-Auglýsing-

Hvað vitum við um náungann?

ÞumallÉg er búsett í útlöndum og er á 8 vikna mindfulness námskeiði. Þetta námskeið er ekki sérstaklega fyrir sálfræðinga, heldur fyrir hvern sem er, kennt í þeim tilgangi að kenna fólki um hvað mindfulness snýst og hvetja það til að iðka mindfulness, eða núvitund.

Þetta er því ekki meðferðarhópur, en fólk leitar aftur á móti oft í að læra núvitund til að fá meina sinna bót. Í byrjun námskeiðsins áttu allir að kynna sig og segja frá megin ástæðum þess að þeir ákváðu að taka námskeiðið og væntingar þeirra til námskeiðsins.

-Auglýsing-

Ég virti fyrir mér hópinn og þarna sátum við, um 20 einstaklingar, öll jafn sérstök og einstök á okkar hátt en á sama tíma öll svo „venjuleg“. Þegar hver og einn sagði frá ástæðum sínum fyrir því að taka þetta mindfulness námskeið kom margt í ljós. Margir í hópnum voru að vonast til þess að iðkun mindfulness myndu hjálpa sér við einkenni kvíða og þunglyndis, aðrir við kvíða í ákveðnum aðstæðum eins og vinnu, enn aðrir voru að eiga við króníska verki, og einn var að glíma við alvarlega áráttu og þráhyggjuröskun.
Þarna sátum við, fjölbreyttur hópur sem innihélt einstaklinga á öllum aldri. Fyrir mér litu allir út fyrir að vera tiltölulega sjálfsöruggir, vel fúnkerandi og heillandi einstaklingar, allir á sinn hátt. En allir þessir einstaklingar voru jafnframt að glíma við eitthvað stærra en náunginn gat áttað sig á, eitthvað sem angraði þá og hélt aftur af þeim í daglegu lífi. Þá sérstaklega var kvíði þar áberandi. Kvíði var að hrjá flottu konuna sem reytti af sér brandarana. Líka konuna sem spjallaði við alla. Einnig vinalega manninn og unga strákinn.

Þetta kom mér til að hugsa. Einkenni andlegra erfiðleika sjást yfirleitt ekki utan á fólki. Þetta vitum við, en þessu er samt sem áður svo auðvelt að gleyma. Við mannfólkið erum snillingar í að setja upp grímu og bera okkur vel, þó okkur líði hreint ekki vel og þó að við eigum stundum erfitt með að komast í gegnum dagana. Þetta hefur sína kosti og galla.
Það getur verið gott að það séu ekki allir meðvitaðir um hvað maður er að eiga við. Að maður geti haldið því útaf fyrir sig, kjósi maður að gera það. Aftur á móti blekkir það líka fólkið í kringum okkur, við hörkum af okkur þegar við í raun ættum að leita okkur aðstoðar og þiggja stuðninginn sem er mögulega í boði. Svo er okkur ekki alltaf trúað þegar við loksins opnum okkur, en þú sem ert alltaf svo glöð? Þú sem ert alltaf með allt á hreinu? Svo sjálfsörugg? Það getur gert skrefin þeim mun þyngri í átt að aðstoð.

Það sama á við um hjartavandamál. Þau sjást ekki utan á fólki. Það er ekkert gifs, það eru engir marblettir, engin augljós merki um að viðkomandi sé að glíma við eitthvað sem getur heft hann verulega í daglegu lífi. Viðkomandi er kannski með fyrirmæli frá lækni um að reyna sem minnst á sig, hann má ekki bera hluti, fara upp stiga, labba of langt eða hlaupa á eftir barninu sínu. Allt getur þetta komið spánskt fyrir sjónir. Af hverju tekur þessi fullfríski einstaklingur ekki stigann upp þessa einu hæð í stað lyftunnar? Af hverju aðstoðar þessi einstaklingur ekki maka sinn með innkaupapokana? Af hverju leikur hún ekki við börnin á leikvellinum í stað þess að horfa á? Voðalega er þessi móður í Kringlunni, af hverju hreyfir hann sig ekki oftar og tekur af sér aukakílóin?

Það er okkur öllum svo óþolandi eðlislægt að dæma. Hugurinn er búinn að setja alla í litla fyrirfram ákveðna kassa, ákveða þeirra aðstæður og byrjaður að hneykslast og skammast áður en að við getum sagt „stopp“. Einhverra hluta vegna er þetta miklu einfaldara en að staldra við og íhuga alla hina möguleikana. Sem eru ótæmandi, því hvað vitum við? Það er nefninlega yfirleitt tilfellið að við vitum lítið sem ekkert um aðstæður náungans. Svo hvaða rétt höfum við til að dæma? Ákveða að viðkomandi sé bara latur en ekki þunglyndur? Að viðkomandi geti bara hrist af sér aukakílóin ef hann bara nennti því? Að viðkomandi geti gert allt sem hann vill, ef hann bara leggur sig fram?

- Auglýsing-

Þó hugur okkar rjúki heldur auðveldlega til og sé búinn að ákveða ævisögu einstaklinga og dæma þá hraðar en við kærum okkur um, þá getum við samt tekið stjórnina aftur. Við getum tekið skref aftur á bak í huganum, staldrað við og minnt okkur á að við vitum yfirleitt ekkert um aðstæður viðkomandi. Við hvað viðkomandi er að eiga þann daginn, eða alla daga. Þó okkur líki ekki alltaf hvernig náunginn hagar sér, hvernig hann lætur, þá er kannski einhver ástæða fyrir því. Kannski er viðkomandi að glíma við depurð eða kvíða. Kannski var viðkomandi að hætta í sambandi. Eða missa ástvin. Greinast með alvarlegan sjúkdóm eða að eiga við kvilla sem mun alltaf fylgja honum, svo sem hjartasjúkdóm.

Hvers vegna skiptir þetta máli? Vegna þess að með því að taka nokkur skref aftur á bak í huganum þá veitum við náunganum ómetanlegan skilning og stuðning, við skiptum úr yggldum brúnum yfir í lítið vinalegt bros. Við sýnum hlýju og samkennd, sem lætur okkur sjálfum líka líða betur. Það er þreytandi að vera endalaust neikvæður og pirraður út í aðra, það er auðveldara að vera jákvæður og vinalegur.
Við berum ekki alltaf utan á okkur hvað amar að, hvað við erum að glíma við. Ekki aðrir heldur. Sýnum skilning, sýnum samkennd.

Hanna María Guðbjartsdóttir, sálfræðingur.
hannamaria@hjartalif.is

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-