-Auglýsing-

Heilbrigðiskerfið gæti hrunið

Guðrún Bryndís Karlsdóttir, verkfræðingur og sjúkraliði, segir hættu á því að Íslendingar gætu misst heilbrigðiskerfið úr almannaþjónustu yfir í tryggingakerfið. Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu gæti orðið dýrari en það sem á að spara og of stór bygging sjúkrahúss mun í ofanálag reynast almannaþjónustunni banabiti.

„Íslendingar gætu þurft að koma upp sjúkratryggingakerfi í nákominni framtíð,“ segir Guðrún. „Þetta er fyrirsjáanleg þróun sem mögulega er hægt að koma í veg fyrir. Íslendingar eru stoltir af því að búa við gott heilbrigðiskerfi en það er veruleg hætta á því að því verði fórnað nú í kjölfar efnahagshrunsins. Eftir slíkt hrun verður þjóðfélagið annars konar en við höfum þekkt. Við höfum búið við gott heilbrigðiskerfi hér í mörg ár. Við hverfum aftur um áratugi hvað varðar aðgengi að þjónustu.“

Guðrún Bryndís kom fram í sjónvarpsþættinum Návígi með Þórhalli Gunnarssyni á dögunum og ræddi um útreikninga sína og tækifæri í hagræði með verðkönnun á þjónustu sjúkrahúsa – einnig LSH. Hún hætti við framboð sitt til stjórnlagaþings til að geta tjáð sig um málið í fjölmiðlum.
Útreikningar Guðrúnar þykja sýna glöggt í hvað stefnir og þann kostnaðarauka sem fylgir fyrirhuguðum niðurskurði í fjárlögum 2010. Guðrún telur að ef af niðurskurði verði geti það hafa mikil áhrif á þjónustu og lífskjör á landinu öllu. Það hljóti því að vera krafa að slíkar aðgerðir leiði raunverulega til mikils ábata fyrir ríkið og skattgreiðendur. „Mörg dæmi eru um það að hagræðingaraðgerðir séu illa undirbúnar og ekki sé gert heildstætt mat á öllum rekstrar- og áhrifaþáttum heldur eingöngu horft á málið út frá þröngum hagsmunum einstakra eininga. Þannig getur sparnaður einnar heilbrigðisstofnunar valdið auknum kostnaði annarsstaðar og heildarávinningur enginn eða neikvæður.“

Þegar breytingar eru gerðar í heilbrigðisþjónustu er mikilvægt að líta á kerfið sem eina heild og hlutverk hennar í samfélaginu. Sem dæmi nefnir Guðrún að á sjúkrahúsum á landsbyggðinni séu framkvæmdar minni aðgerðir sem eru ekki framkvæmdar á LSH og biðlistaaðgerðir, svo sem bæklunaraðgerðir og háls-, nef-, og eyrnaaðgerðir – þetta gæti leitt til þess að aðgerðir verði að hluta til framkvæmdar á einkareknum skurðstofum á höfuðborgarsvæðinu sem eru í dýrari en skurðstofur á sjúkrahúsum landsbyggðar.

„Þessi þróun gæti orðið afdrifaríkari en margan grunaði,“ segir Guðrún Bryndís. „Það er afskaplega óvarlegt að gera ráð fyrir því að LSH geti tekið við öllum þessum aðgerðum án þess að fá greiðslu fyrir. Kostnaður vegna einfaldra aðgerða á landsbyggðarsjúkrahúsum er lítill borin saman við verðskrá LSH. Það felst ákveðin þversögn í því að ábati náist með því að flytja þjónustu þangað sem kostnaðurinn er hærri.“

Kristjana Guðbrandsdóttir (kristjana@dv.is)

- Auglýsing-

www.dv.is 20.11.2010

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-