-Auglýsing-

Gripið til aðgerða gegn skyndidauða knattspyrnumanna

Allt frá því að Marc-Vivien Foé, landsliðsmaður Kamerún, varð bráðkvaddur þegar skammt var eftir af leik Kamerún og Kólombíu í Álfukeppninni sumarið 2003 hefur umræðan um svokallaðan skyndidauða íþróttamanna aukist jafnt og þétt. Slík dauðsföll hafa komið upp með reglulegu millibili síðustu ár og er nýlegasta dæmið af Phil O´Donnel, 36 ára gömlum fyrirliða skoska úrvalsdeildarliðsins Motherwell, sem hneig niður í kappleik á milli jóla og nýárs. Hann komst aldrei aftur til meðvitundar og lést á sjúkrahúsi nokkrum klukkustundum síðar.

Dæmin um þessi ótímabæru dauðsföll knattspyrnumanna í blóma lífsins skipta tugum, og er þá ekki horft aftur um lengri tíma en áratug. Í flestum tilvikum er um að ræða tiltölulega óþekkta knattspyrnumenn en af sambærilegum tilvikum og Foé má nefna Antonio Puerta, spænskan landsliðsmann hjá Sevilla, og Miklós Fehér, ungverskan landsliðsmann hjá Benfica, sem létust beinlínis fyrir augum almennings, í beinni útsendingu sjónvarps. Blessunarlega hafa slík tilfelli ekki orðið á opinberum vettvangi hér á landi, en þó eru nokkur dæmi um að Íslendingar hafi fallið frá við íþróttaástundun.

 UEFA hefur áhyggjur
Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, og Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hafa eðlilega miklar áhyggjur af þróun mála og hafa síðustu misseri unnið að áætlunum sem ætlað er að koma í veg fyrir slík dauðsföll eftir fremsta megni. UEFA hefur ákveðið að frá og með næsta keppnistímabili verði knattspyrnufélögum gert skylt að láta alla sína leikmenn gangast undir árlega læknisskoðun, sem meðal annars felur í sér ítarlega hjarta-, æða- og blóðrannsókn, auk þess sem farið verður vandlega í gegnum sjúkdómasögu innan fjölskyldu viðkomandi.

Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, er aðili að UEFA og staðfestir Ómar Smárason, leyfisstjóri KSÍ, að félög í Landsbankadeild karla munu þurfa að laga sig að hertum reglugerðum UEFA hvað þetta varðar. Það mun þó ekki verða fyrr en keppnistímabilið 2009, meðal annars vegna hins mikla kostnaðar sem skoðunin felur í sér.

55 þúsund krónur á leikmann
Þórarinn Guðnason, hjartasérfræðingur á Landspítalanum, og Sveinbjörn Brandsson, bæklunarlæknir og læknir íslenska karlalandsliðsins, unnu tillögu fyrir KSÍ að því hvernig slíkri læknisskoðun yrði háttað miðað við þær aðstæður sem eru hér á landi. Að sögn Ómars leiddi sú vinna í ljós að kostnaður fyrir hvern þann leikmann sem færi í skoðunina yrði 55 þúsund krónur. Ef miðað er við að félög í efstu deild hafi á að skipa 25-30 manna leikmannahóp nær heildarkostnaðurinn vel á aðra milljón króna. “Og það er rosalega mikill pakki fyrir fátæk íslensk félög,” segir Ómar.

Vegna þessa mikla fyrirhugaða kostnaðar fékk KSÍ frest til ársins 2009 til að koma á móts við kröfur UEFA. “Við erum að reyna að finna leiðir til að minnka þennan kostnað og erum að skoða ýmsa möguleika í því samhengi. Það á eftir að koma í ljós hvernig það fer en við erum meðal annars í viðræðum við UEFA um að þeir komi móts við þennan mikla kostnað með fjármagni úr sínum sjóðum,” segir Ómar. En hver svo sem endanlegur kostnaður félaga verður er ljóst að allir leikmenn í efstu deild karla munu þurfa að gangast undir slíka læknisskoðun frá og með næsta ári, ellegar fái þeir ekki leyfi til að taka þátt í mótum á vegum KSÍ.

- Auglýsing-

Fréttablaðið 03.02.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-