-Auglýsing-

Hjólað fyrir hjartað 2020

Ég (Björn) og Valur markaðsstjóri TRI með hjólið fyrir framan okkur.

Þá rúllum við af stað þessu skemmtilega verkefni okkar hér á hjartalif.is „hjólað fyrir hjartað“ annað árið í röð í samstarfi við Hjólreiðaverslunina TRI. Við erum seinna á ferðinni en áætlað var en þar setti margumtöluð kórónuveira strik í reikninginn. En við látum það ekki á okkur fá og erum komin af stað og ég byrjaður að hjóla.

Eins og á síðasta ári er það TRI verslun sem leggur mér til Cube rafmagnshjól í sumar og ég ætla að njóta þess að hjóla fyrir hjartað á þessum glæsta fák.

Á síðasta ári keyrðum við þetta prufuverkefni okkar „hjólað fyrir hjartað“ í um 3 mánuði og náðum til um 100.000 manns í gegnum hjartalif.is. Við vorum í samstarfi við Fjallahjólaklúbbinn og okkar fólk fékk að rúlla með þeim í létta túra sem þeir bjóða upp á einu sinni í viku. Þetta eru þægilegir túrar sem miða að því hjóla létt um borgina og kynnast þeim leiðum sem eru í boði fyrir hjólreiðafólk.

Það er staðreynd að rafmagnshjól eru algjör bylting fyrir okkur sem erum ekki með fullt þrek. Við hefðum jafnvel ekki haft möguleika á því að stunda hjólreiðar á hefðbundnum hjólum og myndum þar af leiðandi ekki getað nýtt okkur þessa frábæru leið til útivistar og þjálfunar.

Rafmagnshjól veita frelsi

Sjálfur er ég hjartabilaður og með gangráð/bjargráð. Afkastageta hjartans er takmörkuð en það virkar fínt á „lægri“ snúning ef svo má að orði komast en ég mæðist fljótt við álag. Hjartað fer ekki mikið yfir 130 slög þannig að takmarkanirnar eru töluverðar. Á síðastliðnu ári fékk ég rafmagnshjól lánað hjá TRI í nokkrar vikur og var satt best að segja dálítið smeykur við þetta og hafði ekki mikla  trú á því að ég gæti þetta. Mér til mikillar undrunar gekk þetta vonum framar og rafmagnshjólið opnaði fyrir mér nýjan heim. Mér óx fljótt ásmegin og ég fann út að þetta hentaði mér mjög vel og upplifði ég mikið frelsi og óstjórnlega gleði yfir því að geta þeyst um hverfið og notið náttúru á þennan skemmtilega máta.

Annað sem ég tók eftir var að ég hef stundum átt í erfiðleikum með göngu þar sem ég hef oft verið verkjaður við gang. Hjólreiðarnar aftur á móti eru þannig að ég þarf ekki að bera þyngdina mína þannig að ég hef ekki fundið fyrir þessum leiðinda verkjum. Síðast en ekki síst -mér til mikillar undrunar- mæðist ég heldur minna en ef ég er að ganga en þá þarf að taka mið af því að ég nýti mestu aðstoð sem rafmagnið getur veitt mér og fljótur að skipta niður í léttari gíra ef hallar upp í móti.

- Auglýsing-

Ég er eðli málsins samkvæmt búinn að bíða spenntur síðan í vor eftir því að fá Cube hjólið frá TRI til umráða og geta byrjað að hjóla.  Ég er nú búinn að hafa hjólið í um 10 daga og hef verið að hjóla flesta daga og það verður að segjast eins og er að tilfinningin er hreint út sagt stórkostleg. Fyrstu dagana var aðeins ég aðeins að aðlagast en sem dæmi hjólaði ég rúma 16 km í gær og þykir það töluvert afrek.

Ég ætla síðan að halda áfram að skrifa hér um þessa upplifun mína hér á hjartalif.is og leyfa ykkur að fylgjast með ævintýrum mínum þar sem ég hjóla fyrir hjartað.

Þið mættuð gjarnan senda mér línu á bjorn@hjartalif.is ef þið hafið reynslu af rafmagnshjólum eða vantar upplýsingar.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-