-Auglýsing-

Gagnagrunni breytt á röngum forsendum

Persónuvernd segir rangar upplýsingar frá landlækni hafa verið notaðar þegar lögum um lyfjagagnagrunn var breytt. Upplýsingar um lyfjakaup eru geymdar í 30 ár. Persónuverndarsjónarmið voru virt segir formaður heilbrigðisnefndar Alþingis.
 
Breytingar á lögum um miðlægan lyfjagagnagrunn voru byggðar á röngum upplýsingum frá Landlæknisembættinu. Persónuvernd gerir athugasemdir við breytingarnar, sem gerðar voru á lyfjalögum í vor og vill breyta lögum á ný.

Persónugreinanlegar upplýsingar um lyfjakaup landsmanna eru nú geymdar í 30 ár, ekki þrjú ár eins og áður var heimilt.

“Við teljum að þetta sé ekki í samræmi við grundvallarreglur um meðalhóf í meðferð svo viðkvæmra upplýsinga,” segir Sigrún Jóhannesdóttir, forstjóri Persónuverndar. Hún segir að samkvæmt þarfagreiningu sem fram fór fyrir nokkrum árum eigi að duga að geyma upplýsingarnar í þrjú ár til að fylgjast með misnotkun á lyfjum. Sé vilji til þess að geyma upplýsingar lengur í vísindaskyni sé hægt að gera gagnagrunninn ópersónugreinanlegan eða finna aðrar leiðir til að tryggja öryggi upplýsinganna.

Í nefndaráliti meirihluta heilbrigðisnefndar um breytingar á lyfjalögum kemur fram að samkvæmt umsögn Landlæknisembættisins séu gögn í sambærilegum gagnagrunnum á hinum Norðurlöndunum varðveitt í 30 ár. Persónuvernd kannaði lagaumhverfi gagnagrunna á Norðurlöndunum, og komst að því að þetta á ekki við rök að styðjast.

Persónuvernd sendi nýverið heilbrigðisráðherra og formanni heilbrigðisnefndar Alþingis bréf þar sem vakin er athygli á þessu. Sigrún segir það skoðun Persónuverndar að breyta verði lögunum á nýjan leik svo persónugreinanlegar upplýsingar séu ekki geymdar lengur en nauðsynlegt sé í miðlægum gagnagrunni.

Ásta Möller, formaður heilbrigðisnefndar Alþingis, segir að í öllum tilvikum séu persónuverndarsjónarmið virt, aðgangur að gagnagrunninum lúti ströngum reglum og sé aðeins heimill með samþykki landlæknis.

- Auglýsing-

“Við hlustuðum á þessi sjónarmið Persónuverndar, en okkar mat var það að þær upplýsingar sem við hefðum í höndunum réttlættu þessar breytingar,” segir Ásta.

Hún segir þau sjónarmið hafa verið mikilvæg að stundum komi aukaverkanir lyfja ekki fram fyrr en mörgum árum eftir að þeim var fyrst ávísað.

Hvorki náðist í landlækni né aðstoðarlandlækni við vinnslu fréttarinnar.

Lyfjagagnagrunnar á Norðurlöndunum.

Ísland Upplýsingar geymdar í 30 ár.

Danmörk Upplýsingar geymdar í tvö ár.

Finnland Upplýsingar geymdar í 30 mánuði, og eftir það í tíu ár í öðrum gagnagrunni með strangari aðgangsheimildum.

Noregur Dulkóðaður gagnagrunnur, upplýsingum er ekki eytt.

- Auglýsing -

Svíþjóð Upplýsingar geymdar í annað hvort þrjá mánuði eða fimmtán mánuði.

brjann@frettabladid.is

Fréttablaðið 08.08.2008 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-