-Auglýsing-

Hugleiðingar um heilbrigðismál

gcug0522.jpgÞað er óhætt að segja að það hafi verið sviptingar í umræðunni um heilbrigðiskerfið okkar síðustu vikurnar  og hver stórtíðindin á fætur öðrum dunið yfir.
Ekki hefur það nú verið hugmyndin hingað til að hjarta.net verði undirlagt af pólitískum pistlum um heilbrigðismál og stöðu ráðherra eða LSH.
Hitt er annað mál að hjartasjúkir ekki síður en aðrir sjúklingar hljóta að fylgjast með þeirri umræðu sem á sér stað og kynna sér þau sjónarmið sem eru uppi. Við eigum jú mikið undir því að heilbrigðiskerfið virki vel og geti veitt okkur þá þjónustu sem við þörfnumst, þegar við þörfnumst hennar.

Stundum hef ég sagt þegar starfsstéttir innan LSH hafa tekist á opinberlega í fjölmiðlum að það sé ljóst að stjórnendur séu óhæfir til að skapa þann frið sem ætti að ríkja innan LSH. Hitt er annað að LSH er stór vinnustaður og eðlilegt að skoðanir séu skiptar. Nú hefur það gerst að æðstu stjórnendur sem svo oft hafa verið gagnrýndir eru að láta af störfum. Það er ekki mitt að dæma um það hvort það sé rétt eða rangt en það sem veldur mér áhyggjum er sú staðreynd að mér finnst ég ekki vita mjög mikið hvað er framundan, þetta eru óvissutímar.
Eitt er það líka sem hefur að mínu mati rýrt trúverðurgleika LSH en það er hið stórmerkilega neyðarbílamál sem mikið hefur verið í fjölmiðlum síðustu vikurnar.

-Auglýsing-

Í upphafi var þetta kynnt sem sparnaðarráðstöfun af hendi LSH og eins og við manninn mælt fór allt á annan endann og læknar sem unnu á neyðarbíl létu í sér heyra.  Það sem að olli mér  áhyggjum á þessum tíma var sú staðreynd að þeir læknar sem gengu vaktir á neyðarbílnum voru að rífast við yfirboðara sína opinberlega og sú aðferðarfræði veldur óróa meðal fólks og fólk verður óöruggt.
Einnig finnst mér þessi aðferðarfræði ekki til þess fallin að efla traust á þessum breytingum og í mínum augum leit út fyrir að um gerræðislega ákvörðun væri að ræða og áður en langur tími liði myndu mannslíf tapast.

Það sem að mér þótti hinsvegar merkilegt við málið var þegar  landlæknir kemur  fram á sviðið og segir að lengi hafi verið rætt um að breyta rekstrarfyrirkomulagi neyðarbíls og þetta hafi ekkert með sparnað að gera heldur sé þetta skynsamleg ráðstöfun og þýði betri nýtingu mannafla. Þar höfum við það og ég efast ekki um að Landlæknir hefur rétt fyrir sér í þessu.
Ég hafði að vísu heyrt þessi sömu rök hjá yfirmönnum LSH en þegar þau litu dagsins ljós þá skiptu þau ekki máli því frumkynningin var klaufaleg, þeir voru semsagt ekki teknir trúanlegir þar sem þeirra eigin undirmenn slógu öll slík rök út af borðinu og hömruðu á því að mannslíf væru í húfi.

Það sem að ég hinsvegar skil engan veginn er þetta. Hvernig má það vera að stjórnendur stærsta og eins viðkvæmasta vinnustaðar landsins þ.e. LSH undirbúi sparnartillögur sínar eða breytingar á skipulagi neyðarbíls svo illa að í fleiri vikur skuli vera fjölmiðlaumfjöllun þar sem starfsmenn LSH rífast opinberlega í fjölmiðlum og það heiftarlega að Landlæknir sér ástæðu til þess að senda frá sér tilkynningu, útskýra málið og hvetja til sátta.
Mér hefur fundist sá ferill sem þetta mál fór í dapurlegur en ég er sammála Landlækni þegar hann hvetur til sátta. Ég er líka jafn sannfærður um að ef það kemur í ljós að þetta ógni öryggi sjúklinga á einhvern hátt þá verði tekið á því.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við að gæta aðhalds í rekstri og stundum leiðir slíkt aðhald til sparnaðar og á stundum veldur slíkur sparnaður eða niðurskurður sársauka, stundum þjónustuskerðingu og fólk verður ósátt. Það getur líka verið hollt að fara í naflaskoðun og sjá hvort mögulegt sé að gera hlutina með öðrum hætti.
Það er hinsvegar grundvallarforsenda þegar slíkar breytingar eru kynntar hjá jafn viðkvæmri stofnun eins og LSH að staðið sé vel að kynningunni bæði innan stofnunarinnar sem utan. Höfum í huga að 68% þjóðarinnar treystir LSH vel en 32% gera það ekki. Og við eigum ekki annan valkost en LSH eins og staðan er í dag.
Það sama má segja um Heilbrigðisráðherra, ef hann hyggur á miklar breytingar þá er mikilvægt að hann kynni þær almenningi og sé tilbúin til að ræða þær og kynna. Hann er jú í vinnu fyrir okkur ekki satt og það liggja ekki fyrir tölur um það hversu margir treysta honum og hversu margir treysta honum ekki.

- Auglýsing-

Ég er ekki í vafa um það að fráfarandi stjórnendur LSH hafa unnið þrekvirki í gegnum tíðina og oft á tíðum við afar erfið skilyrði sem ég efast um að margir væru tilbúnir til að sætta sig við.
Hitt er svo annað mál að það má vel vera að nú sé góður tímapunktur til að skipta um í brúnni og innleiða breytta stjórnarhætti. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hver eða hverjir verða valdir til starfans. Það er ljóst að framundan bíður risavaxið verkefni sem er bygging nýs Háskólasjúkrahúss.

Vissulega er bygging nýs Háskólasjúkrahúss örgandi og spennandi  verkefni en áður að því kemur þá verður það hlutskipti nýrra stjórnenda að stýra skútu sem að sumra mati er nokkuð löskuð og illa til reika. Uppsagnir skurðhjúkrunarfræðinga eru staðreind, þar vantar tæki og mannskap, plássleysi er gríðarlegt og sjúkt fólk liggur á göngum. Skútan hefur á stundum logað stafnanna á milli vegna illdeilna meðal áhafnarmeðlima og jafnvel hafa menn fallið fyrir borð í þeim hildarleik.
Það merkilega hinsvegar er að skútan sú arna hefur bjargað mörgu mannslífinu og menntað margan heilbrigðisstarfsmanninn og konuna til góðra verka.

Kannski á máltækið bara vel við um að af misjöfnu þrífast börnin best.

Á páskum 2008

Björn

bjorn@hjarta.net

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-