-Auglýsing-

Ör þróun en ekki bylting

Í 24 stundum þann 20 mars birstist eftirfarandi fréttaviðtal við Heilbrigðisráðherra: Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra segir þá sem tala um að hér sé mögulega að skapast grundvöllur fyrir einkatryggingar eins og í Bandaríkjunum vegna breytinga á rekstrarformi í heilbrigðiskerfinu vísvitandi segja ósatt eða ekki vita um hvað þeir eru að tala. „Við erum meðal annars að horfa til reynslu Svía sem síðastliðin 20 ár hafa skilgreint hlutverk kaupenda og seljenda í heilbrigðisþjónustunni og það væri þá eitthvað nýtt ef þeir væru komnir meðeinkatryggingar,“ segir hann um væntanlegar breytingar á heilbrigðiskerfinu. Heilbrigðisráðherra segir málið ekki snúast um hversu margar deildir Landspítalans verði mögulega í einkarekstri eða einhverjir aðrir þættir heilbrigðisþjónustunnar. „Þetta snýst um að stofnanirnar sem veita þjónustuna séu sjálfstæðar og hafi sveigjanleika til að nýta fjármunina eins vel og hægt er. Þetta er algjörlega í samræmi við það sem OECD ráðleggur okkur í úttekt sinni á íslenska heilbrigðiskerfinu. Þeir segja að við munum lenda í verulegum vandræðum ef við náum ekki að nýta betur þá fjármuni sem veittir eru til heilbrigðismála en framlögin til heilbrigðiskerfisins hér eru með því hæsta sem gerist, og benda á ákveðnar leiðir sem þekktar eru.“

Kostnaðargreining mikilvæg
Þær þjóðir sem íslensk stjórnvöld horfa til hafa skilgreint betur hlutverk kaupanda og seljanda heilbrigðisþjónustunnar en við auk þess að styrkja kaupandahlutverkið, að því er heilbrigðisráðherra greinir frá. „Þekkingin hjá þeim aðila sem semur fyrir hönd ríkisins um kaup á heilbrigðisþjónustu af stofnun eða sérfræðingum þarf að vera meiri.Kostnaðargreining, það er þegar greint er hvað hvert og eitt verk heilbrigðisþjónustunnar kostar, er gríðarlega mikilvæg svo að menn viti betur hvað verið er að tala um. Bæði forystumenn Landspítalans og aðrir stjórnendur í heilbrigðisþjónustunni óska eftir því að hlutirnir verði betur kostnaðargreindir. Umræðan eins og hún er nú er oft ómarkviss. Þegar menn hafa náð tökum á þessu er í auknum mæli hægt að taka ákvarðanir á grundvelli raunverulegra forsendna.“

Einkarekstur ekki einkavæðing
Ein af fullyrðingunum sem heyrst hefur utan heilbrigðiskerfisins,þar á meðal meðal  nokkurrastjórnarandstöðuþingmanna, er sú að verið sé að einkavæða kerfið. „Einkavæðing er ekki það sama og einkarekstur. Almenna orðanotkunin er sú að við einkavæðingu sé um að ræða sölu á opinberri stofnun, fyrirtæki eða öðrum opinberum eigum til einkaaðila og í kjölfarið komi hið opinbera hvergi nærri viðkomandi rekstri. Hér má taka dæmi um það þegar ríkið seldi bankana. Einkarekstur er þegar einstaklingi, félagi eða fyrirtæki er falinn rekstur á tiltekinni þjónustu. Það er enginn að tala um að hætta að greiða þjónustuna úr opinberum sjóðum. Þetta snýst um að nýta hagkvæmustu leiðir á hverjum tíma. Það er rétt að halda því til haga hér að slíkur einkarekstur er og hefur verið snar þáttur í íslenska heilbrigðiskerfinu um áratugaskeið og í opinberri þjónustu almennt. Reyndar er það svo að einn þriðji af heilbrigðisþjónustunni okkar er veittur af einkaaðilum.

Fáir með bókstafstrú
Þeir eru reyndar mjög fáir sem eru með bókstafstrú þegar kemur að rekstrarformi. Ég held að flestir séu nú komnir yfir það því að það gildir einu fyrir fólk hver veitir þjónustuna að því gefnu að hún sé fagleg og góð. Að ætla að útiloka einkarekstur sem getur bætt þjónustuna er vægast sagt óskynsamlegt. Að auki er það markmið að auka val fólks á þjónustuúrræðum með því að auka fjölbreytni í þjónustunni. Það er ekki flóknara en það,“ leggur Guðlaugur Þór áherslu á og bætir því við að íslenskt heilbrigðiskerfi njóti þess að hafa starfsfólk á heimsmælikvarða. „Það liggur fyrir að það eru að opnast tækifæri fyrir fólk til að sækja sér heilbrigðisþjónustu milli landa. Að sama skapi þarf að huga að því að okkar frábæra heilbrigðisstarfsfólk eigi kost á fjölbreytni varðandi vinnuumhverfi hér á landi.“ Hann segir að markmiðið sé að þjónustan verði betri, en þeir sem þurfi á þjónustunni að halda eiga almennt ekki að verða varir við breytingar. „Þetta snýr fyrst og fremst að umhverfi fyrirtækja. Með algjörri einföldun gætum við sagt að ef sjúkratryggingastofnunin hefði eina milljón króna í aðgerðir myndum við væntanlega eiga viðskipti við þann sem getur gert flestar aðgerðir að uppfylltum skilyrðum um fagmennsku, gæði og öryggi. “Landlæknisembættið á að fylgjast með því að fagleg skilyrði séu uppfyllt og það gilda sömu  reglur um opinberar stofnanir og sjálfstæða rekstraraðila, að sögn Guðlaugs Þórs. „Við erum með kerfi sem veitir þjónustuna, við erum að byggja upp innkaupastofnun sem semur um samninga og kaup á heilbrigðisþjónustu og aðila sem fylgist með að faglegi þátturinn sé í lagi. Markmið allra hlýtur að vera að það fáist eins góð þjónusta og hægt er fyrir þá fjármuni sem eru til skiptanna. Eðli málsins samkvæmteru þeir alltaf takmarkaðir í heilbrigðisþjónustunni, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það þurfa allir að huga að því hvernig hægt er að ná sem bestri nýtingu enda er það mikill misskilningur að það sé heilbrigðisráðherra sem stjórni tilteknum stofnunum eða deildum á sjúkrastofnunum. Það er mikilvægt að stofnanirnar hafi ákveðið sjálfstæði og sveigjanleika í rekstri sínum, meðal annars í gegnum stjórnskipulag. Þá kemur mér á óvart hvað stjórnendur eiga almennt litla möguleika á að umbuna fólki fyrir vel unnin störf hjá hinu opinbera. Á þessu myndi ég vilja sjá breytingar.“

Hóflegar byrðar
Nú er stefnt að því að lækka kostnað þeirra sjúklinga sem borga mikið vegna lyfja. Síðar verður litið til annarra þátta í heilbrigðiskerfinu. Nefnd sem heilbrigðisráðherra skipaði á síðasta ári til að gera tillögur að breyttri þátttöku einstaklinga í kostnaði vegna lyfja og annarrar heilbrigðisþjónustu mun kynna tillögur sínar í vor. „Það er verið að sjá til þess að þegar fólk þarf virkilega á þjónustu að halda verði fjárhagslegar byrðar eins hóflegar og mögulegt er. Það er lagt til að við hin, sem erum svo lánsöm að vera heilsuhraust og þurfum aðeins endrum og eins á heilbrigðisþjónustu að halda, leggjum meira til málanna. Markmiðið er að lunginn af kostnaðinum verði hjá hinu opinbera,“ greinir heilbrigðisráðherra frá. Lækkun lyfjaverðs almennt er ráðherranum mikið kappsmál. Hann segir viðbrögð stjórnarandstöðunnar við frumvarpi hans um lyfjamál hafa verið mikil vonbrigði. „Þegar ég flutti frumvarpið sem er markmiði að lækka kostnaðinn til þeirra sem þurfa á því að halda og hins opinbera hafði stjórnarandstaðan lítið til málanna að leggja annað en að ræða nikótínlyf og ég segi það með fullri virðingu fyrir þeim ágætu lyfjum. Annað var rætt í mýflugumynd. Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, var að vísu undantekning þar sem hann hefur lengi haft áhuga á málinu og þekkir það vel.“ Guðlaugur Þór segir lækkun lyfjaverðs stórmál. „Ástandið á lyfjamarkaðnum á Íslandi er óásættanlegt fyrir þá sem þurfa á lyfjum að halda. Markmiðið er að við búum hér við sama lyfjaúrval og lyfjaverð og þau lönd sem við alla jafna berum okkur saman við. Því náum við meðal annars með því að opna markaðinn og auka samkeppnina. Það ætti enginn að hræðast slíkt, allra síst þeir sem telja sig vera samkeppnishæfir við aðra markaði. Þetta snýst um að gera verslunina frjálsa.“

Dauðans alvara
Eitt af því sem unnið er að á vegum heilbrigðisráðuneytisins er mótun sérstakrar heilsustefnu í víðarasamhengi en áður. „Sem heilbrigðisráðherra hef ég ekki efni á öðru en að hugsa í áratugum. Það liggur ljóst fyrir að ef við erum á sömu leið og þær þjóðir sem við berum okkur saman við sem hreyfa sig lítið og þjást af offitu þá mun það hafa gríðarlega alvarlegar afleiðingar. Mönnum finnst það kannski kómískt að skipta hafi þurft út bátum í Disney Land og Disney World í Bandaríkjunum af því að börnin voru of þung fyrir þá en þetta er dauðans alvara. Því er spáð að ungmenni sem eru þar að vaxa úr grasi nái ekki sama aldri og foreldrar þeirra. Þessari þróun verður ekki snúið við nema foreldrar og einstaklingar hugsi um þetta og grípi til framkvæmda. Ábyrgðin er að stærstum hluta foreldranna en hið opinbera þarf að gera fólki auðveldara að velja sér heilbrigðan lífsstíl,“ segir heilbrigðisráðherra sem bætir því við að hér þurfi hugarfarsbreytingu.

- Auglýsing-

Engin bylting
Ekki á að gera byltingu á Landspítalanum. „Landspítalinn er í örri þróun og það er mikilvægt að efla hann og styrkja, jafnt sem þjónustu- og háskólastofnun. Þess vegna settum við ákveðna vinnu af stað sem nefnd undir forystu Vilhjálms Egilssonar stýrir,“ segir Guðlaugur Þór. Forstjóri Landspítalans, Magnús Pétursson, lætur af störfum um næstu mánaðamót. Eftirmaður hans hefur ekki verið ráðinn. „Málið er mjög einfalt. Við munum í síðasta lagi ráða nýjan forstjóra 1. september eftir auglýsingu og slíkt ferli. Við höfum mjög hæft fólk á Landspítalanum sem við treystum vel til að stýra þessu þangað til. Spítalinn er í mjög öruggum höndum,“ segir Guðlaugur sem tekur það fram um leið að fyrrgreind nefnd muni skila fyrstu tillögum að stjórnskipulagi spítalans í sumar. Ráðherrann segir ástæðu brotthvarfs Magnúsar, sem er einn þeirra sem hefur sýnst að jarðvegur væri að myndast fyrir einkatryggingar, eins og hann orðaði það meðal annars í blaðagrein í nóvember síðastliðnum, ekki snúast um ágreining. „Það er ekki þannig að fólk sem vinnur saman þurfi að vera sammála um alla hluti. Þetta var gert í samkomulagi eins og margoft hefur komið fram. Það er ekkert meira um þetta tiltekna mál að segja enda snúast svona mál ekki um ágreining til eða frá. Þetta er ekki í fyrsta skipti og ekki í síðasta skipti sem forstjóri hættir. Almennt er ég þeirrar skoðunar að það þyrfti að vera meiri hreyfanleiki og fólk mætti skipta meira um starfsvettvang hjá hinu opinbera.“

ingibjorg@24stundir.is

24 stundir 20.03.2008

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-