-Auglýsing-

Snjalltæki og hjartað

Snjalltæki geta stórbætt þjónustu við þá sem lifa með hjarta og æðasjúkdóm.

Á undanförnum árum hafa átt sér stað gríðarlegar framfarir í snjalltækni sem hafa opnað nýja og áður óþekkta möguleika. Snjallsímar eru í almennri notkun og heilsuúr eru frábær tæki til að skrásetja og fylgjast með heilsufari, svefnvenjum og fleiri þáttum sem skipta máli. Upplýsingar sem öpp í símunum okkar halda síðan utan um.

Sífellt eldri einstaklingar hafa tileinkað sér tæknina og það væri kannski að bera í bakkafullan lækinn að þakka Covid-19 fyrir eitthvað jákvætt. Eitt hefur þó faraldurinn gert að verkum og það er að nýjar dyr hafa opnast til samskipta hjá þessum hóp fyrir tilstuðlan snjalltækja.

Þessi nýji veruleiki býður upp á áður óþekkta möguleika hvað varðar forvarnir og eftirfylgni við þá sem þjást af hjarta og æðasjúkdómum og þá ekki síst þá sem eru með hjartabilun. Fjarvöktun hefur verið notuð hjá þeim sem hafa gangráða og bjargráða á Landspítala með góðum árangri en að fjarvakta einkenni sjúklinganna sjálfra er alveg ný nálgun.

Hjartadeild prófar nýja tækni

Á Hjartadeild Landspítala hafa menn verið að prófa sig áfram með þessa tækni og gert á þessu fýsileikakönnun sem sýndi svo ekki verður um villst að fólk á tiltölulega auðvelt með að nýta sér tæknina óháð aldri og miklir möguleikar felast í því að fá fólk til að svara einföldum spurningum til að meta stöðuna og hvort ástæða er til að kalla viðkomandi inn á göngudeild í eftirlit. Stuðst er við gervigreind til að meta niðurstöðuna og litakóði notaður til að átta sig á hvernig viðkomandi sjúklingur er staddur og hvernig skuli bregðast við. Þá fylgir þessu fjarstuðningur og hvatning um heilbrigðari lífstíl m.a með stuttum myndböndum um mikilvægi þess að hreyfa sig reglulega, borða hollt, halda sér í kjörþyngd, reykleysi, svefn og slökun svo dæmi séu nefnd.

-Auglýsing-

Ég  hafði samband við Davíð O. Arnar yfirlækni Hjartadeildar og spurði hann út í málið. Hann sagði að partur af þessari vinnu á hjartadeild Landspítala er að endurskilgreina og bæta starfsemi deildarinnar og hvaða hlutverki deildin á að þjóna í stóru myndinni í heilbrigðisþjónustunni. Á undanförnum árum hefur mikil vinna farið í að efla tækjakost og mannafla. Á síðasta ári var svo legudeildin öll endurnýjuð með glæsibrag og nú er fókusinn á hvernig best sé að efla göngudeildarþjónustuna.  

„Mikilvægt er að huga að verkaskiptingu innan heilbrigðiskerfisins. Hjartadeildin vill gjarnan sinna flóknum málum þar sem þarf þverfaglega nálgun og dæmi um vel heppnað verkefni er göngudeild hjartabilunar. Margt annað til að mynda eftirlit stöðugra sjúklinga með vel skilgreind vandamál á betur heim hjá heilsugæslunni eða hjá sérfræðilæknum á stofum.

Við viljum reyna að gjörnýta tæknina til að þróa framúrskarandi þjónustu fyrir þá sem eru í göngudeildareftirliti á hjartadeild Landspítala og í því tilliti m.a. verið að skoða frekari notkun á snjalltækni í samvinnu við heilbrigðistæknifyrirtækið SidekickHealth.“

Ný nálgun í eftirliti við hjartasjúklinga

Að sögn Davíðs býður snjalltæknin upp á nýja nálgun í sambandi við eftirlit og fræðslu. Fyrir suma er nóg að koma í eftirlit á 3, 6 eða 12 mánaða fresti á meðan aðrir þurfa þéttara eftirlit. Stafrænt eftirlit eða fjarvöktun getur skipt miklu.

- Auglýsing-

„Vegna snjalltækninnar er mögulegt er að vera í sambandi við fólk á fyrirfram skilgreindu tímabili þar sem fólk fyllir út spurningalista sem er sérhannaður fyrir hjartabilun svo dæmi sé tekið. Spurningar snúast þá t.d. um mæði, þrek orkustig og bjúg. Svörin fara svo í sérstaka úrvinnslu þar sem svörin eru vigtuð með gervigreind, útkoman reiknuð í stigum og út úr þessu kemur litakóði sem auðvelt er að vinna með. Litakóðinn er eins og umferðarljósin en grænt þýðir að allt sé stöðugt, gult minniháttar frávík, rautt meiriháttar frávik og blátt að bregðast þurfi við með hraði. Út frá litakóðanum er svo hægt að meta hvort þörf sé á að kalla fólk inn á göngudeild, hvort nægjanlegt sé að hringja í viðkomandi eða hvort þörf sé að hringja á sjúkrabíl.

Hægt er sjá fyrir sér að með svipuðum hætti sé hægt að fylgjast með þeim sem eru með kransæðasjúkdóm, gáttatif og jafnvel aðra langvinna sjúkdóma. Auk þess auðveldar tæknin að fylgjast með hægfara versnun sjúklinga og þá opnast möguleikar á að grípa inn í áður en málin verða of þung eða erfið.“

Stærri rannsókn í farvatninu

Einnig kom fram í spjallinu við Davíð að stefnt er að því að gera stærri rannsóknir á hjartadeildinni til að svara þeirri spurningu hvort fjarvöktun eða snjalleftirlit skili betri árangri en hefðbundið eftirlit. Við verðum fyrst að rannsaka það að þessi nálgun skipti máli fyrir ánægju sjúklinga og árangur. Við hyggjumst byrja með rannsóknirnar síðar á þessu ári þar sem við berum saman hefðbundna meðferð og hefðbundið eftirlit við samskonar nálgun að viðbættri fjarvöktun og fjarstuðningi. Við hyggjumst skoða þetta í þremur stærstu sjúkdómaflokkunum innan hjartalækninga, kransæðasjúkdómi, hjartabilun og gáttatifi, segir Davíð.

“Verkefnið hlaut nýverið risastóran styrk frá Rannís, 135 milljónir króna, til viðbótar við tæplega tuttugu milljónir sem líftryggingafyrtækin höfðu styrkt okkur um. Verkefnið er því mjög vel fjármagnað og skiptir það okkur gríðarlega miklu máli.” 

Miðlun upplýsinga mikilvæg

Grunnurinn að góðri þjónustu við hjartabilaða er að eiga auðvelt með að miðla til þeirra einstaklingsmiðuðum upplýsingum og fylgja eftir meðferðinni. Það er því ljóst að það er eftir miklu að slægjast í þjónustu fyrir þennan hóp í formi bættrar þjónustu og óhætt að fullyrða að þetta getur breytt lífsgæðum þessa hóps til hins betra.”

Eins og Davíð bendir á má segja það sama um aðra hjartasjúka eins og kransæðasjúklinga, sjúklinga með gáttatif sem og aðra langveika sjúklinga. Með snjalltækni er tiltölulega auðvelt að safna og eftir atvikum miðla upplýsingum og jafnvel fræða almenning um hvað ber að varast og hvað þarf að hafa augun á. Mjög auðvelt er að nýta snjallforrit til þess að ná til þessa hóps og fólk fái þá jafnframt einstaklingsmiðaðan fróðleik eða tillögu um forvarnir og lífsstílsbreytingar. Svörin geta auk þess leitt til þess að fólki er bent á að leita til heilsugæslu eða læknis þar sem ástæða er til að kanna málið frekar. Þrátt fyrir tæknina er gott samband við heilbrigðisstarfsfólk mikilvægt.

Að lokum

Við lifum á öld tækninnar og æ fleiri leita á náðir alnetsins til að leita svara við heilsufarslegum spurningum. Hvað svo sem okkur finnst um það þá er það engu að síður staðreynd og fyrir vikið er fólk almennt upplýstara um ýmis heilsufarsleg vandamál og sitt eigið heilsufar almennt þó svo að ekki sé nú allt heilagur sannleikur þó það sé á netinu.

Snjalltækni er orðin eðlilegur samskiptamiðill milli fólks og samspil snjallsíma og heilsuúra býður upp á mikla möguleika bæði til skráningar á heilsufarsupplýsingum og úrvinnslu þeirra. Líklegt má telja að þessi staðreynd hvetji jafnvel fólk til að leita aðstoðar fyrr ef á þarf að halda og geri fólk meðvitaðra um heilsufar sitt.

Það má því með sanni segja að það séu áhugaverðir og snjallir tímar framundan.

Björn Ófeigs.

Tengt efni.

https://hjartalif.is/hjolad-fyrir-hjartad-garmin-venu-heilsuur/
https://hjartalif.is/garmin-vivoactive-4-kynning/

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-