-Auglýsing-

„Það sér hver maður að þessi aðstaða gengur ekki upp“

Heilbrigðisráðherra heimsótti gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut í gær. Viðbygging mun leysa brýnasta vandann til skamms tíma. Mikil þrengsli og mannekla viðvarandi á deildinni.

Þegar talað er um nýtt hátæknisjúkrahús vill oft gleymast í umræðunni að tæknin er þar ekki aðalatriðið, heldur bætt aðstaða sem nýjum spítala mun fylgja. Gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut, sem er til húsa í gamla Landspítalanum, er gott dæmi um þau þrengsli sem starfsfólk, sjúklingar og aðstandendur þeirra þurfa að búa við víða á Landspítalanum í dag. Á deildinni eru legupláss fyrir níu sjúklinga sem oft eru fullnýtt og gott betur en það. Þá þarf að flytja sjúklinga á gjörgæsluna í Fossvogi með tilheyrandi áhættu eða leggja þá, sem það þola, á ganga deildarinnar. Lítil sem engin geymsluaðstaða er á deildinni fyrir tæki og lyfjaherbergið er rétt um tveir fermetrar. Þar þarf starfsfólk að athafna sig við að taka til lyf. Aðeins eitt einbýli er á deildinni, annars liggja sjúklingar á fjölbýlum, fjórir saman. Næði er því lítið og erfitt að virða friðhelgi sjúklinga og aðstandenda. Hjúkrunarþyngd þess sjúklingahóps sem liggur á gjörgæslu er einnig að þyngjast með hækkandi meðalaldri þjóðarinnar. Sjúklingarnir eru veikari og þurfa þar af leiðandi meiri hjúkrun og oft lengri legutíma en áður. Sem dæmi má nefna að 10% aukning var í hjartaskurðlækningum á síðasta ári en sá sjúklingahópur þarf mikla aðhlynningu á gjörgæslu. Aðstaða fyrir aðstandendur á deildinni var bætt á síðasta ári en er þó aðeins rétt viðunandi.

„Það sér hver maður að þessi aðstaða gengur ekki upp,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra, sem heimsótti gjörgæsludeildina í gær.
 

Þrátt fyrir þessi þrengsli, sem mörgum þykir vart bjóðandi, nær starfsfólkið að sinna sínu starfi með prýði. En álagið er mikið. Nú eru ómönnuð um sex stöðugildi hjúkrunarfræðinga og því er unnin mikil yfirvinna. Gjörgæsluhjúkrun er sérhæfð og aðstöðuleysið fælir hjúkrunarfræðinga frá.

Aðstaðan batnar næsta haust

En nú horfir til betri vegar. Í bili að minnsta kosti. Byggt verður við deildina, leguplássum fjölgað um tvö, geymsluaðstaða bætt og lyfjaherbergið stækkað. Vonast er til að hægt verði að byrja að byggja í byrjun næsta sumars og að húsnæðið verði tekið í notkun með haustinu.

- Auglýsing-

„Ástæðan fyrir því að við þurfum á viðbyggingu að halda er m.a. sú að sjúklingarnir sem liggja á gjörgæslu er veikari en áður og þarfnast meira rýmis í kringum sig og alltaf fjölgar tækjunum sem við þurfum geymslu fyrir,“ segir Alma Möller, yfirlæknir gjörgæsludeildar, sem kynnti heilbrigðisráðherra aðstöðuna á deildinni í gær. Þessi þróun er rétt að byrja en hefur skollið á með töluvert meiri þunga en starfsfólk spítalans átti von á. „Viðbyggingin mun aðeins leysa brýnasta vandann í nokkur ár,“ segir Alma.

Heilbrigðisráðherra fagnaði frumkvæði starfsfólks gjörgæsludeildar og sagði viðbygginguna vel útfærða. Hann sagði að aðstaða spítalans yrði að vera í stöðugri endurskoðun þótt nýr spítali væri „handan við hornið“. Minnti hann á að í ár væri áætlað að setja 800 milljónir kr. skv. fjárlögum í undirbúning nýs sjúkrahúss.

En viðbyggingin bjargar ekki öllu sem nauðsynlegt er að bæta. T.d. vöktu starfsmenn deildarinnar athygli heilbrigðisráðherra á því að fjölgun leguplássa fylgdi óhjákvæmilega fleira starfsfólk en þegar væri deildin undirmönnuð. Benti Helga Kristín Einarsdóttir, sviðsstjóri hjúkrunar-, svæfinga-, gjörgæslu- og skurðstofusviðs, á að hverju legurými á gjörgæslu fylgdu rúmlega 4,2 stöðugildi hjúkrunarfræðinga á sólarhring. Þó telur starfsfólkið að bætt aðstaða geri deildina meira aðlaðandi og bindur því vonir við að auðveldara verði að ráða í lausar stöður.

Tækin taka næstu lyftu

Fleiri þættir lagast ekki þrátt fyrir viðbyggingu. Lyftur sem sjúklingar eru fluttir í milli t.d. skurðstofa og gjörgæslu eru svo litlar að ekki er pláss fyrir bæði sjúkrarúm og lífsnauðsynlegar vélar sem sjúklingunum fylgja. Starfsfólkið deyr þó ekki ráðalaust, setur sjúklinginn í rúminu í eina lyftu, blæs í hann lofti og hleypur svo með öndunarvélina í næstu lyftu og tengir hana við sjúklinginn þegar á leiðarenda er komið. Þessi aðstaða er auðvitað algjörlega óviðunandi og ógnar öryggi sjúklinga. Gamli Landspítalinn er friðað hús, tekið í notkun 1930, og því erfitt að koma við miklum breytingum á lyftunum. Ýmsar hugmyndir hafa þó verið nefndar en líklega mun þetta úrlausnarefni bíða þar til nýr spítali rís. Lyfturnar í nýja húsinu verða a.m.k. þrisvar sinnum stærri en lyfturnar sem nú eru notaðar. Og það er aðeins einn af mörgum plúsum sem fylgja munu byggingunni.

Úrbætur á gjörgæslu

Viðbygging við gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut verður um 80-100 m² en fyrir er deildin 243 m². Með henni mun aðstaðan batna til muna:

» Leguplássum fjölgar úr níu í ellefu.

» Rými í kringum 5 af leguplássunum eykst.

- Auglýsing -

» Lyfjaherbergi stækkar úr 2,4 m² í um 7 m².

» Geymsluaðstaða fyrir tækjakost batnar og sömuleiðis lageraðstaða.

» Fundaherbergi og kennsluaðstaða bætist við.

» Aðstaða fyrir starfsfólk stækkar í 24 m².

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

Morgunblaðið 05.01.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-