-Auglýsing-

Læknaslagur

iStock 000005541876 ExtraSmallÍ gegnum lífið hef ég oft þurft að eiga samskipti við lækna, svona rétt eins og hver annar. Stundum hef ég hitt á góða lækna sem hafa hlustað af athygli og sett sig vel inn í þau umkvörtunarefni sem ég hef haft þegar sjúkleiki eða meiðsl hafa leitað á mig.
Ég hef líka hitt á leiðinlega lækna og lækna sem ættu sennilega að velta því fyrir sér að finna sér annan starfsvettvang. En svona er lífið og í öllum starfstéttum er að finna ólíka einstaklinga sem eru mishæfir til að sinna sínum störfum.
Í gengum árin hef ég oft heyrt talað læknamafíu og hversu erfitt er að sækja rétt sinn ef grunsemdir vakna um að óhapp hafi átt sér stað og þá á ég við læknamistök.
Ég geri mér ljóst að sumum tilfellum verða óhöpp sem erfitt er að koma í veg fyrir og flokkast þar af leiðandi ekki beint undir mistök. En hvort sem um er að ræða óhöpp eða mistök er mikilvægt að gera sér ljóst að mistök eiga sér stað, líka hjá læknum.
Oft þegar slík mistök eiga sér stað er líklegt að verkferlar innan stofnunarinnar þar sem mistökin eiga sér stað séu ekki sem bestir eða þeim ekki fylgt.  En þegar upp er staðið er það fólkið sem framkvæmir sem gerir mistökin og ber þar með ábyrgð á þeim.
Mistökin sem áttu sér stað á mér urðu vegna þess að starfsmenn Landspítala við Hringbraut lásu ekki fylgigögn sem komu með mér frá bráðamóttöku í Fossvogi. Fylgdu ekki eftir þeim rannsóknum sem á mér voru gerðar og létu undir höfuð leggjast að bregðast við í tíma. Ástæðan sem gefin var upp var sú að mikið hefði verið að gera á öðrum deildum spítalans og þar fram eftir götunum.

Á mannamáli  þýðir þetta að sérfræðilæknirinn sem var á vakt vann ekki vinnuna sína og lét undir höfuð leggjast að rýna í þau gögn sem fyrir lágu. Hann skoðaði ekki niðurstöður þeirra rannsókna sem voru gerðar fyrr en seint og um síðir og skaðinn var skeður.

Í heilt ár eftir að ég fékk hjartaáfallið þurfti ég oft á þjónustu hjartalækna á Landspítalanum við Hringbraut að halda. Ég tel mig hafa mætt ótrúlegum hroka frá mörgum þeirra helst í því formi að ég ætti að vera hressari því hjartað virkaði fínt og það hlyti bara að vera eitthvað annað að mér. Eins og einn ágætur sérfræðilæknir komst svo skemmtilega á orði eitt sinn á stofugangi ”þú er sennilega bara með síþreytu” og svo sneri hann sér að félögum sínum og glotti, þvílík niðurlæging.
Ég hugsa oft um yfirlækninn sem gerði mistökin. Stundum rekst ég á hann á ferðum mínum niður á spítalann og stundum tökum við tal saman en stundum er eins og hann flýi undan mér.
Ég get ekki ímyndað mér hvernig honum líður en ég trúi því ekki að honum líði vel, hann hlýtur að vita innst inni að þetta var klúður.
Þegar við hittumst tek ég eftir því að hann roðnar aðeins svona eins og honum hitni og mér finnst stundum eins og ég finni fyrir óöryggi frá honum og hann verði dálítið stressaður. Þetta hefur þó verið meira áberandi eftir að dómur féll og við unnum.
Eftir það finnst mér ég hafa yfirhöndina þegar við hittumst.  Ég veit að þrátt fyrir greinargerðirnar sem hann skrifar til að verja vinnubrögðin þegar mistökin áttu sér stað þá veit hann að ef rétt hefði verið tekið á málum hefði skaðinn á hjartanu líklega ekki orðið jafn mikill og raun ber vitni. Um það vitnaði hann í dómsal þó mér finnist hann hafi í sjálfu sér bakkað með það í greinargerðum eftir það.
 
Því skal til haga haldið að stærstur hluti þess starfsfólks sem ég hef haft af að segja á Landspítalanum hefur umgengist mig af stakri prýði og virðingu.  Margir þeirra hafa sýnt mér samúð í baráttunni fyrir réttlæti og hvatt mig áfram í baráttunni því mikilvægt sé að opinn umræða um þessi mál eigi sér stað.  Þannig er hægt að nýta þau til að læra af og lagfæra það sem aflaga fór. Meðal þessa starfsfólks á ég bæði við lækna og hjúkrunarfólk og þessu fólki er ég þakklátur
 
Það sem hefur komið mér á óvart í þessu ferli er hvernig þeir starfsmenn spítalans sem unnið hafa greinargerðir hafa starfað. Sumir þeirra hafa látið mata sig á gögnum og sett fram staðhæfingar sem standast enga skoðun. Tilgangur þessara skrifa hefur fyrst og fremst verið sá að koma höggi á mig og kasta rýrð á trúverðugleika minn auk þess að hafa uppi vafasamar getgátur um andlegt heilbrigði mitt.
Þetta er ljótur leikur og þeim sem að því hafa staðið til vansa.

Ég veit að þessir aðilar eru þeir sem hafa slegið skjaldborg um „collega“ sinn yfirlækninn og verja vinnubrögðin. Stundum hata ég yfirlækninn úr fjarska, stundum er ég reiður en oftast vorkenni ég honum. Þegar ég vorkenni honum finnst mér ég þroskaður og göfugur, ég get borið höfuðið hátt. Sannleikurinn hefur svo sannarlega gert mig frjálsan. 

Hugleiðingar mínar um læknaslag byggt á minnispunktum mínum frá því í október 2008.

Árósum  

- Auglýsing-

Nóvember 2010

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-