-Auglýsing-

Hjartaþræðingatæki úreldast

HjartaþræðingatækiIngibjörg Jóna Guðmundsdóttir, nýráðinn yfirlæknir hjartaþræðinga á Landspítala, skrifar um hjartaþræðingar.

Með hækkandi aldri þjóðarinnar eykst tíðni ákveðinna sjúkdóma, svo sem hjartasjúkdóma. Miklar framfarir hafa orðið á síðustu áratugum í meðferð hjartasjúkdóma, ekki síst bráðra kransæðasjúkdóma, sem áður voru oft lífshættulegir auk þess að draga úr lífsgæðum og getu. Auk forvarna og bættrar lyfjameðferðar, til dæmis vegna hás blóðþrýstings, blóðfitu og hjartabilunar, hefur orðið hröð þróun í hjartainngripum.

-Auglýsing-

Einstaklingum, sem hafa einkenni um skert blóðflæði til hjarta, er vísað til frekari rannsóknar með hjartaþræðingu þar sem kransæðar eru myndaðar. Annars vegar er sjúklingum vísað á biðlista vegna einkenna sem hafa þróast á einhverjum tíma og eru til dæmis áreynslutengdur verkur eða þyngsli fyrir brjósti vegna þrenginga sem hafa myndast í kransæð. Hins vegar geta kransæðar stíflast skyndilega vegna blóðsega og þurfa þá sjúklingar að fara í hjartaþræðingu með hraði, ýmist nær samstundis til að opna æð sem hefur stíflast alveg eða innan eins til tveggja sólarhringa ef vægari skaði hefur orðið. Bráðveikir sjúklingar komast fljótt að en biðlisti fyrir fólk sem kemur í hjartaþræðingu að heiman hefur upp á síðkastið lengst fram úr hófi og bíða nú um 250 sjúklingar eftir hjartaþræðingu.

Búnaður á ystu mörkum

Við inngrip á hjarta eru notuð hjartaþræðingartæki sem gera okkur kleift að beita gegnumlýsingu, skuggaefni, leggjum, vírum og öðrum búnaði þar sem við sjáum á skjá hvað við gerum innan í líkama sjúklings. Hjartaþræðingar þar sem kransæðar eru skoðaðar og kransæðavíkkanir, þar sem notaðir eru belgir og svokölluð stoðnet, eru nú almennt gerðar um litlar ástungur í úlnlið. Stundum nægir ekki að sjá útlínur æða og við getum nú í ákveðnum tilfellum gert ómskoðanir innan í kransæðum og sérstakar flæðismælingar til að veita okkur enn nákvæmari upplýsingar. Á síðustu árum hefur einnig verið þróuð tækni þar sem hægt er að gera lokuskipti um nára hjá sjúklingum sem ekki er hægt að meðhöndla með hefðbundinni skurðaðgerð. Á hjartaþræðingarstofum eru einnig settir inn gang- og bjargráðar, gerðar hjartarafrannsóknir og brennslur, og þræðingar og inngrip á börnum með hjartagalla. Einnig er mikilvægt að geta innleitt nýjungar í meðferð og taka þátt í vísindarannsóknum svo að sú meðferð sem við veitum sé í takti við tímann.

Að starfi á hjartaþræðingadeild kemur góður hópur fólks en auk þjálfaðs starfsfólks þarf tækjabúnaður að vera góður, öruggur og ekki of gamall. Hluti þess tækjabúnaðar sem við störfum með í dag er kominn að ystu mörkum þess sem boðlegt er.

- Auglýsing-

Stuðningur almennings mikilvægur

Landspítalinn hefur í gegnum tíðina notið góðs stuðnings ýmissa velgjörðarsamtaka og velunnara. Mörg okkar þekkja hjartasjúkdóma af eigin raun eða í gegnum aðstandendur okkar. Nú stendur yfir landssöfnum Hjartaheilla sem mun aðstoða við kaup á nýju hjartaþræðingartæki fyrir Landspítalann og er til dæmis hægt að leggja söfnuninni lið með fjárframlagi um heimabanka.

Velvilji ykkar er ómetanlegur, fjárframlagið er gríðarlega mikilvægt en ekki er síður mikilvægt að finna fyrir stuðningi ykkar allra, stórum sem smáum, við starf okkar. Það er vegna sjúklinga okkar og aðstandenda þeirra sem við viljum vera tilbúin þegar kallið kemur, hvort sem er að nóttu eða degi.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 4. október 2013

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-