-Auglýsing-

Hjólað fyrir hjartað á þorra

Það eru mörg falleg augnablik þegar hjólað er um borg og bý.

Það er orð að sönnu að mér finnst gaman að hjóla fyrir hjartað og rafmagnshjólið veitir mér áður óþekkt frelsi til að njóta útiveru. Það er óvenjulegt að hafa svo nánast algjörlega snjólausan vetur til þessa og í því hafa falist mörg tækifæri til hjólreiða.

Ég hef hjólað fyrir hjartað frá áramótum og þó svo að stundum hafi hann verið svalur kom það ekki að sök. Má vera að ég hafi kannski farið heldur styttra og ekki eins hratt yfir en ég var úti. Nú í febrúar var blástur á köflum fyrripartinn en hef ég haldið áfram að hjóla og haft mikla gleði af.

Það er gaman að því að eftir því sem ferðunum fjölgar fer maður að kannast við sum andlitin eða réttara sagt hjól og mann. Þetta er mjög gleðilegt og greinilegt að margir nota hjólreiðar til útiveru. Svo eru líka hinir sem greinilega nota hjól sem samgöngutæki en almennt er heldur meira kapp í þeim en okkur hinum sem nýtum okkur hjólreiðar til útivistar.

Fyrsta byltan

Ég lenti hinsvegar í því í síðustu viku að detta í fyrsta skipti. Þannig var að ég sá mann með lítinn smáhund í jaðri göngustígs og hægði vel á mér og taldi mig hafa notað bjölluna til að láta vita af mér. Í þann mund sem ég ætlaði að renna mér framhjá ríkur hundurinn fyrir hjólið hjá mér en ferðin á mér var ekki meiri en það að mér tókst að stoppa þegar ég lenti á taumnum en hundurinn féll við. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að fórna mér til að hlífa hundinum og þar sem ég var nánast stopp þá missti ég jafnvægið og féll út fyrir göngustíginn, niður smá halla í átt að skurði en stoppaði við litla trjáhríslu með hjólið ofan á mér og hundurinn stóð yfir mér og gelti.

Ég var óslasaður en hálfósjálfbjarga þarna um stund meðan ég var að ná áttum og finna út hvernig ég ætti að koma mér á fætur. Þetta hafðist allt saman og það var ekkert annað í stöðunni en að vippa sér á hjólið aftur og halda áfram hringferðinni minni eins og ég var vanur.

Seinna um daginn kom í ljós að ég hafði teygt svolítið á liðböndum í ökla og hef þess vegna aðeins þurft að gefa hjólreiðum nokkurra daga frí. Ég bíð hinsvegar spenntur eftir að setjast aftur í hnakkinn.

- Auglýsing-

Flestir tillitssamir

Þessi bylta mín varð til þess að minna mig og aðra á að það er aldrei of varlega farið og það getur verið stutt á milli. Ég var heppinn en það þarf ekki að hafa mörg orð um það hversu illa er hægt að slasa sig ef maður dettur illa. Mér finnst flestir hundaeigendur mjög passasamir en svo eru hinir sem eru uppteknir af því að tala í símann og veita umhverfi sínu ekki sérlega mikla athygli. Þessir einstaklingar heyra væntanlega ekki mikið þó maður dingli bjöllunni til að láta vita af sér.

Almennt finnst mér fólk sýna mér kurteisi og tillitssemi á göngu og hjólastígum og reyni ég að gera slíkt hið sama. Það sama er að segja um þá sem eru akandi og finnst mér fólk viljugt að stoppa við gangbrautir og hleypa  manni yfir en á því eru þó undantekningar eins og gengur. Ég hef reynt að þakka fyrir mig með því að veifa og oftar en ekki fæ ég bros að launum og því fylgir góð tilfinning.

Sjálfur reyni ég að vanda mig í umferðinni og láta kappið ekki bera mig ofurliði. Það er mikilvægt að temja sér góða siði og eins byltan mín sannaði, þá er aldrei of varlega farið.

Höldum áfram að hjóla fyrir hjartað og njóta útiveru.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-