-Auglýsing-

Hafa ritstjórar helstu læknatímarita heimsins tapað áttum?

Matthías Halldórsson skrifar um lyfjafalsanir og lyfjaverð: “Gagnrýni á starfsaðferðir lyfjaiðnaðarins erlendis er ekki ættuð frá undirrituðum. Þar eru miklu merkilegri aðilar á ferð.”

Fyrirtækið Vistor er samstarfsaðili fjölmargra alþjóðlegra lyfjafyrirtækja og veitir þeim m.a. þjónustu í sölu- og markaðsmálum. Lyfjafræðingur sem starfar hjá Vistor, spyr hvort aðstoðarlandlæknir hafi tapað áttum.

Ályktunina dregur starfsmaður fyrirtækisins af því að undirritaður reyndi á fundi um lyfjafalsanir að setja málin í víðara samhengi. Meðal annars var nefnt að sumir freistast til að kaupa sér óáreiðanleg lyf á netinu vegna þess hve verðlagið er hátt á lyfjum sem fást eftir löglegum leiðum. Það er hluti af vandamálinu. Tilgreint var algengt lyf sem undirritaður keypti á tíföldu verði hér miðað við Svíþjóð.

Gagnrýni á starfsaðferðir lyfjaiðnaðarins erlendis er ekki ættuð frá undirrituðum. Þar eru miklu merkilegri aðilar á ferð. Má þar nefna tvo fyrrverandi ritstjóra þekktasta læknatímarits heimsins, New England Journal of Medicine. Annar ritstjóranna fyrrverandi, dr. Marcela Angell, kennir nú við Harvard-háskóla, en bók hennar ber nafnið „The Truth about Drug Companies, How They Deceive Us and What to Do About It. „Hinn ritstjórinn er dr. JP Kassirer og heitir bók hans „On the Take: How Medicine’s Complicity with Big Business Can Endanger Your Health“. Einnig má nefna bókina „Whistleblower: Confessions of a Healthcare Hitman“ eftir sænska lækninn Peter Rost, sem var aðstoðarforstjóri lyfjafyrirtækisins Pfeizer.

Í glænýju hefti af JAMA, sem er annað helsta læknatímarit Bandaríkjanna, má lesa hvernig lyfjafyrirtækin nota svokallaða „ghostwriters“ (draugahöfunda) og láta starfsmenn sína semja meintar vísindagreinar, en fá síðan óháða aðila til að standa sem höfunda, þótt þeir hafi ekki átt aðild að rannsóknunum. Í ritstjórnargrein blaðsins segir að óeðlileg áhrif lyfjaiðnaðarins séu óviðunandi og þau verði stöðva.

Iðulega kemur fram að þeir sem ýja að því að ekki sé allt með felldu varðandi starfsemi sumra lyfjafyrirtækja eru úthrópaðir af talsmönnum fyrirtækjanna. Gjarnan er veist að persónu þeirra og þeir jafnvel taldir hafa tapað áttum. Ekki get ég svarað spurningunni um hvort aðstoðarlandlæknir hafi tapað áttum. Hitt veit ég að hann er ekki alltaf smekklegur.

Höfundur er aðstoðarlandlæknir.

- Auglýsing-

Morgunblaðið 23.04.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-