-Auglýsing-

Hefur aðstoðarlandlæknir tapað áttum?

Ásta Friðriksdóttir skrifar vegna ummæla aðstoðarlandlæknis á fundi Lyfjafræðingafélags Íslands og Frumtaka um lyfjafalsanir: “Sem menntuðum lyfjafræðingi og starfsmanni vel metins lyfjafyrirtækis var mér gróflega misboðið undir orðum aðstoðarlandlæknis.”
Undirrituð fór í góðri trú á fund Lyfjafræðingafélags Íslands og Frumtaka um lyfjafalsanir 27. mars. Fyrirlesarar voru: dr. Ingunn Björnsdóttir lyfjafræðingur, Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir og Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar.

Vaxandi vandamál
Alþjóðlegir glæpahringir snúa sér æ meir að framleiðslu og sölu falsaðra lyfja. Tilgangur fundarins var að ræða þetta vandamál, m.a. vegna áforma um að opna fyrir póstverslun lyfja hér. Helsta leið falsaðra lyfja á almennan markað er í gegnum Netið og síðan með póstverslun. Ingunn benti m.a. á að strangar reglur þyrftu að gilda um póstverslun með lyf til að hamla flæði falsaðra lyfja á íslenskan lyfjamarkað.

Fulltrúi Landlæknisembættisins?
Ég átti von á að umræðan yrði áfram á málefnalegum nótum. Því brá mér í brún þegar aðstoðarlandlæknir tók til máls. Í stað málefnalegrar umræðu um sjónarhorn embættisins á fölsuð lyf og varnir gegn þeim, eyddi hann tímanum mest í ófaglegar ávirðingar um græðgi og spillingu lyfjafyrirtækja. Og fulltrúi hins virta embættis gekk enn lengra. Hann setti lyfjafyrirtæki, sem starfa eftir ströngum reglum og víðtæku eftirliti ríkisstofnana, undir sama hatt og alþjóðlega glæpahringi.

-Auglýsing-

Gróflega misboðið

Miklar kröfur eru gerðar til gæða lyfja sem heimilað er að markaðssetja hér á landi – almennt gilda sömu reglur og í öðrum ríkjum innan EES. Sýna þarf fram á fyllsta framleiðsluöryggi og sanna með viðamiklum rannsóknum að lyf hafi tilætlaða verkun. Skv. íslenskum lögum er starfsemi lyfjafyrirtækja hluti heilbrigðisþjónustunnar. Lagaumhverfi er strangt og mikið ytra og innra eftirlit fer fram hjá fyrirtækjum sem flytja inn lyf og dreifa. Markmiðið er að tryggja neytendavernd og stuðla að góðri heilbrigðisþjónustu með heilsu og lífsgæði að leiðarljósi.

Öll fyrirtæki verða að hagnast á starfsemi sinni. Þar eru lyfjafyrirtæki engin undantekning. Alþjóðlegir glæpahringir framleiða hins vegar og selja fölsuð lyf til að græða stórar fjárhæðir, vitandi að starfsemi þeirra skaðar heilsu og líf fólks og það sem jafnvel verra er: án vitundar þessa fólks. Mér er spurn hvort það sé álit landlæknisembættisins að ég starfi hjá fyrirtæki sem megi allt eins setja á stall með alþjóðlegum glæpafyrirtækjum og að í starfi mínu stuðli ég vísvitandi að heilsuspillingu þjóðarinnar? Sem menntuðum lyfjafræðingi og starfsmanni vel metins lyfjafyrirtækis var mér gróflega misboðið undir orðum aðstoðarlandlæknis. Að mínu mati misnotaði hann aðstöðu sína sem fyrirlesari og fulltrúi embættis síns.

Nauðsyn gagnkvæmrar virðingar
Ég vona að framvegis gæti aðstoðarlandlæknir betur orða sinna á opinberum vettvangi. Það hlýtur að vera hagur heilbrigðisþjónustu á Íslandi að þeir sem að henni standa sýni hver öðrum tilhlýðilega virðingu fyrir augliti samstarfsfólks, sjúklinga og annarra landsmanna. Lyf gegna lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustu og þau ber að meðhöndla, nota og ræða um af þekkingu og virðingu.

Höfundur er lyfjafræðingur og starfsmaður Vistor.

- Auglýsing-

Morgunblaðið 21.04.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-