-Auglýsing-

Gerist hjá fólki á besta aldri

Haraldur Finnsson var í blóma lífsins þegar hann fékk hjartaáfall og þurfti að taka lífsstíl sinn til endurskoðunar. Nú, tíu árum síðar, hefur hann aldrei verið hressari.

Þetta kom mér ekki beinlínis á óvart,“ segir Haraldur Finnsson þegar hann rifjar upp daginn fyrir tíu árum þar sem hann var að ganga heim eftir langan vinnudag og fékk hjartaáfall, 56 ára gamall. Sem skólastjóri í Réttarholtsskóla var hann önnum kafinn maður sem þurfti að glíma við fjöruga unglinga frá morgni til kvölds, auk rekstursins á skólanum.
Það er því óhætt að segja að hann hafi fengið sinn skerf af streitu í starfi sínu auk þess sem saga var um hjartasjúkdóma í fjölskyldu hans. Engu að síður átti hann sér einskis ills von þegar áfallið dundi yfir, jafnvel þótt það hafi átt sér svolítinn aðdraganda. „Ég var búinn að vera þreklítill og ræfilslegur, og kominn með háan blóðþrýsting sem ég var kominn á lyf vegna. Svo einhvern mánudagsmorgun labbaði ég upp í skóla úr Álfheimunum en þegar ég var á leiðinni upp brekkuna við Réttarholtsveg varð ég handónýtur og fékk verk fyrir brjóstið. Ég komst nú samt inn í skólann og þá fór þetta að lagast og leið hjá.“

-Auglýsing-

Tveimur dögum síðar endurtók leikurinn sig. „Ég var að ganga heim úr vinnu þegar þetta kom aftur og þá sýnu verra. Mér fannst ég vera með skósíða handleggi og rétt dragnaðist heim. Þar hringdi ég í heimilislækninn minn sem sagði mér að fara beint upp á bráðamóttöku, sem ég og gerði.“ Á spítalanum voru læknar fljótir að greina stíflur í kransæðum Haralds sem fór í beinu framhaldi í hjartaþræðingu.

„Ég var farinn að átta mig á því að það væri einhver skollinn í þessa áttina,“ segir hann aðspurður um hvort áfallið hafi komið honum að óvörum. „Sennilega er það þess vegna sem ég fékk ekki andlegt áfall, eins og margir fá í þessari stöðu. Ég er búinn að kynnast mörgum hjartasjúklingum síðan og veit að eitt af vandamálunum við að fá hjartaáfall er að það kemur fólki á óvart. Þannig verður það andlegt áfall líka, sem oft er ekki tekið nægilega alvarlega.“

Samherjar í ræktinni
Eftir hjartaþræðinguna fór Haraldur að stunda reglulega líkamsrækt, fyrst í formi æfinga á Landspítalanum og í framhaldinu á HL-stöðinni. Og hann segist allur betri maður síðan. „Ég fór að hreyfa mig miklu skipulegar en ég gerði áður og hef reynt að halda mig við það síðan því það skiptir rosalegu máli. Ég hef tröllatrú á hreyfingunni og er t.a.m. í badminton auk líkamsræktarinnar á veturna enda held ég að menn þurfi góða hreyfingu þrisvar, fjórum sinnum í viku.“
Hann mælir sérstaklega með starfsemi HL-stöðvarinnar. „Þarna er boðið upp á frábært eftirlit og þjónustu sem er okkur nauðsynleg. Ég er einlægur aðdáandi stöðvarinnar,“ segir hann. „Þarna hittir maður aðra í svipuðum sporum svo þetta verður ákveðinn félagsskapur. Hóparnir verða iðulega að nokkurs konar klúbbum og menn bregðast mjög illa við ef það á að færa þá eitthvað þar á milli. Þarna eru menn samherjar enda hafa þeir lent í svipuðu eða því sama og það skiptir miklu máli.“

Í ljós kemur að Haraldur hellti sér út í félagsstörf fyrir hjartasjúklinga eftir að hann fór í hjartaþræðinguna, ekki bara hjá HL-stöðinni heldur einnig hjá Hjartaheillum. „Mér fannst skipta máli að menn legðu hönd á plóginn því þessi samtök hafa gert mikið fyrir þennan hóp. T.d. er HL-stöðin komin til að frumkvæði þessara samtaka, þ.e. Hjartaheilla, SÍBS og Hjartaverndar.“

- Auglýsing-

Haraldur telur mikilvægt að fólk gæti vel að heilsunni, jafnvel þótt fullfrískt sé. „Ég held að sú vísa sé aldrei of oft kveðin að láta fylgjast vel með sér, láta mæla blóðþrýsting og blóðfitu. Margir halda að þetta sé bara sjúkdómur sem hendir fólk á elliárunum en oft kemur þetta fyrir fólk á besta aldri,“ segir hann, og talar þar af reynslu.

Í dag hefur Haraldur látið af skólastjórastarfinu en hefur engu að síður feikinóg að gera, bæði í vinnu fyrir menntasvið Reykjavíkurborgar og Menntaskólann Hraðbraut, auk félagsstarfanna. Hann segist þó vera að „trappa sig niður“. Enda er nú allt í lagi að njóta þess að hafa það rólegra en áður, eða hvað?

„Nei, nei, ekkert frekar,“ svarar hann um hæl. „Menn geta líka alveg eins notið þess að gera eitthvað!“

Alþjóðlegi hjartadagurinn verður haldinn á morgun, sunnudag. Af því tilefni bjóða ÍSÍ, Hjartavernd og aðstandendur alþjóðlega hjartadagsins almenningi að taka þátt í Hjartahlaupinu og stafgöngudeginum víðs vegar um landið.

Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur ben@mbl.is

Morgunblaðið 27.09.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-