-Auglýsing-

Hóflega bjartsýn á að samkomulag náist

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is
Umræðan um breytingar á vaktafyrirkomulagi skurð- og svæfingahjúkrunarfr. hófst fyrir fjórum árum,“ segir Anna Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á LSH og starfandi forstjóri. „Þær áttu því ekki að koma neinum á óvart. En vissulega hef ég skilning á því að breytt vaktafyrirkomulag, með skipulagðri viðveru um helgar sem þessi hópur hjúkrunarfræðinga hefur ekki vanist, valdi óánægju.“

–Er von til þess að þið hverfið frá breytingunni?

„Nei, það stendur ekki til að breyta þessari ákvörðun,“ segir Anna.

Breytingin, sem gerð verður í þremur áföngum til áramóta, miðast að því að fjölga svokölluðum staðarvöktum, þar sem hjúkrunarfræðingar eru í húsi í stað bakvakta. Í dag eru t.d. engir skurð- eða svæfingahjúkrunarfræðingar á staðarvöktum á sjúkrahúsinu um helgar. Breytt vaktafyrirkomulag nær til 104 skurð- og svæfingahjúkrunarfræðinga og hafa 96 þeirra sagt upp störfum frá 1. maí nk.

Sparnaður ekki meginmarkmið
Anna segir markmiðið með breytingunum margþætt, en að sparnaður sé ekki meginatriðið. Ekki hafi komið niðurskurðarkrafa frá Vilhjálmsnefndinni svokölluðu, líkt og haldið hafi verið fram í fjölmiðlum. Engu að síður sé það von stjórnenda spítalans að þegar nýtt kerfi verði að fullu komið til framkvæmda muni það spara peninga, því veikindafjarvistir og yfirvinna minnki.

„Við leggjum áherslu á að með breytingunni ætlum við okkur að auka öryggi sjúklinga,“ segir Anna. Það verði m.a. gert með því að fækka löngum vinnulotum hjúkrunarfræðinganna, sem standi nú stundum vaktina í allt að sextán klukkutíma. „Þessar löngu lotur uppfylla hvorki vinnutímatilskipun ESB, sem ekki verður undan vikist, né vinnuvernd. Fjöldi rannsókna sýnir að á svo löngum vöktum minnkar einbeiting og mistökum fjölgar.“

Anna segir að eitt af því sem hjúkrunarfræðingarnir hafi áhyggjur af sé að í breyttu vaktafyrirkomulagi þurfi þeir að sinna fjölbreyttari verkefnum, t.d. vöktum á kvennasviði, sem þeir telji sig ekki hafa fulla þjálfun til. Við þessu verði brugðist með markvissri þjálfun áður en breytingin tekur að fullu gildi.

- Auglýsing-

Hjúkrunarfræðingarnir hafa einnig gagnrýnt að með breyttu vaktafyrirkomulagi þurfi þeir að vinna meira fyrir lægri laun. „Við erum að taka upp staðarvaktir í stað bakvakta þar sem greidd er yfirvinna og í einhverjum tilvikum þurfa þeir að hafa meiri viðveru,“ segir Anna. „Ég hef skilning á þeirra afstöðu en það breytir ekki því að við þurfum á þessari staðarvakt að halda, líka um helgar.“

Mjög brýnt sé að hafa hjúkrunarfræðingana á staðnum ekki bara í miðri viku heldur einnig um helgar þegar eitthvað óvænt komi upp, t.d. ef gera þurfi bráðakeisaraskurð um helgi. Annað sem hjúkrunarfræðingarnir hafa gagnrýnt er að breytingin nái aðeins til þeirra en ekki annarra fagstétta á sjúkrahúsinu, s.s. skurð- og svæfingalækna. Anna segir það ekki rétt. Til standi að gera sambærilega breytingu á vaktafyrirkomulagi lækna og að viðræður um slíkt séu þegar hafnar og breytingin taki gildi fyrsta september.

Að sögn Önnu var breyting á vinnufyrirkomulagi hjúkrunarfræðinganna ákveðin af sviðsstjórum og framkvæmdastjórn spítalans en óskað hafi verið eftir samstarfi við hjúkrunarfræðingana um útfærslu og framkvæmd. „Því miður varð ekki af því,“ segir Anna. Hjúkrunarfræðingarnir hafi allt frá upphafi verið harðir á því að hafna breytingunni alfarið, án þess að leggja eitthvað annað til.

–Rússneskar stjórnunaraðferðir, sagði hjúkrunarfræðingur í Morgunblaðinu nýverið. Er það svo?

„Ég er ósammála því,“ segir Anna. „Hópurinn hefur vitað lengi að breytingarnar stæðu til og þeim var boðið til samstarfs um útfærslu. Þegar það náðist ekki þurftum við að grípa til þess að tilkynna þetta formlega. Hjúkrunarfræðingarnir kusu hins vegar að sætta sig ekki við boðaðar breytingar og sögðu upp.“

Spurð hvort hún hafi átt von á þeirri óánægju sem breytingin hafði í för með sér segir Anna svo ekki vera. „Ég átti ekki von á að uppsagnirnar yrðu svona margar, að allur hópurinn myndi hafna breytingunni. Það kom mér á óvart.“

–En hverjar telurðu skýringarnar á þessari almennu óánægju?

„Þeir vilja bara óbreytt fyrirkomulag á vöktum,“ segir hún. Viðvarandi álag á spítalanum sé hins vegar ekki uppsprettan. „Við höfum gert breytingar hjá öðrum hópum hjúkrunarfræðinga, yfirleitt í sátt og samvinnu. Flestir hafa haft ríkan skilning á nauðsyn breytinganna.“

- Auglýsing -

Niðurstaða á elleftu stundu?
–En hvað gerist fyrsta maí?

„Ég veit það ekki – ég er hóflega bjartsýn á að það náist samkomulag. Það er oft þannig að niðurstaða næst á elleftu stundu og ég bind vonir við að það muni einnig gerast nú.“

Anna segir nú unnið að því að ræða við hjúkrunarfræðingana þar sem farið er yfir breytingar á vaktafyrirkomulagi hvers og eins. Hún segir niðurstöður viðtalanna gefa ákveðnar væntingar. Hins vegar sé þegar ljóst að einhverjir muni hætta.

„Hvernig sem þetta fer verður það blóðtaka fyrir spítalann, við megum ekki missa einn einasta hjúkrunarfræðing.“ Skurð- og svæfingahjúkrunarfræðingar séu dýrmætir starfsmenn með mikla þekkingu og reynslu og almennur skortur sé á hjúkrunarfræðingum. „Það mun því draga dilk á eftir sér kjósi margir að fara.“

Anna segir að neyðaráætlun verði undirbúin þegar árangur af viðtölum verði ljós. „Við vonum það besta en verðum að vera búin undir það versta,“ segir Anna.

–Þegar þú lítur til baka, telurðu að hægt hefði verið að standa öðruvísi að málum og ná samkomulagi án þess að til uppsagna þyrfti að koma?

„Miðað við þær aðstæður sem við stóðum frammi fyrir tel ég okkur ekki hafa getað staðið öðruvísi að málum,“ segir Anna.

Morgunblaðið 23.04.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-