-Auglýsing-

Mikið veikur eða lítið veikur

Gunnar Skúli Ármannsson skrifar um það hvort betra sé að starfrækja einn spítala eða tvo: “Byggjum eitt gott sjúkrahús fyrir okkar veikustu meðbræður, því þeir eru líka Íslendingar eins og við hin.”
 
NOKKUR gagnrýni hefur beinst að nýbyggingu Landspítalans. Bent hefur verið á að nýja sjúkrahúsið verði hið mesta ferlíki. Það verði eini vinnustaður mjög margra heilbrigðisstarfsmanna og setji starfsmennina í stöðu þrælsins. Það sé betra að hafa tvö sjúkrahús, þau sé hægt að bera saman og samkeppni myndist á milli þeirra sem leiði af sér betri kjör bæði fyrir starfsmenn og sjúklinga. Auk þess er nýbyggingunni stillt upp á móti þjónustu við aldraða.

Sem starfsmaður Landspítalans fellur maður oft í þá gryfju að taka það sem gefið að fólk skilji og viti hvernig hlutirnir eru á Landspítalanum. Sjálfur hrærist maður í þessu umhverfi daglega og finnst, ranglega, að allir ættu að skilja eðli þeirrar starfsemi sem þar er. Það er ekkert rangt við að gagnrýni komi fram, aftur á móti finnst mér skorta andsvör.

Síðustu áratugir hafa einkennst af stefnuleysi í uppbyggingu á góðu sjúkrahúsi fyrir alla Íslendinga. Þau sjúkrahús sem voru notuð hér í bænum voru allt of lítil og þröng. Til að gera eitthvað voru menn að byggja við og gera upp gamlar einingar. Þegar tillit er tekið til þess að kostnaður við að gera upp gamla einingu er 80% af því að byggja nýtt er þessi stefna mjög heimskuleg.

Spurningin um eitt eða tvö sjúkrahús er mun athyglisverðari. Til allrar hamingju höfum við flestöll verið ekki mikið veikir sjúklingar. Ég vil kalla þann stóra hóp sjálfbjarga sjúklinga. Sjálfbjarga sjúklingar komast til og frá þjónustunni að mestu leyti á eigin vélarafli. Sem dæmi getum við tekið göngudeildarþjónustu, skurðaðgerðir úti í bæ eða einfalda gallblöðrutöku þar sem sjúklingurinn er kominn heim um kvöldmat. Okkur finnst við í raun ekki vera miklir sjúklingar því við erum að mestu sjálfbjarga og oftast vel læknanleg. Sjálfbjarga sjúklingar skipta umræðuna um Landspítalann sáralitlu máli, því þessa sjúklinga má meðhöndla í hvaða skemmu sem er. Þeir hafa þrek og þrótt til að fara á staðinn, krefjast þjónustu, eða rífa kjaft ef svo ber undir. Eðli Landspítalans er ekki meðhöndlun sjálfbjarga sjúklinga heldur ósjálfbjarga. Það sem hrjáir umræðuna um Landspítalann er að flestir sem taka þátt í henni hafa verið sjálfbjarga sjúklingar og meta síðan þörf Íslendinga fyrir nýjan Landspítala út frá sinni reynslu. Í raun ósköp skiljanlegt. Fæstir hafa verið mikið veikir, til allrar hamingju. Mín reynsla er svolítið önnur. Sem svæfinga- og gjörgæslulæknir þá sinni ég mest ósjálfbjarga sjúklingum. Mikið veikum einstaklingum. Allir sem verða mikið veikir eru fluttir á Landspítalann, því er hann spítali allra landsmanna. Flestallir sjúklingar Landspítalans eru „aldraðir“ eða veik börn. Sjálfbjarga sjúklingum má mín vegna skipta niður á eins mörg sjúkrahús og spekingar kjósa.

Hvað með ósjálfbjarga sjúklinga? Tökum dæmi. Sá fjöldi hjartaskurðaðgerða sem framkvæmdar eru á Íslandi er ekki til skiptanna. Hann er rétt nægjanlega mikill til að halda skurðlæknum og öðru starfsfólki okkar í æfingu. Ef við skiptum þeim á tvö sjúkrahús þá fengjum við tvær hjartaskurðdeildir sem hefðu allt of fáa sjúklinga til að halda starfsfólkinu í góðri æfingu. Svo bærum við þær saman. Við myndum bera tvær lélegar deildir saman. Úr yrði einhverskonar aumingjabandalag, tossabekkur. Eina skynsemin fyrir okkur er að efla þá deild sem er til staðar núna. Sú deild yrði síðan borin saman við bestu erlendu sjúkrahúsin í sömu grein. Metnaður okkar á Landspítalanum er að standast slíkan samanburð, sem dúx. Sama á við um fleiri sérgreinar, svo sem heilaskurðlækningar.

Nefna má tvö atriði til viðbótar. Það hlýtur að vera dýrara að halda úti tveimur vaktalínum lækna og hjúkrunarfræðinga en einni, launakostnaður er nú einn stærsti útgjaldaliðurinn í rekstri allra fyrirtækja. Þar að auki eru það gömul sannindi í hagfræði að allir sem að rekstri koma vita að heppilegast er að ákvarðanir í þeim efnum séu teknar af þeim sem þurfa síðan að búa við ákvarðanirnar. Því ætti að spyrja þá sem hafa verið mjög veikir sjúklingar hvernig þeir vilja hafa hlutina, og okkur sem sinnum þeim.

Hvers eiga veikustu sjúklingarnir að gjalda? Þeir hafa aldrei átt eitt gott sjúkrahús þar sem þeir geta fengið alla þjónustu. Vandamálið með mannskepnuna er að hún veikist ekki í pörtum. Ef maður lendir í miklu slysi þá brotna ekki bara beinin. Lungun, hjartað og nýrun geta líka bilað. Ætli það sé notalegt að ferðast um Reykjavík á milli sjúkrahúsa mölbrotinn? Stundum hafa sjúklingarnir verið nær dauða en lífi eftir flutninginn.

- Auglýsing-

Mikið veikir sjúklingar eru ekki til skiptanna. Þeir henta mjög illa fyrir einkarekstur. Þeir hafa búið við slæmar aðstæður á nokkrum sjúkrahúsum í Reykjavík áratugum saman. Þetta er vanræktur hópur sem hefur ekki hátt. Það getur verið að ég verði þræll eins atvinnurekanda en ég vil þá láta sjúklinginn njóta vafans.

Það er mál að linni. Spekingar, setjið ykkur í spor þessara sjúklinga og okkar sem sinnum þeim áður en þið bregðist þeim endanlega. Byggjum eitt gott sjúkrahús fyrir okkar veikustu meðbræður, því þeir eru líka Íslendingar eins og við hin.

Höfundur er svæfinga- og gjörgæslulæknir.

Morgunblaðið 02.01.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-