-Auglýsing-

Munu lyf lækka 1. október?

Andrés Magnússon skrifar um loforð ráðherra um lækkun lyfjaverðs: “Það er mikilvægt að æðstu ráðamenn þjóðarinnar skapi ekki óraunhæfar væntingar hjá almenningi með yfirlýsingum sínum.”

Heilbrigðisráðherra hefur allt frá því að hann tók við embætti lagt áherslu á að lækka útgjöld til lyfjamála enda eru lyf talsverður hluti af útgjöldum hins opinbera til heilbrigðismála. Á ráðherra heiður skilinn fyrir að hafa lagt áherslu á þennan málaflokk, en ekki má draga úr mikilvægi þess að huga að hagræðingu í heilbrigðiskerfinu, þar sem stór hluti af útgjöldum hins opinbera fer til málaflokksins. Að því er lyfin varðar er þó mikilvægt að benda á þá staðreynd að útgjöld til lyfjamála á verðlagi ársins 2007 hafa nær staðið í stað í krónutölu frá árinu 1998. Útgjöld til lyfjamála sem hlutfall af heildarkostnaði til heilbrigðismála hafa lækkað á tímabilinu, eins og sést svart á hvítu á meðfylgjandi töflu: (Heimild: Hagstofa Íslands.)

Það er hins vegar svo að engin mannanna verk eru hafin yfir gagnrýni. Það á einnig við um áform ráðherrans í þessu sambandi, en hann hefur lýst því yfir opinberlega að verð á lyfjum muni lækka um 20% frá og með 1. október nk. Hér er vísað til ræðu hans á fundi sjálfstæðismanna fyrir nokkru og viðtala í fjölmiðlum í kjölfarið.

Samtök verslunar og þjónustu hafa innan sinna vébanda nær öll apótek í landinu og þar á bæ hafa menn nokkrar áhyggjur af þessum yfirlýsingum ráðherrans, enda verður ekki séð hvernig þær fá staðist. Eins og sést af þeim dæmum sem hér fara á eftir mun afnám afslátta í heildsölu, ekki eitt og sér lækka lyfjaverð til almennings, heldur mun hið opinbera njóta afsláttarins sem almenningur áður naut hjá apótekunum.

Hámarks greiðsluþátttaka Tryggingastofnunar ríkisins í lyfjakostnaði er bundin við fasta krónutölu. Nú um mánaðamótin taka, eins og áður sagði, gildi þær breytingar að afslættir í viðskiptum með lyf frá heildsala til smásala verða bannaðir. Þar með geta lyfsalar ekki lengur látið sjúklinga njóta þeirra viðskiptakjara sem þeir hafa fengið hjá birgjum sínum.

Eflaust mun heildsöluverð lyfja eitthvað lækka nú um mánaðamótin en megináhrif þeirra breytinga verða þau að útgjöld Tryggingastofnunar ríkisins til lyfjamála munu lækka, þ.e.a.s. ríkissjóður mun spara. Almenningur mun hins vegar ekki njóta lækkunarinnar nema að litlu leyti. Þetta er skýrt á meðfylgjandi töflu, þar sem algeng lyf eru tekin sem dæmi og forsendurnar eru fyrrnefndar yfirlýsingar ráðherrans. Það er mikilvægt að æðstu ráðamenn þjóðarinnar skapi ekki óraunhæfar væntingar hjá almenningi með yfirlýsingum sínum.

Samtök verslunar og þjónustu telja sér skylt að benda almenningi á staðreyndir málsins og því er þessi grein birt. Það sem liggur fyrir er að afar ólíklegt er að verð á lyfjum til almennings muni lækka um 20% hinn 1. október. Ríkissjóður mun að stærstum hluta njóta þeirra breytinga sem þá eiga sér stað. Þetta verða allir að gera sér ljóst.

- Auglýsing-

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.

Morgunblaðið 27.09.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-