónas: Aðgerðin búinn – heimkoma

Jónass HelgasonVið höldum áfram að fylgjast með Jónasi sem er búinn í aðgerðinni og við fylgjum honum eftir fyrstu dagana eftir hjartaaðgerðina og fyrstu vikurnar eftir að hann kom heim til Akureyrar.

Aðgerðin hjá Jónasi gekk vel en hún varð heldur stærri og umfangsmeiri heldur en lagt var upp með. Niðurstaðan var sú að skipt var um eða gert við fimm æðar þannig um verulega mikið inngrip var að ræða en hjartavöðvinn var sem betur fer óskemmdur. En gefum Jónasi orðið.

Kominn til vits og rænu

13.06.2013
Erfiðir dagar að baki og nú liggur leiðin hratt upp á við. Farinn að stíga aðeins í lappirnar og núna er ég búinn að draga tölvuna upp í rúm. Hef þó ekki úthald í langa pistla um sinn. Læt því bíða að lýsa því sem fyrir augu bar “handan landamæranna”.

Gangi allt eðlilega er stefnt heim á þriðjudag eða miðvikudag.

14.06.2013
Þetta gengur ótrúlega hratt núna. Laus við nánast allar tengingar, alveg sjálfbjarga á klósettið, tókst hjálparlaust að draga frá gluggunum, var trillað niður í röntgen og svitna ekki við að skrifa þetta. Heimferð ákveðin eftir hádegi á þriðjudag. Þetta er sem sagt allt að hafast! Raunar bíður fram yfir hádegi það sem ég er búinn að hlakka um stund, það er sturtan!

Heimferð flýtt – komum morgun!

- Auglýsing-

16.06.2013
Það er sem sagt í svo góður gangur batanum hjá mér að ákveðið hefur verið að ég haldi þjóðhátíðardaginn heima hjá mér! Ætla þó að sleppa útskriftarræðu skólameistara og lesa bara um hana í blöðunum.

Ég er samt ótrúlega máttfarinn og einbeitingarlaus. Það er t.d. búið að taka mig óratíma að skrifa þennan stutta pistil. Ég á fullt af efni í langa pistla um sjúkrahúsið sem verða bara að bíða þar til Kristján Þór Júlíusson kallar á mig til skrafs og ráðagerða.

23.06.2013
Þá er að verða liðin vika síðan ég kom heim, tvær vikur frá aðgerð. Endurhæfing komin á fulla ferð, borða, ganga, sofa. Dagamunur, en að jafnaði hraðleið upp á við. Skrifa þennan pistil t.d. alveg án þess að svitna hið minnsta!

Ég má auðvitað ekkert gera sem reynir á handleggi og þá er nú gott að eiga góða nágranna. Þeir bræður Birgissynir drifu í því að slá fyrir mig lóðina, raunar var ekki annað að sjá en þeir skemmtu sér hið besta á tækjunum sínum! Um næstu helgi ætla svo grannarnir norðan við mig klippa alla runna.

Ótrúlega undarleg tilfinning að vera svona bjargarlaus og horfa á aðra vinna verkin sín, en kannski myndi það bara venjast. Reikna þó með að taka smám saman yfir í lok sumars.

Þrjár vikur að baki 

30.06.2013
Það er dásamlegt að finna hve mörgum er annt um að ég komist til heilsu sem allra fyrst. Ég verð bara að þakka öll símtölin, tölvupóstana og viðbrögðin á Facebook. Ég hafði raunar ekki mikla trú á þeirri bók, en verð nú að viðurkenna að ég opna hana daglega – og sé að hún hentar ágætlega til að lofa ykkur að frétta af mér.

Af mér er það að frétta ég er á ótrúlega hraðri uppleið. Gönguferðirnar lengjast óðfluga og verða sífellt léttari. Þreytan og slenið minnka, þótt þar sé enn langt í land. Hættur að sofa þrisvar á dag eins og smábarn, legg mig kannski einu sinni í smástund og dorma svo öðru hverju á hægindastól. Það bendir ekkert til annars en ég verði orðin vinnufær um miðjan september þegar skólinn byrjar. Reikna með að fara þá í algjöra lágmarkskennslu á haustönninni og svo reikna ég með að taka út sumarfríið mitt með því að kenna enn minna á vorönninni. Ég hlakka bara til næstu mánaða, en í fyrsta sinn á ævinni finnst mér sumarið ætla að líða óþarflega hægt!

- Auglýsing -

Eitt hefur verið að hrjá mig allt frá aðgerð, hjartað vill ekki alveg halda réttum takti og hraða. Þetta mun nokkuð algengt og mun lagast á nokkrum vikum. Enn er ég á óþverralyfi til þess að halda aftur af þessum gangtruflunum. En fátt er svo með ölu illt… eins og þar segir.

Ég Googlaði aukaverkanir lyfsins sem eru ótal margar og er ein þeirra “Svefntruflanir, draumar og martraðir”. Þessar aukaverkanir hef ég gjörsamlega í botni og koma helvítis hvítabirnirnir (sem Nonnabækurnar komu inn í hausinn á mér) reglulega og ætla að éta mig og mína. Þess á milli er ég á stöðugum ferðalögum um heiminn, búinn að líta við í flestum heimsálfum. Vakti Gunnu í nótt til að láta hana vita að það væri hún sem væri týnd en ekki ég, hún hefði aldrei sagt mér að hún ætlaði í Jarðböðin. Svo rann mér aðeins í brjóst í hádeginu og hrökk upp þegar ég var ávarpaður á íslensku þar sem ég var að renna inn á brautarstöðina í Lyon í Frakklandi. Varð hálffúll þegar þetta var bara Gunna að spyrja hvort ég ætlaði ekki að fá mér eitthvað að borða. Ég hef nefnilega aldrei komið til Lyon og dauðlangaði að skoða borgina.

Ætli ég haldi ekki eftir nokkrum töflum af þessu lyfi og noti í framtíðinni þegar ferðaþráin gerir vart við sig. Örugglega ódýrara en flestar ferðaskrifstofur…

Jónas

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-