-Auglýsing-

Kominn heim af Hjartagátt án niðurstöðu og þó

Sólsetur við Garðakirkju
Sólsetur við Garðakirkju

Svörin létu á sér standa og ég var sendur í þrekpróf þar sem ég fór í 100 wött sem er ansi lélegt. Í kjölfarið var ákveðið að senda mig í hjartaþræðingu til að ganga úr skugga um að ekki væri um þrengingar í kransæðum að ræða.

Ekki kom svarið sem við vonuðumst eftir í hjartaþræðingunni en um leið var gott að vita að ekki væri um frekari þrengingar í kransæðunum í mér.

Það verður hinsvegar að segjast eins og er að þetta var farið að taka í og í huga mér voru að brjótast spurningar eins og hvort nú væri ég kannski kominn á þann stað sem ég hafi stundum óttast að einhverju leiti, staðinn þar sem heilsa mín væri hrakandi og lífsgæði mín væru að skerðast enn frekar.

Í þræðingunni sagði einn læknirinn að kannski væru runnin upp sú stund að ég þyrfti að acceptera eða meðtaka það að svona væri bara staðan, ég væri slappur og í rauninni lítið fyrir mig hægt að gera eins og sakir stæðu.

Ég var hugsi eftir þræðinguna þar sem ég lá rúminu að jafna mig. Margar hugsanir fóru í gegnum huga minn og óneytanlega flögraði að mér að nú væru að verða tólf ár frá hjartaáfallinu og 11 ár frá stóru hjartaðagerðinni þannig að kannski væri ekkert skrýtið þó að eitthvað væri að gefa eftir, ég beit á jaxlin og það glitraði tár á hvarmi.

Mér fannst samt mjög  óþægilegt að læknarnir hér virtust ekki skilja líðan mína að fullu því allt koma vel út, og án þess að segja það, þá hljómaði í huga mér gamalkunnug setning, þú ættir að vera betri.

Var ég kannski komin á endastöð hér heima þar sem ég er svolítið jaðartilfelli?  Mér hafði alltaf fundist læknarnir í Svíþjóð og Danmörk skilja betur af hverju mér leið eins og mér leið þegar ég hafði það skítt. En hér heima hafði það alltaf verið dálítil brekka, þó ekki hjá öllum.

- Auglýsing-

Þar sem engin niðurstaða varð úr þessu öllu saman var ég útskrifaður og fór heim. Það var heldur þungt í mér og ég hafði áhyggjur af því hvað framundan væri. Ég átti þó bandamann sem ég hringdi í og það var gott.

Ég hafði jú fengið nokkuð mörg ótrúlega góð ár þar sem hef getað áorkað ansi miklu og fyrir það var ég ótrúlega þakklátur, það var kannski ekki skrýtið þó eitthvað léti undan með tímanum.

Þegar ég var búinn að tala við bandamann minn í læknastétt var mér létt. Ef staðan væri þannig að mér væri raunverulega að versna þá höfðum við B-plan, Svíþjóð. Ef mér tækist ekki að hressa mig við á Reykjalundi þá var alltaf Svíþjóðartrompið á hendinni og það var mér mikilvægt. Ég vonaðist þó til þess að þurfa ekki að spila því út, ekki strax.

Á laugardagskvöld gerðist nokkuð merkilegt sem kom mér í opna skjöldu  og virtist eiginlega of einfalt til að geta verið satt. Hugsanlega og já bara hugsanlega átti þetta eftir að taka óvænta stefnu sem ég hafði ekki séð fyrir. Kannski var önnur skýring á orkuleysi mínu, þyngdaraukningu, mæði og almennri vanlíðan. Sú hugsanlega skýring kom eins og þruma úr heiðskíru lofti úr óvæntri átt.

Ég þarf hinsvegar að bíða fram á mánudag með að fá hana staðfesta, þannig að meira um það á morgun.

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-