-Auglýsing-

Hlutverk neyðarbíls í bráðaþjónustu höfuðborgarsvæðisins

Álykta má að með því að leggja neyðarbílinn niður tapist 7 til 10 mannslíf árlega segir Gísli E. Haraldsson: “Gæði sjúkraflutninganámskeiða hérlendis og sú reynsla sem sjúkraflutningamenn hérlendis hafa eru á heimsmælikvarða.”

TIL stendur að breyta fyrirkomulaginu kringum neyðarbíl höfuðborgarsvæðisins. Í umræðum sem spunnist hafa kringum þá ákvörðun hafa margar rangar staðhæfingar um menntun og reynslu sjúkraflutningamanna og neyðarbílslækna komið fram. Ég fagna því grein skólastjóra Sjúkraflutningaskólans þar sem hún lýsir menntun og reynslu sjúkraflutningamanna. Gæði sjúkraflutninganámskeiða hérlendis og sú reynsla sem sjúkraflutningamenn hérlendis hafa eru á heimsmælikvarða. Þar að auki hafa hátt í tuttugu einstaklingar sótt tveggja anna verknám, aðallega í Pennsylvaniufylki í BNA og er það nám tengt háskóla í því fylki. Að því námi loknu hafa þeir hlotið starfsheitið bráðatæknar og er það hæsta menntunarstig sjúkraflutningamanna hérlendis.

 Þeir sem stunda sjúkraflutninga og bráðalækningar utan sjúkrahúsa hérlendis eru á þeirri skoðun að þrátt fyrir hátt þjónustustig sjúkraflutninga séu þekking og stuðningur læknis á vettvangi við störf sjúkraflutningamanna ómetanleg þegar mannslífum er ógnað. Neyðarbílar eru starfræktir víða í Evrópu með góðum árangri og bæta þeir meðhöndlun sjúklinga utan sjúkrahúsa. Sem dæmi má taka að fjöldi þeirra sem útskrifuðust lifandi eftir að hafa farið í hjartastopp utan sjúkrahúsa tvöfaldaðist með tilkomu neyðarbíls fyrir 30 árum síðan og hefur sá árangur smám saman aukist síðan þá. Í dag er árangurinn hér á höfuðborgarsvæðinu með því besta sem fyrirfinnst og er hann til að mynda tæplega tvisvar sinnum betri en í Pittsburgh, einni af stærri borgum Pennsylvaniufylkis. Einnig dróst fjöldi þeirra sem útskrifuðust lifandi eftir endurlífgun utan sjúkrahúsa saman um þriðjung í Helsinki í Finnlandi þegar neyðarbílsfyrirkomulagi þar var breytt á sama hátt og nú stendur til hérlendis. Út frá áðurnefndum rannsóknum auk annarra má álykta að með því að leggja neyðarbílinn niður, tapist 7 til 10 mannslíf árlega sem hægt hefði verið að bjarga og í því samhengi verða þær 30 milljónir sem eiga að sparast í þessum aðgerðum lítilvægar í samanburði. Áðurnefnd dæmi taka eingöngu til endurlífgana utan sjúkrahúsa en þær eru innan við 5% af starfsemi neyðarbílsins. Lítið er til af heimildum sem skoða aðra þætti starfseminar. Þess vegna viljum við neyðarbílslæknar, eins og skólastjóri Sjúkraflutningaskólans í nýlegri grein sinni, hvetja unglækna til að koma fram með fleiri greinar sem sýna fram á ágæti þeirrar starfsemi sem nú er viðhöfð hérlendis.

-Auglýsing-

Einnig hafa rangmæli verið nefnd varðandi getu neyðarbílslækna. Haft var ranglega eftir starfandi lækningaforstjóra í Fréttablaðinu fyrir stuttu að á neyðarbílnum störfuðu óreyndir námslæknar. Læknakandidatar hafa ekki staðið vaktir á neyðarbílnum a.m.k. síðastliðin 7 ár og eru þeim sérfræðingum og unglæknum sem nú starfa á bílnum settar mjög strangar kröfur um þjálfun, reynslu og menntun áður en þeir geta hafið störf á bílnum. T.a.m. er gerð krafa um ótakmarkað lækningaleyfi og reynslu af störfum á bráðamóttöku sem útilokar reynslulitla námslækna.

Höfundur er sjúkraflutningamaður og læknir á neyðarbíl höfuðborgarsvæðisins.

Morgunblaðið 03.01.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-