Í erindi sínu fer Tómas yfir reynslu íslenskra heilbrigðisstarfsmanna á sl. árum af bráðaskurðaðgerðum við meiriháttar brjóstholsáverkum. „Þá erum við að tala um sjúklinga sem koma inn á bráðamóttökuna en eiga kannski bara nokkrar mínútur ólifaðar án sértækrar meðferðar sem í flestum tilvikum byggist á einhvers konar inngripi í formi skurðaðgerðar,“ segir Tómas og tekur fram að langflestir þeirra sem koma inn á bráðamóttöku með brjóstholsáverka séu með tiltölulega væga áverka, oftast rifbrot.
Allt bendir til þess að alvarlegum tilvikum fari fjölgandi
„Það er hins vegar ákveðinn hópur sjúklinga sem kemur inn mjög mikið slasaður,“ segir Tómas. Að hans sögn bendir ýmislegt til þess að alvarlegum brjóstholsáverkum fari fjölgandi hérlendis og sé það í samræmi við þróun mála á hinum Norðurlöndunum. „Enda lifum við í harðari heimi en fyrir t.d. um rúmum áratug,“ segir Tómas og tekur fram að ekki sé um mörg tilvik að ræða á ári hverju hérlendis og því erfitt að greina þróunina nema yfir lengra tímabil. Á árunum 2006 og 2007 komu, að sögn Tómasar, alls upp sjö tilfelli hér á landi þar sem einstaklingar urðu fyrir alvarlegum brjóstholsáverkum og fóru í bráðaskurðaðgerð stuttu eftir að þeir hlutu áverka sína. Í tveimur tilvikum var um skotáverka að ræða, í einu tilviki um áverka vegna hnífstungu og í fjórum tilvikum var um aðra áverka að ræða, m.a. vegna rifbeins sem stakkst inn í hjarta með þeim afleiðingum að skurður á hjartað hlaust af. „Reynslan erlendis frá sýnir að aðeins eru í kringum 15% líkur á því að fólk lifi svona alvarlega áverka af,“ segir Tómas og bendir jafnframt á að erlendar rannsóknir sýni að 50% þeirra sem fái alvarlega brjóstholsáverka deyi nær samstundis á slysstað, 30% þeirra sem nái á spítala í tæka tíð deyi engu að síður á fyrstu klukkustundunum eftir að hafa hlotið áverkana og 20% þeirra sem ná að fara í aðgerð deyi á næstu dögum af völdum sýkinga eða annarra eftirkasta af áverkunum.
Spurður hvernig þeim sjö sem minnst var á hér að ofan hafi vegnað segir Tómas að tveir hafi látist, en hinir fimm hafi lifað hina lífshættulegu áverka af. Tekur hann fram að góður árangur í þessum tilfellum skýrist að hluta til af heppni en einnig því að farið hafi verið ofan í alla verkferla og kannað gaumgæfilega hvernig bæta megi viðbúnaðinn enn frekar. Segir hann að horft sé til Bandaríkjanna og reynslu þeirra, því Bandaríkin séu ásamt Suður-Afríku þau tvö lönd í heiminum þar sem hlutfall stungu- og skotsára sé hvað hæst. Löndin tvö skeri sig marktækt frá öðrum í fjölda slíkra áverka.
„Bæði hérlendis sem og á hinum Norðurlöndunum hefur verið farið yfir ameríska verkferla og reynt að fínpússa hlutverk hvers og eins starfsmanns sem kemur að svona málum,“ segir Tómas og bendir á að að hverri bráðabrjóstholsskurðaðgerð komi hátt á annan tug starfsmanna, sem í sumum tilvikum vinni alla jafna ekki í sama teymi á spítalanum, enda tilheyri þeir ólíkum deildum. Meðal þeirra sem komi að slíkum aðgerðum séu brjóstholsskurðlæknir, einn til tveir svæfingalæknar, yngri læknar, almennur skurðlæknir, deildarlæknir auk fjölda hjúkrunarfræðinga af bæði slysadeild og skurðstofu. „Síðan má ekki gleyma þýðingu gjörgæslumeðferðar sem tekur við að aðgerð lokinni, en þessir sjúklingar liggja oft svo vikum skiptir á gjörgæslu og marga mánuði á sjúkrahúsi,“ segir hann.
Góður árangur virkar sem vítamínsprauta fyrir starfsfólk
„Á bráðamóttökunni er mjög mikilvægt að allir viti upp á hár hvað þeir eiga að gera,“ segir Tómas og bendir á að í Svíþjóð sé þegar búið að innleiða amerískt kennslukerfi sem er kallað ATLS sem stendur fyrir Advanced Trauma Life Support og eru starfsmenn prófaðir bæði fræðilega og verklega í réttum viðbúnaði, en mikilvægt sé að starfsmenn fari reglulega í slíka þjálfun. Aðspurður segir Tómas reyndar ekki búið að innleiða þetta kerfi með formlegum hætti hérlendis en það sé í skoðun. Að mati Tómasar hefur að mörgu leyti tekist mjög vel til á Landspítala að setja saman teymi sem hafa það hlutverk að bregðast við alvarlegum áverkum, þar á meðal brjóstholsáverkum. „Það er mikið af vel menntuðu fólki í þessum teymum sem hefur mikla reynslu bæði hérlendis og erlendis frá í meðhöndlun sjúklinga með alvarlega áverka. Það er auðvitað erfitt að dæma árangur út frá aðeins fáum tilfellum, en við erum með nokkur tilvik á sl. árum sem myndu teljast mjög erfið og flókin, sem hafa gengið upp. Það góða gengi hefur verið mikil vítamínsprauta fyrir alla sem taka þátt í þessari vinnu, því það er auðvitað gaman þegar vel gengur,“ segir Tómas og nefnir sem dæmi um gott gengi hnífstungumál sem upp hafi komið fyrir um ári þar sem betur fór en á horfði í upphafi, en sjúklingur fékk hnífstungu í hjartað.
„Í því máli brást unglæknir á slysadeild alveg hárétt við og á stærsta heiðurinn af því hversu vel tókst til við að bjarga sjúklingnum. Honum barst í gegnum síma tilkynning um að um hnífsáverka væri að ræða en hafði að öðru leyti mjög litlar upplýsingar. Hann ákvað engu að síður að kalla til hjartaskurðlækni, sem þýddi að þegar sjúklingurinn kom inn á bráðamóttökuna nær dauða en lífi var hjartaskurðlæknir viðstaddur og hægt var að opna brjóstholið á sjúklingnum strax og bjarga honum úr nánast vonlausri stöðu. Hefði skeikað einhverjum mínútum til viðbótar væri þessi maður ekki á lífi í dag,“ segir Tómas. Aðspurður segir hann mikilvægt að geta framkvæmt bráðabrjóstholsskurðaðgerðir á neyðarmóttökunni þegar því sé að skipta, þar sem hver mínúta skipti máli þegar um stungusár í hjarta eða lungu sé að ræða sökum þess að sjúklingur missi mikið blóð hratt við slíka áverka. Nánari skoðun verkferla hafi m.a. leitt af sér að verkfærum sem nýtast í bráðaskurðaðgerðum hafi verið fjölgað á bráðadeild, en slík verkfæri séu nauðsynleg fyrir margar þessara aðgerða.
Morgunblaðið 11.04.2008