-Auglýsing-

Rannís úthlutar hjartadeild Landspítala og Sidekick 135 milljóna styrk til að rannsaka stafrænar hjartalækningar

Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala, og Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri og stofnandi Sidekick

Hjartadeild Landspítala og heilbrigðistæknifyrirtækið Sidekick Health eru í samstarfi um að rannsaka nýja nálgun í eftirliti hjartasjúklinga í gegnum snjallforrit. Rannís úthlutaði nýlega 135 milljóna króna styrk til þessa verkefnis sem er óvenju há upphæð til vísindaverkefnis hér á landi. Hugmyndirnar ganga út á stafrænt eftirlit sem felur í sér fjarvöktun og fjarstuðning, meðal annars til lífstílsbreytinga.

Heilbrigðiskerfið má að margra mati gera meira af því að hvetja til heilbrigðs lífstíls sem skiptir sköpum fyrir líðan og árangur, jafnt heilbrigðra sem og þeirra sem fást við langvinna sjúkdóma. 

Styrkveitingin er hluti af því sem kallast „Markáætlun um samfélagslegar áskoranir“ þar sem markmiðið er að leiða saman þekkingu og styrkleika mismunandi fagsviða, tækni- og fræðigreina til að finna nýjar lausnir og styðja við nýsköpunarmiðað samfélag á tímum örra breytinga. Verkefnið gengur í stuttu máli út að skoða hvort stafrænt eftirlit í formi fjarvöktunar og fjarstuðnings gegnum snjallforrit geti bætt árangur og gert eftirlit markvissara á sama tíma og reynt verður að stýra aðflæði að göngudeildum eftir því hversu mikil þörfin er hverju sinni. Verkefninu verður skipt niður í þrjá hluta þar sem þrír algengustu hjartasjúkdómarnir – hjartabilun, kransæðasjúkdómur og gáttatif – verða rannsakaðir.

Fjarvöktun sjúklinga með snjallforriti (appi)

Fjarvöktunin fer fram gegnum lykilspurningar sem þátttakendur svara í snjallforriti eða appi Sidekick með reglulegu millibili auk þess sem þeir skrá mælingar á atriðum eins og lífsmörkum og líkamsþyngd. Lagt verður mat á svörin með sérstöku algrími eða reikniriti sem ákvarðar viðbrögð heilbrigðisstarfsmanna er vakta niðurstöðurnar. Fjarstuðningurinn verður í formi myndbanda og hvatningaskilaboða í snjallforritið. Sérstök áhersla verður lögð á að hvetja til heilbrigðari lífstíls. Í því felst til að mynda að leggja áherslu á hreyfingu, reykleysi, kjörþyngd, hollt mataræði, svefn og slökun.

Stafræn nálgun hefur víða gjörbylt starfsemi sem hefur lengi verið með hefðbundnu sniði, til dæmis í bankakerfinu. Þar hefur komum á útibú snarfækkað í öfugu hlutfalli við þann fjölda sem stundar sín viðskipti í heimabanka, gjarnan gegnum snjallsímann. Þessi bylting hefur þó einungis að mjög litlu leyti náð inn í heilbrigðiskerfið. Fýsileikakönnun sem var gerð í fyrra á göngudeild hjartabilunar á Landspítala með snjallforriti frá Sidekick sýndi afar áhugaverðar niðurstöður sem gefa frekari þróun og rannsóknum byr undir báða vængi.

Tryggvi hjá Sidekick: Virkari þátttaka sjúklinga

„Heilbrigðiskerfin okkar voru að mestu hönnuð á síðustu öld og eru á margan hátt betur til þess fallin að taka á bráðavanda eins og bráðum sjúkdómum og slysum. Nú á dögum sinnir heilbrigðiskerfið hins vegar fyrst og fremst fólki með langvinna sjúkdóma. Það er ekki hagstætt, hvorki fyrir sjúklinga né heilbrigðiskerfið, að sinna sjúklingum á stofnunum nema að hluta til,“ segir Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri og stofnandi Sidekick.

„Ég held að við öll, sem vinnum í heilbrigðiskerfinu, sjáum það að fólk vill taka virkari þátt í eigin meðferð en núverandi kerfi leyfir. Hér gildir það sama og um bankaþjónustu. Nú sinnum við flestum einföldum bankaerindum í gegnum snjallsíma. Við erum að gera hið sama hér; að færa heilbrigðisþjónustuna inn í daglegt líf hvers og eins – utan stofnana. Gangi sú framtíðarsýn eftir leyfir það dýrum heilbrigðisstofnunum með sérhæfðu starfsfólki að einbeita sér að flóknustu úrlausnarefnunum. Og við erum einstaklega lánsöm að fá að vinna með heilbrigðisstarfsfólki í fremstu röð sem deilir þessari framtíðarsýn með okkur,“ bætir hann við.

Davíð hjá hjartadeild: Betri þjónusta, bætt nýting

Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala sem fer fyrir verkefninu á spítalanum, segir mikla þörf á að við prófum okkur áfram með nýjar nálganir í eftirliti sjúklinga með hjartasjúkdóma. „Við höfum lengi verið of íhaldssöm í þessum efnum. Sjúklingar koma gjarnan og hitta heilbrigðisstarfmann á göngudeild með reglulegu millibili en svo eru kannski lítil samskipti þess á milli. Fjarvöktun gefur okkur tækifæri til að fylgjast mun tíðar með skjólstæðingum okkar og bregðast fyrr við ef versnun verður. Sömuleiðis má lengja tímann milli heimsókna hjá þeim sem eru stöðugri hvað varðar einkenni. Þeir sem eru stöðugir koma þá sjaldnar en fá samt athygli gegnum fjarvöktun en þeir sem eru óstöðugir fá meiri þjónustu þegar á þarf að halda.“

Davíð kveður markmiðið að bæta þjónustu við hjartasjúklinga og fullnýta starfskrafta hjartadeildar til að sinna þeim sem eru í mestum vanda hverju sinni. Þá vonast hann til þess að tíðara eftirlit geti leitt til fækkunar á bráðakomum vegna oft fyrirséðrar versnunar þar sem mögulega verði hægt að grípa fyrr inn en ella. „Sidekick sé mjög spennandi og áhugaverður samstarfaðili á þeirri spennandi vegferð sem hjartadeildin er á,“ segir hann að endingu.

Af vef Landspítalans.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-