-Auglýsing-

Í tilefni af greinargerð Landlæknisembættisins um öryggi á LSH

NÝLEGA sendi Landlæknisembættið frá sér greinargerð um mat á stöðu öryggismála varðandi mönnun á Landspítala. Í greinargerðinni eru dregnar ályktanir um stöðu öryggismála á Landspítala út frá gögnum um meðalstöðugildi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á legudeildum, þróun lykiltalna úr sjúklingaflokkunarkerfinu þrjú síðastliðin ár, yfirliti yfir hlutfall sjúkraliða í raunmönnun og fjölda atvikaskráninga árin 2008 og 2009. Niðurstaða Landlæknisembættisins er sú að álag hafi ekki aukist og atvikum hafi heldur ekki fjölgað, raunverulegur hjúkrunartími á hvern sjúkling hafi í heildina aukist og að reynt hafi verið að gæta þess að niðurskurður bitni ekki á öryggi sjúklinga. Jafnframt er sagt frá tveimur könnunum frá árunum 2006 og 2009 sem gerðar voru á starfsumhverfi og streitu hjá hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum.

Í niðurstöðum þeirra kannana kemur fram að staðan á Landspítala sé óbreytt á milli áranna 2006 og 2009, álag í starfi sé mikið og streita þónokkur. Sjúklingaflokkunarkerfið sem vísað er til í greinargerðinni er frá árinu 1994. Samningi á milli Landspítala og fyrirtækisins sem sá um uppfærslu kerfisins var sagt upp árið 2004 og hefur það ekki verið uppfært síðan. Sjúklingaflokkunin byggðist á spá um þá hjúkrun sem sjúklingur kemur til með að þurfa, en segir lítið til um hvaða hjúkrun sjúklingur fékk eða hvort hann fékk þá hjúkrun sem spáð var fyrir um að hann þyrfti. Vegna fyrirhugaðs flutnings á sjúklingabókhaldi á Landspítala í nýtt kerfi var sjúklingaflokkun og þar með mælingu á hjúkrunarþyngd hætt í nóvember 2009.

Í greinargerð Landlæknisembættisins er ekki getið um hvort í sjúklingaflokkuninni komi fram að sú hjúkrun sem veitt er sé meiri eða minni en æskilegt hefði verið að veita. Út frá þeim ályktunum sem höfundar greinargerðarinnar draga má hins vegar lesa að hjúkrunin sem veitt er sé nægjanleg eða of mikil miðað við það sem æskilegt er. Slíkt stangast á við niðurstöður þeirra kannana sem getið er hér að ofan. Þetta gefur að áliti undirritaðra til kynna að sjúklingaflokkunarkerfið skorti réttmæti, það er að það hafi ekki verið að mæla það sem það átti að mæla. Þá er í greinargerðinni sagt frá viðtölum við hjúkrunardeildarstjóra á þremur deildum á Landspítala. Ungliðadeild Sjúkraliðafélags Íslands taldi í áliti sínu til Landlæknisembættisins að á þessum deildum, auk annarra, væru sjúkraliðar undir miklu álagi. Val á deildum í þessari greinargerð vekur ákveðna athygli. Á tveimur af þremur deildum sem skoðaðar voru, það er á Slysa- og bráðamóttöku í Fossvogi og á Bráðamóttöku barna var sjúklingaflokkun ekki framkvæmd. Sjúklingaflokkun var aðeins framkvæmd á einni þeirra deilda sem heimsóttar voru. Upplýsingar frá fleiri legudeildum þar sem sjúklingaflokkun var framkvæmd hefðu gefið gagnlegar upplýsingar um réttmæti sjúklingaflokkunarkerfisins og gefið til kynna hvort álag á starfmenn kæmi raunverulega fram í kerfinu.

-Auglýsing-

Árið 2008 hófst undirbúningur á Landspítala fyrir upptöku á nýju sjúklingaflokkunarkerfi sem ætlað var að leysa af hólmi það kerfi sem nú hefur verið aflagt. Um er að ræða finnskt sjúklingaflokkunarkerfi RAFAELA. Það kerfi mælir þá hjúkrun sem sjúklingurinn hefur fengið, mat hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á vinnuálagi og er mönnun á deildum miðuð út frá niðurstöðum þessara mælinga. Upptaka slíks kerfis gæfi því góða mynd af þeirri hjúkrun sem verið er að veita á Landspítala og á vinnuálagi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Einnig myndi kerfið gera mögulegt að bera hjúkrunarþyngd og vinnuálag á Landspítala saman við sömu þætti á sjúkrahúsum í Finnlandi og í öðrum löndum þar sem kerfið er notað. Vegna gengisfalls krónunnar og niðurskurðar á Landspítala var upptöku kerfisins frestað og ekki er vitað um hvort og þá hvenær nýtt kerfi verður tekið í notkun. Eins og staðan er í dag fer því engin skráning fram á Landspítala til þess meta hjúkrunarþyngd eða þá hjúkrun sem veitt er.

Undirrituð lýsa áhyggjum sínum af því að við vinnslu greinargerðar Landlæknisembættisins hafi ekki verið notast við áreiðanleg eða réttmæt gögn til þess að komast að þeim niðurstöðum sem komist er að, það er að álag hafi ekki aukist og að reynt hafi verið að gæta þess að niðurskurður bitni ekki á öryggi sjúklinga. Framundan er aukinn niðurskurður á Landspítala og er hætta á að slíkur niðurskurður komi niður á hjúkrun og öryggi sjúklinga. Því er mikilvægt að til séu á Landspítalanum mælitæki til þess að meta þá hjúkrun sem veitt er og vinnuálag á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum þannig að auðveldara sé að tryggja öryggi sjúklinga og draga áreiðanlegar ályktanir um stöðu öryggismála varðandi mönnun á Landspítala. Undirrituð hvetja því til þess að vinna við upptöku nýs sjúklingaflokkunarkerfis á Landspítala verði hafin sem fyrst þannig að tryggt sé að Landlæknisembættið geti sinnt vel lögbundnu eftirlitshlutverki sínu.

Gunnar er hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild LSH og situr í stjórn Fíh og Elsa er formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Morgunblaðið 28.01.2010

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-