-Auglýsing-

Hjartamagnýl

Sumir mæla með því að allir yfir 40 ára taki hjartamagnýl daglega á meðan aðrir eru á því að allir yfir 60 ára ættu að taka hjartamagnýl daglega. Í öllu falli er rétt að eiga samtal um þetta hjá heimilislækni eða hjartalækni sem metur þá stöðuna með tilliti til áhættuþátta með og á móti.

Hjartamagnýl er tekið til að minnka hættuna á að blóðtappar myndist og fyrirbyggja þannig frekari Hjartaáföll, heilablóðföll, vandamál í hjarta og æðum hjá sjúklingum með hjartaöng (brjóstverk) sem er í jafnvægi eða óstöðug. Hjartamagnýl er einnig notað til að koma í veg fyrir myndun blóðtappa eftir ákveðnar tegundir hjartaaðgerða til að víkka eða opna æðar.

Helstu notkunarmöguleikar og varnaðarorð

Annars stigs forvörn gegn hjartadrepi

– Til að fyrirbyggja hjarta- og æðasjúkdóma hjá sjúklingum með hjartaöng í jafnvægi.
– Saga um hvikula hjartaöng, nema meðan á bráðafasanum stendur.
– Til að fyrirbyggja stíflu eftir hjáveituaðgerð (CABG).
– Kransæðaþræðing (coronary angioplasty), nema meðan á bráðafasanum stendur.
– Annars stigs forvörn gegn skammvinnum blóðþurrðarköstum (TIA) og blóðþurrðarköstum í heila (CVA), að því tilskildu að blæðingar innan heila hafi verið útilokaðar.

Notkun Hjartamagnýl er ekki ráðlögð við bráðaaðstæður. Notkun þess er takmörkuð við annars stigs forvarnir með langvinnri meðferð. Almennt er ráðlagður skammtur 75‑160 mg einu sinni á dag. Töflunum skal kyngja heilum með nægilegu magni af vökva (1/2 glasi af vatni). Vegna sýruþolnu húðarinnar skal ekki mylja, brjóta eða tyggja töflurnar, þar sem húðin kemur í veg fyrir ertandi áhrif í meltingarvegi.
Börnum og unglingum yngri en 16 ára skal ekki gefa asetýlsalicýlsýru, nema samkvæmt læknisráði þegar ávinningur vegur þyngra en áhættan.

Sérstök varnaðarorð og varúðarreglur við notkun

Hjartamagnýl hentar ekki til notkunar sem bólgueyðandi, verkjastillandi eða hitalækkandi lyf. Lyfið er til til notkunar hjá fullorðnum og unglingum 16 ára og eldri. Notkun lyfsins er ekki ráðlögð hjá unglingum og börnum yngri en 16 ára nema áætlaður ávinningur vegi þyngra en áhættan. Asetýlsalicýlsýra getur verið einn af þáttunum sem veldur Reyes heilkenni hjá sumum börnum.

Blæðingarhætta

Hætta á blæðingum eykst, einkum við og eftir aðgerðir jafnvel þó um minniháttar aðgerðir sé að ræða, t.d. tanndrátt. Gætið varúðar við notkun fyrir aðgerðir, þ.m.t. tanndrátt og hafið samráð við lækni ef ástæða er til því nauðsynlegt getur verið að hætta notkun tímabundið. Hjartamagnýl getur aukið tíðablæðingar.

- Auglýsing-

Gæta skal varúðar við notkun Hjartamagnýl þegar um er að ræða háþrýsting og hjá sjúklingum með sögu um sár eða blæðingar í maga eða skeifugörn eða sem eru í meðferð með segavarnarlyfjum. Sjúklingar skulu láta lækninn vita um allar óvenjulegar blæðingar. Ef blæðing eða sár kemur fram í meltingarvegi skal meðferð hætt.

Nýru og lifur

Gæta skal varúðar við notkun asetýlsalicýlsýru hjá sjúklingum með miðlungi mikla skerðingu á nýrnaeða lifrarstarfsemi eða hjá ofþornuðum sjúklingum, þar sem notkun bólgueyðandi gigtarlyfja getur valdið skerðingu á nýrnastarfsemi. Lifrarpróf skal framkvæma reglulega hjá sjúklingum með væga eða miðlungi mikla skerðingu á lifrarstarfsemi.

Ofnæmisviðbrögð

Asetýlsalicýlsýra getur valdið berkjukrömpum og astmaköstum eða öðrum ofnæmisviðbrögðum. Áhættuþættir eru astmi sem er til staðar, frjókornaofnæmi, separ í nefi eða langvinnir sjúkdómar í öndunarfærum. Það sama á við hjá sjúklingum sem hafa einnig ofnæmi fyrir öðrum efnum t.d. með húðviðbrögðum, kláða eða ofsakláða. Mjög sjaldan hefur verið greint frá alvarlegum viðbrögðum í húð, þ.m.t. Steven-Johnson heilkenni, í tengslum við notkun asetýlsalicýlsýru. Hætta skal notkun Hjartamagnýl við fyrstu merki um útbrot á húð, sár á slímhúð eða einhver önnur einkenni ofnæmis.

Aldraðir

Aldraðir sjúklingar eru sérstaklega viðkvæmir fyrir aukaverkunum bólgueyðandi gigtarlyfja, þ.m.t. asetýlsalicýlsýru, einkum blæðingum og götun í meltingarvegi, sem geta verið lífshættuleg. Þegar þörf er á langtímameðferð, skal skoða sjúklinga reglulega.

Blóðstorknun

Notkun Hjartamagnýl samhliða öðrum lyfjum sem breyta blóðstorknun eins og segavarnarlyfjum svo sem warfaríni, segaleysandi lyfjum og lyfjum sem hindra samloðun blóðflagna, bólgueyðandi lyfjum og sértækum serótónínendurupptökuhemlum) er ekki ráðlögð, nema brýna nauðsyn beri til, vegna þess að það getur aukið hættuna á blæðingum. Ef ekki er hægt að forðast samsetninguna er mælt með nákvæmu eftirliti með einkennum blæðinga.

Þvagsýrugigt

Asetýlsalicýlsýra í lágum skömmtum dregur úr útskilnaði þvagsýru. Af þessum sökum geta sjúklingar sem hafa tilhneigingu til skerts útskilnaðs þvagsýru fengið þvagsýrugigtarköst.

Þetta er ekki tæmandi upptalning en bent er á fylgiseðla til nánari glöggvunar.

Heimild: Actavis og Lyfjastofnun

- Auglýsing -

P.S. Munið eftir að læka við okkur á Facebook 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-