-Auglýsing-

Fremur skortur á samspili en kunnáttu

matthias_halldorsson_4.jpgErlendar rannsóknir benda til þess að fremur sé um skort á samspili en kunnáttu að ræða þegar sjúklingar fá ranga greiningu. Ekki hefur enn fengist fjármagn til að rannsaka þetta til hlítar hér á landi og landlæknir hefur grun um að ekki komi öll mál af þessu tagi upp á yfirborðið.

Samskipti lækna og sjúklinga skipta milljónum á ári hverju og því miður er ekki hægt að koma alfarið í veg fyrir að eitthvað geti farið úrskeiðis við greiningu sjúkdóma eða að réttri greiningu seinkar, en okkar hlutverk er að stuðla að því að halda þeim tilvikum í algjöru lágmarki. Læknar eru almennt vel menntaðir og tækin góð en sumir sjúkdómar leyna verulega á sér og ekki verður við öllu séð. Sérstaklega þarf að huga að því að upplýsingagjöf og samspil og samskipti milli heilbrigðisstarfsfólks séu með eðlilegum hætti,“ segir Matthías Halldórsson landlæknir spurður um skilvirkni íslenska heilbrigðiskerfisins þegar kemur að því að greina sjúkdóma.

Eins og saga Björgvins Björgvinssonar í Morgunblaðinu í dag og saga Atla Thoroddsens flugmanns í blaðinu fyrir þremur vikum staðfesta getur röng sjúkdómsgreining haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér. Björgvin lést í fyrra en krabbamein Atla er á lokastigi. Í báðum tilfellum er kvartað undan samskiptaleysi milli lækna.

Matthías segir landlæknisembættið reiðubúið að gera ítarlega almenna kerfisbundna rannsókn á helstu orsökum þess að mistök eiga sér stað í heilbrigðiskerfinu en ekki hafi fengist til þess fjárveiting. „Þetta er mikið verk eigi að gera það almennilega en eins og staðan er í fjármálum íslenska ríkisins núna eru ekki miklar líkur á því að fjárveiting fáist til þess á næstunni. Þangað til við getum gert þessa rannsókn er ógerlegt að segja til um tíðni mistaka af þessu tagi,“ segir Matthías en bætir við að margt bendi til þess að mistök í heilbrigðiskerfinu séu fleiri en komi fram. „Oft virðist tilviljunum háð hvað kemur upp á yfirborðið.“

Rútínuvinna færð til betri vegar

Ekki er venja að landlæknisembættið bregðist við málum óumbeðið en Matthías segir embættið í auknum mæli farið að breyta vinnubrögðum sínum á þann veg að það kanni og reyni að færa rútínuvinnu í heilbrigðiskerfinu til betri vegar í stað þess að bregðast við einstaka tilvikum. Nefnir hann sem dæmi klínískar leiðbeiningar, þ.e.hvernig eigi að greina og meðhöndla algenga sjúkdóma.

- Auglýsing-

Matthías segir rannsóknir á mistökum hafa verið gerðar víða erlendis og oftar en ekki hafi komið í ljós að samspilið milli fólks mætti vera betra. „Þetta er yfirleitt ekki kunnáttuskortur, heldur eitthvað sem fer úrskeiðis í kerfinu sem slíku.“

Frumvarp um sjúkraskrár liggur nú fyrir Alþingi og segir Matthías rafræna sjúkraskrá fá þar aukið vægi sem komi til með að verða til mikilla bóta, ekki síst þegar sjúklingar þurfa að ganga milli ólíkra sérfræðinga. „Það er mikilvægt fyrir lækni að geta komist inn í sjúkraskrá þegar á þarf að halda en okkur hefur stundum þótt persónuverndarsjónarmið hafa verið full ofarlega í forgangsröðinni. Að okkar áliti eiga þau að vera númer tvö, hagsmunir sjúklingsins númer eitt. Það getur til að mynda komið í veg fyrir að byrja þurfi allar rannsóknir frá grunni,“ segir Matthías en eðli málsins samkvæmt má engan tíma missa leiki grunur á alvarlegum sjúkdómi.

Fótsporin sýnileg

Landlæknir segir þetta fyrirkomulag alls ekki þurfa að vera á kostnað persónuverndar. Auðveldlega mega koma í veg fyrir að menn fari að óþörfu inn í sjúkraskrár með því að tryggja að alltaf sjáist hverjir hafi farið inn í kerfið og hvers vegna. „Við köllum þetta „fótsporakerfi“ en það myndi tryggja að menn færu ekki inn í sjúkraskrár án þess að eiga þangað gilt erindi.“

Landlæknisembættið er einmitt að senda frá sér dreifibréf þess efnis að ströng viðurlög séu við því að fara inn í sjúkraskrá að óþörfu. Jafnvel sé hægt að sækja menn til saka.

Í dreifibréfinu segir m.a.: „Allur aðgangur að heilsufarsupplýsingum skal vera skráður og fylgjast þarf reglulega með hverjir nota gögnin og hvernig og bregðast við ef notkun er ekki í samræmi við reglur. Niðurstöður innra eftirlits skulu skráðar og vera aðgengilegar eftirlitsaðilum þegar eftir því er leitað.

Öllu starfsfólki ber að undirrita trúnaðaryfirlýsingu. Nauðsynlegt er að tilkynna starfsmönnum að haft verði eftirlit með aðgangi þeirra að rafrænni sjúkraskrá, hvernig eftirlitinu er háttað og hver viðurlög eru ef starfsmaður brýtur reglur.“

Ýmsar leiðir eru til að kvarta yfir heilbrigðisþjónustu eða leita réttar síns og eru sumar þeirra bundnar í lög, einkum lög um landlækni nr. 41/2007 og lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Leiðirnar eru fleiri en fólk gerir sér í fljótu bragði grein fyrir. Hægt er að beina kvörtun eða kæru:

- Auglýsing -

*Beint til þess heilbrigðisstarfsmanns sem meðhöndlaði sjúklinginn.

*Til viðkomandi yfirlæknis.

*Til stjórnar stofnunar eða framkvæmdastjóra.

*Til landlæknis.

*Til sjúklingatrygginga.

*Til dómstóla.

Langalgengast er að fólk beini kvörtunum til landlæknisembættisins. Alls bárust embættinu 274 kvartanir og kærur árið 2007 en þær voru 271 árið 2006. Matthías segir þessi mál af ýmsum toga, allt frá því að vera lítilfjörleg upp í að vera grafalvarleg.

Matthías segir fleiri kvartanir hlutfallslega koma inn á borð hjá sínu embætti á ári hverju en á Norðurlöndunum en það helgist af því að kerfið sé mun smærra í sniðum hér á landi. Ýmis smærri mál sem landlæknisembættið fái til umfjöllunar hér kæmu aldrei inn á borð hjá sambærilegum embættum í stærri löndum. Þegar horft er til fjölda alvarlegra mála sýnist Matthíasi hann vera svipaður hér og í nágrannalöndunum.

Matthías segir í mörgum tilfellum heppilegt, einkum í smærri málunum að leita fyrst til viðkomandi læknis eða yfirlæknis hans og láta reyna á hvort ekki sé hægt að leysa málið á þeim vettvangi. Dugi það ekki til úrlausnar sé eðlilegt að snúa sér til landlæknisembættisins.

Matthías segir embættið hafa þá vinnureglu að leita umsagnar sérfræðinga sem ekki starfa með kvörtunarþola, jafnvel út fyrir landsteinana. „Sumir óttast það sem þeir kalla „læknamafíu“ hér á landi en ég hef aldrei orðið var við hana. Hér er unnið faglega að rannsókn allra mála,“ segir hann.

Embættið áskilur sér rétt til að gefa sér góðan tíma til að komast að niðurstöðu, einkum í flóknustu málunum.

Matthías segir kvörtunum og kærum hafa fjölgað talsvert frá því hann hafði fyrst aðkomu að þessum málum fyrir um tveimur áratugum en fjöldinn hafi verið nokkuð stöðugur undanfarin fjögur til fimm ár.

Fram til ársins 2007 gat fólk líka leitað til nefndar um ágreiningsmál í heilbrigðisþjónustu en Matthías segir málum sem komið hafa inn á borð til embættis hans ekki hafa fjölgað að ráði eftir að nefndin var lögð niður.

Varðandi faglega starfsemi

Landlæknisembættið tekur við kvörtunum sjúklinga er varða faglega starfsemi innan heilbrigðisþjónustu. Með faglegri starfsemi er einkum átt við skoðun, rannsóknir, meðferð og/eða eftirlit af hálfu heilbrigðisstarfsmanna, brot á þagnarskyldu, vottorðagjöf, meðferð trúnaðarupplýsinga, upplýsingagjöf til sjúklings og aðgengi að sjúkraskrá.

Landlæknisembættið er sjálfstæður og óháður eftirlits- og rannsóknaraðili sem leitast við að leiða fram niðurstöðu varðandi það hvort unnið var faglega rétt í máli sjúklings af hálfu heilbrigðisstarfsmanns eða hvort einhverju hafi verið áfátt í starfi heilbrigðisstarfsmanns miðað við viðurkennda þekkingu. Ekki er því tekin afstaða til þess hvort sjúklingur fékk bestu mögulegu meðferð. Landlæknisembættið ákveður ekki hvort atvik kunni að vera bótaskylt.

Umsókn um bætur vegna tjóns í tengslum við meðferð innan heilbrigðisþjónustunnar skal beina til Sjúkratrygginga Íslands, ef um er að ræða tjónsatvik innan opinberrar heilbrigðisþjónustu. Ef um er að ræða tjónsatvik sem varð á einkastofu læknis, tannlæknis eða annarra heilbrigðisstarfsmanna skal beina bótakröfu að tryggingafélagi viðkomandi sérfræðings.

Sjónarmið kvörtunarþola

Eftir að kvörtun hefur borist er kvörtunarþola (lækni eða öðrum heilbrigðisstarfsmanni) sent bréf með upplýsingum um að kvörtun hafi borist ásamt afriti af kvörtunarbréfinu. Óskað er eftir sjónarmiðum hans í málinu. Einnig er óskað eftir upplýsingum úr sjúkraskrá þess sem kvartaði. Þegar öll gögn liggja fyrir fara starfsmenn embættisins yfir málið.

Tækifæri gefst til þess að koma að athugasemdum eða leiðréttingum áður en gengið er frá endanlegri álitsgerð landlæknisembættisins. Kvörtun skal að öllu jöfnu bera fram innan tveggja ára frá því að sjúklingur áttaði sig á misfellum varðandi meðferð sína, og í síðasta lagi innan tíu ára frá því atvikið átti sér stað.

Niðurstaða kvörtunarmála berst málsaðilum skriflega. Landlæknisembættið getur beint tilmælum til heilbrigðisstarfsmanns um úrbætur, áminnt hann eða svipt hann starfsleyfi. Leyfissvipting er alvarleg og þungbær niðurstaða, sem ekki er beitt nema við mjög alvarleg eða endurtekin brot í starfi.

Eftir Orra Pál Ormarsson

orri@mbl.is

Morgunblaðið 22.02.2009

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-